Wednesday, December 29, 2004

Draumar

Dreymdi furðulega í fyrrinótt.
Skömmu fyrir svefninn hafði ég ákveðið að sofa í nærbolnum, þar sem mér var hrollkalt. Ég var í hvítum nærbol, þar sem ég hafði verið í þannig skyrtu um daginn. Upp hefjast þessar rosalegu draumfarir um að ég sé sofandi, í bláum nærbol. Hvað er málið með það? Svo hrekk ég upp um miðja nótt, og kíki á nærbolinn... sem var enn hvítur. Kommon, klukkan er bara fjögur. Einhversstaðar inn í mér heyrði ég svo, "hahh, ég vissi það!". Nú var ég ekki alveg með á nótunum hvaða sjóntruflanir höfðu orsakast af ofáti um jólahátíðina. Ég hlammaði mér aftur á koddann.
"hmmm, færri dagar, sama magn af mat" ÞAÐ hlýtur að enda með ósköpum.
"hmmm, kannski þrýsti maturinn allur á heilann" ÞAÐ hlýtur að enda með ósköpum.
"hmmm, kannski borðaði ég bita úr heilanum" ÞAÐ hlýtur að enda með ósköpum.
"hmmm, kannski er feitt fólk bara vitlaust"
"hmmm, kannski er ég að verða feitur" ÞAÐ hlýtur að enda með ósköpum.
"hmmm, ósköp"... sköp...ÞAÐ hlýtur að enda vel.
. .. .... .... ...... ............... ................................................................
Svona dúndruðust hugmyndir í hausnum á mér alveg þangað til vekjaraklukkan sendi frá sér ámáttlegt vein.
8 dísus.... ef þetta verður ekki mánudagur í helvíti...
kveðja
Langi Sleði

Monday, December 13, 2004

sólir, reikistjörnur og annað smálegt

Sumir dagar líða þannig að það er eins og lífið gangi út á það að breiða út faðminn og grípa sólina. Þetta eru dagarnir sem við öll þekkjum... þegar okkur færist of mikið í fang.
Eins og lesendur vita... þá er Langi Sleði mjög ómissandi... enda flínkur að grípa sólir, reikistjörnur og annað smálegt.
Við þekkjum líka öll, fólk, sem getur ekki einu sinni gripið andann á lofti, þótt lífið liggi við.
Langi Sleði tók þá stóru ákvörðun að reyna að hætta að ergjast út í ÞETTA fólk. Síðan þá er ég búinn að uppgötva valíum. Valíum hjálpar sólum og stjörnum að svífa miklu lengur, ekki í átt að mér, og yfirleitt beint í faðminn á þessu erfiða fólki.
Mér finnst það fyndið að fólk hafi engan tilgang í lífinu, nema ég sé á valíum.
góðar stundir
Langi Sleði


Wednesday, December 01, 2004

Miðvikudagur

Eftir að hafa slegið vekjaraklukkuna utanundir, með fimm mínútna millibili í heilan klukkutíma, þá opnaði ég augun. Það fyrsta sem ég sá var tagl, ég staulaðist fram úr rúminu og burstaði í mér tennurnar. Ég leit í spegil og sá að ég var hestur. Ég sem var búinn að ákveða að fara í ljósblárri skyrtu í vinnuna í dag. Frekar svekktur yfir því, en var samt ánægður með að vera skjóttur.

Mætti á fund kl 9 og eftir fyrsta kaffibollann, fór líkami minn smám saman að taka á sig kunnuglegri mynd. 10:30 vaknaði ég svo alveg og áttaði mig á því að ég var enn frekar skjóttur. Litgreiningin mín hafði eitthvað klikkað í morgunmyglunni.

Hrossið virtist þó eitthvað fylgja mér í gegnum daginn, þar sem ég losnaði aldrei við makkann og svo gekk allt einhvernveginn á afturfótunum. Hryssingsleg vinnubrögð í vinnunni osfrv.

Að loknum 14 tíma vinnudegi kom ég heim og fór beint í sturtu, verðskuldaði bjór og hafra.
góðar stundir, betri daga
Langi Sleði

free web hit counter