Sunday, July 24, 2005

veruleikinn í draumunum og mörkin þar á milli

...of oft hefur það komið fyrir að ég hafi legið uppí rúmi og hugsað. Þetta verð ég að skrifa um á morgun. Næsta dag man ég ekkert, nema að ég er búinn að gleyma því sem ég ætlaði að skrifa um. Frekar pirrandi. Í dag lá ég í sólbaði í lauginni minni ásamt þúsund yngismeyjum. Og ég get alltaf furðað mig á því hvert þessar konur hverfa þegar veðrið er vont. Sundlaugarvörðurinn var mjög pirraður á krökkum, hangandi á línunni, búa til stíflu í rennibrautinni, og allt blandaðist þetta saman við gsm símhringingar, sms, bdsm, hrygluna í manninum við hliðina, þegar hann rembdist við að naga á sér táneglurnar og soghljóðið í heitapottinum, þegar vatnið heimtar að vera lengur. Svo fór ég að heyra fleiri hluti, skrítnari hluti. Skrjáf í ælænerum, varalitum, heyrði í bikiníum sem hafa aldrei synt, sundgleraugu sem héldu að þau væru blíng. Svo komu hvítu slopparnir undir hendinni á tattúfólkinu sem var búið að fara í brúnku-hlaupabrettis trítmenntið í húsinu á móti, kvartandi að þeir hefðu nú aldrei verið eins niðurlægðir og nú. Sundlaugarvörðurinn var nú farinn að tala við sjálfan sig í kallkerfinu, hvernig hann hefði átt í ástarsambandi við kvenfólkið sem bjó undir sundlauginni. Fallegt kvenfólk í álögum sem býr undir sundlaugum, og fær bara að koma út á góðviðrisdögum. Hann var helst til pósessívur, og var farinn að skamma kalla fyrir að glápa á konur. Hótaði að senda þær aftur inn undir laugina. Þær svöruðu með því að fara úr brjóstahöldunum, allar í einu. Það sló dauðaþögn á lífið í lauginni. Gömul kona kom með hænuegg í heitasta pottinn, sagðist njóta þess svo að nýta sér einu guðsgjöfina sína, þolinmæðina.

Ég veit ekki, hvenær, en einhvern tímann voru mörkin á milli draums og veruleika... og að einhverju leiti eru draumarnir líka veruleiki.
Skrítið oft hvað hugurinn getur spilað með mann stundum. Eitt er allavegana pottþétt. Ég verð að komast undir þessa sundlaug einhverntímann!

Góðar stundir
Langi Sleði

Wednesday, July 20, 2005

allar systur eru kisur

hér er ein
Free Image Hosting at www.ImageShack.us

Tuesday, July 19, 2005

hálfkveðnar vísur

Einn lesandi minn, er ... stútfull af kvenlegu innsæi. Eða ég leiddi hana eitt sinn í sannleikann um það að hver einasta bloggfærsla er uppfull af meiningu. Það sem er í gangi í lífinu mínu, umhverfis mig og all around. Ég hef þurft endursegja suma pistla frá orði til orðs, hef gert það með glöðu geði... Hún er klár stelpa.
En hvað um það... ég ætla ekki að skýra út póstana mína, þetta er mín aðferð við að fást við spéhræðsluna í skjóli skjásins.

Ég hef ekki áhuga á því að búa til misskilning, þannig að ég hef frekar valið að láta ykkur skilja ekki neitt, eða lítið, eða allt.

Sem er allt í lagi. Snýst aðallega um lesturinn, og brosið, hinumegin við skjáinn.

góðar stundir
Langi Sleði

Wednesday, July 13, 2005

...í kvöld

lá ég með fæturna upp í loft. Í hárauðum strigaskóm. Með borð hlaðið veigum, og hugann hlaðinn veigalitlum orðum. Skelfing var loftið hvítt og hornið asnalega staðsett. Angurværðin, hafði brotist út í munnangri. Tungan benti á unga, stúlku frá Nepal sem hafði aldrei séð sjálfa sig í spegli, fyrir neðan hana var heill fermeter af spegli. Sem ég ætla að baða mig í síðar meir en ekki í kvöld. Skoplegar þessar tilviljanir stundum.
Bíllinn þykist þurfa að hafa vit fyrir mér. Samt geri ég mér enga grein fyrir því hvað hann er að reyna að segja, enda er hann franskur.
Þegar taugarnar öskra af öllum mætti, og tennurnar glamra. Þegar kettirnir mjálma á konurnar í hinni álmunni, rennur áman á stofuborðið, ekki endilega til að vera drukkin, heldur einungis til að fylgjast með. Í ofvæni, vænissjúkra miðla, til að lifa af depurð dagsins, dýrð næturinnar og dásemd draumana.

góðar stundir
Langi Sleði

Tuesday, July 05, 2005

Vagg og velta.

Nefnist nýja útivistarátakið í Grafarvogi.

Ósmekklegt kannski að segja það en hvað haldiði að það hafi margir Grafarvogsbúar, gengið fjörustíginn í gær, bara einmitt út af þessu?

My respect to the planning committee!

kveðja
Langi Sleði

Saturday, July 02, 2005

Live ate!

Eftir að fótboltafélagarnir lögðust inn á elliheimili, hætti ég að spila fótbolta á föstudagseftirmiðdögum. Mín skoðun er að það ætti að lögleiða íþróttir á föstudagseftirmiðdögum, fólk þarf að losa eftir vinnuvikuna. Miklu betra en að drekka sig fullan, og losa í einhverja ókunnuga stelpu ... einhversstaðar... af hverju ætti hún að líða fyrir mína vinnuviku. Eníveis, þetta er kannski önnur umræða og forsagan gegnir allt öðru hlutverki og kráarkynlíf er engin sérstök saga.

Ég þurfti því að finna nýja leið til að ljúka vinnuvikunni. Ég skil símann eftir heima, rölti niður í bæ og fer á kaffihús og glugga í blöð. Þetta hljómar kannski ekki merkilega, en þetta er yndislega endurnærandi. Oft hitti ég fólk sem ég hef ekki séð í áraraðir, og oft hitti ég fólk sem ég á áreiðanlega aldrei eftir að sjá aftur.

Í dag, hitti ég m.a. feðga sem ég veit nákvæmlega ekkert um, nema 3 ára snáðinn, var svipað gáfaður og pabbinn, í mínum augum allavegana.
Ég byggi þessa skoðun mína algerlega á einu samtali, og finnst það bara fjandi gott.

Faðir (nógu og hátt til að kaffihúsið heyri): "Jæja, sonur nú þurfum við að koma heim því ég er að fara að spila á tónleikum á eftir."
Sonur: "Æ Nei" (hann var upptekinn við að klifra uppá stóla)
Faðir (kraup niður og tók í báðar hendur á stráknum): "Jú, veistu af hverju pabbi er að fara að spila? Það er af því að í Afríku deyja 50 þúsund börn á hverjum einasta degi, veistu það?"

(Innsk: Sko, hann er þriggja ára, veit ekki hvað 50 þúsund er, hann veit ekki hvað Afríka er, hann veit varla hvað tónleikar eru)

Sonur: "Af hverju?"
Faðir: "Af því þau eiga ekkert að borða"
Sonur: "Af hverju? Koma þau að borða?"
Faðir: "Svona komdu!"

Einhverjir lesendur, þekkja hlátursköstin mín og nú upphófst eitt slíkt, kæft í latte. Sæta stelpan á næsta borði, horfði á mig svitna og hristast með andlitið oní latte, með ráðavilltum svip... eins og hún væri að vega og meta hvort hún ætti ekki bara að skella Heimlich takinu á mig, svona bara til öryggis.
Ég jafnaði mig, ég var búinn að hleypa vikunni út. Reyndar las ég um alveg magnað verk í Berlín, sem er verið að byggja í minningu um látna gyðinga í heimsstyrjöldinni.
Arkitektinn, Peter Eisenman, hefur líklega skráð sig á spjöld sögunnar með þessu verki. Mig langar að skoða þetta, held að það sé ansi áhrifamikið að vera þarna. Ég mæli með því að þið skoðið þetta.

Góðar stundir
Langi Sleði

free web hit counter