Tuesday, May 31, 2005

sofandi á bakinu...

vaknaði ég upp í nótt, við það að bakið var pinnstíft.
Ég horfði upp í loftið úthvíldur, ferskt loftið sveif seglum þöndum inn gluggann.
Ég rétti út hendurnar og lokaði augunum, góður ilmurinn af nóttinni. Ég fann hvernig ég lyftist upp frá rúminu. Ég notaði til þess bakvöðvana, magann og myndirnar sem eru á bak við augun. Ég fann mikinn kraft umlykja mig, "all powerful" það gat ekkert komið fyrir. Rólega sveif ég upp, upp, upp.
Svo þegar ég vaknaði í morgun, varð ég eiginlega bara hissa að vera enn í rúminu mínu.
Magnaðir stundum þessir draumar.

góðar stundir
Langi Sleði

Saturday, May 28, 2005

Af tölum...

172, var númerið á skápnum mínum í sundi í dag. Það minnti mig á aðra tölu, eða 1729.

Eitt sinn var breskur stærðfræðingur að nafni Hardy. Hann var eitt af þessum undrabörnum, fámáll, sérvitur og flínkur í stærðfræði. Hann ferðaðist oft til Indlands og eignaðist þar vin, sem öllum að óvörum var annað undrabarn. Sá hafði hlotið litla sem enga menntun, en var séní engu að síður, nafnið hanns er mér gleymt, kallið það hvað sem er en í mínum huga var nafnið hans alltaf random samsetning af stöfunum Y,a,n,g,i,v og u, man bara að Y var fyrsti stafurinn, svo ég kalla hann herra Y.
Herra Y sýndi svo mikla hæfileika og innsýn í tölur að Hardy ákvað að flytja hann til Bretlands, í hjarta breska heimsveldisins. Í gegnum árin þroskaðist með þeim einhverskonar vinátta sem entist ævilangt.
Sá sögubútur sem ég ætla að segja ykkur frá, gerðist þegar Y lá banaleguna.
Hardy heimsótti vin sinn á sjúkrahúsið, og eitthvað var honum stirt um málbeinið.
Einhvern veginn stynur hann upp: "númerið á leigubílnum hingað var 1729, mér fannst það nú heldur ómerkileg tala!"
Þá stynur Y, hálfdauður: "Það er alls ekki rétt hjá þér, þetta er mjög merkileg tala! Þetta er lægsta tala sem hægt er að skrifa sem summu tveggja heilla talna í þriðja veldi á tvo mismunandi vegu."
Þeir sem misstu þráðinn, þá var hann að segja:
a^3+b^3=e
og
c^3+d^3=e
og a#b#c#d (#, er ekki jafnt og)

og tölurnar eru a=1, b=12, c=9, d=10, og e náttúrulega 1729.

Þessar, tilfinningalegu risaeðlur fundu það semsagt út, að það voru engar ómerkilegar tölur.
Þeir fundu vináttu, og þótt að það hafi verið alveg út úr karakter fyrir Hardy að mæta á spítalann, þá gerði hann það.

Á sömu nótum og tölurnar var þeim vinskapurinn, þótt þeir hafi ekki endilega komið honum í orð, þá gátu þeir sýnt hann, á þennan sérstaka máta.

Tölurnar eru eins og við manneskjurnar, öll sérstök. Maður þarf ekki endilega að skilja það, en það er þroskamerki að vita það og kunna að haga sér í samræmi við það.

Stórkostlegt að sjá einfaldleika lífsins, stjórna þessum flóknu jöfnum,

góðar stundir

Langi Sleði

Friday, May 27, 2005

Tímaglas

Ég var með útlending hjá mér vegna vinnunnar á þriðjudaginn. Hollendingur, sem hafði mikinn áhuga á Íslandi og landslagi. Á leiðinni heim frá Akranesi bauðst ég til þess að taka krók, og fara Hvalfjörðinn. Þetta var dásamlega fallegur dagur og við ákváðum að bruna um Hvalfjörðinn.
Ég sagði honum svo frá fjallanöfnum, kirkjustöðum og hvalstöðinni. Hermannvirkjunum, Glymi, Botnsdal og skýringuna á nafninu Ferstikla. Það er magnað hvað Hvalfjörður er orðinn mikil sveit við að detta úr alfaraleið. Alls staðar var dauðaþögn, nema á Ferstiklu þar voru vegagerðarmenn að versla sér hamborgara og sígarettur. Þeir voru greinilega ekki þarna í fyrsta sinn, því að þeir fóru allir úr skónum útá plani og sumir fóru úr meiru. Sólin skein, fuglarnir kvökuðu, ég fyllti bílinn af bensíni og vegagerðarmenn ræddu að það væru tvær leiðir til að rífast við konu. Ég lagði strax við hlustir en svo heyrði ég að hvorug aðferðin virkaði. Frétti reyndar líka að það væri slæm franska að taka inn svefntöflu og laxerolíu í sömu mund. Ætla reyndar að muna að forðast það.

Ég ákvað að taka Lyngdalsheiðina, og sýna honum Þingvelli. Við keyrðum í gegnum vinnusvæði vegagerðarinnar, ég sagði honum að þetta væru allt eðlileg vorverk. Er við stigum út úr bílnum við Almannagjá, fundum við megna bensínlykt. Einhvers staðar á heiðinni, hafði steinn hrokkið í bensínleiðsluna, og tankurinn var orðinn tæplega hálfur.

Fokk.

Spúandi bensíni brunaði ég niður í þjónustumiðstöð þjóðgarðsvarða þar sem ég fann allt lokað, en fann svo tvo verði á bak við skúr í tilhugalífinu. Við fundum hosuklemmur og slöngubút, gerðum við bensínleiðsluna og brunuðum glorhungraðir í bæinn. Hann heimtaði að fá að bjóða mér út að borða með því skilyrði að ég veldi staðinn. Við fórum á Tvo fiska, fengum þar öndvegismat. Ég held að hann hafi pantað sér ferð til Íslands með Smyril Line, áður en hann fór úr landi. Hann hringdi 3svar í konuna sína á leiðinni. Þetta var svo mikið ævintýri.

Ævintýri eru af öllum stærðum og gerðum.
Fólk er af öllum stærðum og gerðum.

Stundum eru litlu hlutirnir, margfalt stærri, í augum annarra. Og stundum ekki. og stundum eru stundir allt sem þarf.

Góðar stundir
Langi Sleði

Thursday, May 26, 2005

Langferð

Ég lagði upp í langferð og stefnan var á móti sólu! Með bakpokann hlaðinn af eftirvæntingu, von, súkkulaðirúsínum og salthnetum hélt ég af stað.
Í fyrstu voru sporin létt, ég sá leiðina sem ég átti fyrir höndum og berfættur hljóp ég yfir iðagræna velli.
Smá saman bættist í bakpokann, ofinn og vafinn efinn.
Ég veit ekki hvort svona leiðir hálfna, en skyndilega var ég farinn að hlaupa á grjóti, á svipuðum tíma, varð ég að losa mig við súkkulaðirúsínurnar og salthneturnar, því ofinn og vafinn efinn tók sífellt meira pláss í bakpokanum.
Grjótið varð sífellt grýttara, hvassara og brekkurnar urðu sífellt brattari. Ég losaði mig fyrst við eftirvæntinguna, þó hún tæki ekkert pláss og hún væri alls ekki þung. Ég var farinn að klifra, hruflaður á höndum og fótum, klifraði ég áfram upp, en samt fór samt hægar en fjallið hækkaði.
Þótt að fjallið hækkaði hraðar en ég klifraði, þá komst ég að lokum upp, ég man ekki nákvæmlega hvenær ég losaði mig við vonina, en það var auðvelt eftir allt saman. Enda er ofinn og vafinn efinn, hlýr... Svona á tindinum. Man samt ekki alveg af hverju ég lagði upp í þessa ferð!

Góðar stundir
Langi Sleði

Tuesday, May 17, 2005

Að sækja vatnið yfir lækinn

Ég heimsæki ömmu mína mjög reglulega, reyni að hafa það einu sinni í viku. Í þessum heimsóknum ber margt á góma, lífið í dag, lífið í gær, lífið fyrir stríð, lífið í ljósinu og lífið í myrkrinu. Jahh.. þið náið heildarmyndinni. Svo tölum við líka mikið um bridds og fótbolta. Við tölum um allt sem okkur dettur í hug. Þetta er amma mín í föðurætt, hún Ingunn. Nú um daginn vorum við að rifja upp gamlar sögu af hinni ömmu minni , henni Ágústu.

Amma Gústa var afar mikil veiðikona, og einhvern tímann var frúarferð í veiðikofa vinahjóna. Amma Gústa, náttúrulega orðin mjög spennt að komast út í á, hljóp inn með dótið rétti svo ömmu Ingu tvær 20 lítra járnfötur og sagði: "jæja Inga mín, nú förum við og sækjum vatn". Það var dágóður spotti að læknum og Gústa vildi náttúrulega fylla föturnar, "færri ferðir skilurðu". Amma Inga sagði að bakaleiðin, hefði nú verið sá tími sem hendurnar hennar lengdust mest. Inga var að niðurlotum komin þegar þær komu aftur í bústaðinn, en Ágústa hafði farið alla leiðina í bomsunum. Hún var þannig.
Gústa: "jæja Rannsí mín, það eru komnir hérna 80 lítrar af vatni. Má ég þá ekki bara fara út í á?"
Rannsí: "Já, en Gústa mín, við erum búin að leggja vatn í bústaðinn."
Gústa: "Iss, þetta er miklu betra og ferskara vatn."
Svo var hún farin út í á, hlaðin þeim veiðigræjum sem allir fullvaxta karlmenn, myndu veigra sér við að bera í dag.

Þetta var einn partur af mínum hugsunum áðan. Að sækja vatnið yfir lækinn, sjá ekki fjallið fyrir hólnum, og tréð fyrir runnanum.

Nafni minn hann afi sagði eitt sinn við mig er ég var að halda út eftirlitslaus í Galtalæk um verslunarmannahelgi: "Farðu varlega, en djarflega inn um gleðinnar dyr". Þetta orðatiltæki hef ég alltaf munað, kannski mest vegna þess að mútta varð orðlaus. En kannski líka af því að oft hefur mann skort þor en hugsandi um þetta hef ég oft farið síðustu metrana.

Að þessum forsögum loknum, fer ég að nálgast þá hugsun sem leitaði á mig áðan.

1. Ef maður ætlar að sækja vatnið yfir lækinn, má maður gera ráð fyrir því að þurfa að ganga bæði varlega og djarflega. Annars gæti eitthvað lengst fram úr hófi, hvort heldur sem er hendur, tími eða ráð.
2. Ef maður ætlar sér inn um gleðinnar dyr, er ekki mikið að þurfa að þvera nokkra læki, sprænur eða jafnvel fljót. Sérstaklega ef maður er bara alltaf í bomsum.
3. Það er merkilegt hvað vatn leitar í margar dæmisögur, kannski er það hinn eini sanni lífsþorsti sem þjáir mig.

Með vatn mér við hlið og buxur brettar upp að hnjám, segi ég skál og stundir góðar.

Langi Sleði

Monday, May 16, 2005

Tommustokkurinn sem lét í ryksugupokann

Þessar baðframkvæmdir enda bara ekki. Stundum held ég að ég sé að breytast í tommustokk. Tók reyndar laugardaginn í að þrífa heima hjá mér. og... það var ekki vanþörf á. Tók fram ryksuguna og hófst handa. JÁ.. ég lét í minni pokann fyrir ryksugunni og ekki bara henni, heldur þar sem ég stóð og spígsporaði um íbúðina, þá rifnaði pokinn. og ég stóð á skýi. Eina sem mér datt í hug að gera var að hlæja, já ég lét ekki í minnipokann fyrir ryksugunni, heldur lét ég í ryksugupokann fyrir þessu dauðans apparati. Allavegana nú er orðið svo hreint hérna inni að það er eins og að hér hafi ryk aldrei komið inn. Því var hent út, lykillausu!
og núna.. er ég að fara að þrífa baðgólfið, ég fúgaði það í dag.

góðar stundir
Langi Sleði

Wednesday, May 11, 2005

Við sem virðumst viðra

Þetta neyslusamfélag er ekki allt þar sem það er séð...

Ég fór inn í Heimilistæki nú um daginn því ég var að leita að festingu fyrir skjávarpann minn, kom út hálftíma síðar, furðulostinn, með ryksugu undir hendinni.

"aaa...skjávarpafestingu? Til hvers? En við erum með ryksugur!"
"aaa... það verður allt svo hreint og fallegt"...
"aaa...hún er æðisleg, 1500 wött"
"aaa...þessi er ákkúrat það sem þú þarft! hvaða lit viltu?"

Ég labbaði heim í losti, upp 4 hæðir, inn um útidyrahurðina, læsti á eftir mér, settist niður í hugs-stólinn minn og horfði sakbitnum augum á gömlu ryksuguna. Það fyrsta sem ég uppgötvaði þar var að ég hafði skilið bílinn eftir fyrir utan Heimilistæki.

Svo hófust rökræðurnar. Neyslusamfélagsgenið hrópaði hástöfum "BRUÐL" hugurinn þakinn hvæsi...Ég komst aldrei lengra en "já, en!". Ég fékk mér drykki. Ég veit ekki hvað leið langur tími áður en ég mannaði mig upp í að draga kassann sem innihélt nýju ryksuguna, inn í sama herbergi og gamla ryksugan stóð, líklega á bilinu 4 til 7 glös.
Hávaðinn í gömlu ryksugunni virtist ekkert ætla að minnka, þrátt fyrir að kæruleysið ykist. Einhverntímann um kvöldið henti ég gömlu ryksugunni niður af svölunum, með þeim afleiðingum að rafmagnsnúran slitnaði og skyndilega varð allt hljótt.

En það stóð ekki lengi.
Áður en ég vissi af var ég farinn að uppfylla þarfir nýju ryksugunnar. Kominn í vinnu fyrir ryksugu. Þetta er líklega sama vinna og að vera með gæludýr. Ganga frá henni á sinn stað, fara með hana í göngutúra um íbúðina reglulega, skipta á henni og stinga henni í samband... er það nú frekja ... maður er ekki einu sinni í sambandi sjálfur.
Ég er búinn að ætla að skila henni margoft, þetta nær bara ekki nokkurri átt...
En í dag... er líklegra að hún skili mér, maður er bara ekki... frambærilegur.
Þess vegna held ég henni í kvörtunarfjarlægð, þessa dagana.
Er ekki til einhver sem tekur að sér að geyma hana fyrir mig?

Góðar stundir
Langi Sleði

Thursday, May 05, 2005

Orðið varð ver

Ég var að hugsa að...
ef vængir orða minna gætu, leiðbeint vængjum gæfu minnar, framhjá gjótum og götum villu.
Og fagrir orðaforða borðar, breiddu úr sér í brjálæðishrifningu með bros í beiðum blóma og hamingju í heiðum hljóma. Þá væri hverflyndi veðursins hið eina desibel. En svo eru orðin í manna munnum, einkennandi fyrir ætlan, yfirleitt. Manneskjan falin í orðanna röðun og túlkun, hve hugrekkið hefur hér mikið að segja, en alls ekki neitt umfram heilindi.
Því að jafnt á skýjuðum áttunda degi og heiðskírum hvunndegi mun manneskjan skína í gegn, með allt sitt hafurtask. Því og þá og þess vegna, varð orðið ver.

góðar stundir
Langi Sleði.

free web hit counter