Thursday, August 25, 2005

síminn

Þurfti að hringja í þjónustuver Símans í gær. Þangað hringir maður nú ekki að gamni sínu, óbrjálaður maðurinn.

Elvis söng í símann: "wise man said, only fools call in"

krappedífrapp....

vingjarnleg konurödd sagði: "... þú ert númer 20 í biðröð."

Ég lagði frá mér tólið, rölti niður í kaffistofu, náði mér í kaffi og köku, spjallaði aðeins við starfsmennina, settist við símann og...

krappedífrapp....

kellingin sagði: "... þú ert númer 19 í biðröð."

Ég skellti símtólinu á borðið, las "stríð og frið" á klósettinu, náði mér í kaffi og köku...

krappedífrapp...

beljan nöldraði: "þú ert númer 10 í biðröð.

Ég gersamlega flippaði, ég þeytti símtólinu í gegnum tölvuskjáinn. Þvínæst hljóp ég út í bíl og reykspólaði út í næsta apótek, þar sem ég var borinn út brjálaður þar sem þau, neituðu að afgreiða mig um valíum. Ég hljóp öskrandi um bæínn, þangað til ég var kominn í hesthúsahverfið, þar var ég snúinn niður og sprautaður með deyfilyfi fyrir hesta.

Ég sveif í stólinn og gellan í símanum byrjaði að reyna við mig.

"cause you are such a good listener" söng hún..

krappedífrapp... þú ert númer 1 í biðröð.

This was it... this was really it.. I'm finally there... third base...
Hafði samt 20 mínútur til að hugsa hvort ég ætti að hella mér yfir konuna yfir biðinni, eða bara að slá þessu upp í létt grín og láta sem ekkert væri.

krappedífrapp...

konurödd svaraði í símann: "Síminn, góðan dag!"

Ég: "Ha!...óóó.. Ég ætlaði að hringja í Hallgrím Pétursson!"

klikk... dududududdu

Ég: "Halló, HALLÓ....
góðar stundir

Langi Sleði

...af fólki

Ég opnaði tölvuna, setti fingurna á lyklaborðið og strauk því blíðlega. Vissi ekki hvað ég myndi skrifa um, vissi bara að ég myndi skrifa, þyrfti að skrifa.

Sat í hásæti mínu upp á skrifstofu í dag, og var að pæla í mannfólkinu. Magnað hvað við erum ólík.
Í vinnusalnum voru iðnaðarmenn, faglærðir jafnt sem ófaglærðir, í vinnugöllum þöktum smurolíu. Sótsvart, hart augnarráð áranna, sorfið í stál. Stál sem þeir hætta aldrei að vinna, amk ekki á meðan þeir eru með sígarettu í munnvikinu. Það ber hvergi skugga á virðingu mína fyrir þessum mönnum. Þessir menn herða bolta og beygja stál með berum höndunum. Þegar nýjir menn koma til starfa, eru þeir ýmist, fljótir að koma til, eða fljótir að deyja.

Sú virðing sem skapast "á gólfinu", er eingöngu byggð á verklagni og vinnusemi. Elju.
Þessum frumkrafti, sem er innan í svo mörgum sem við þekkjum.

Þetta fékk mig til að hugsa, að skrifstofustólafólkið, á yfirleitt miklu auðveldara með að fela aðgerðarleysi sitt. Sumt fólk sem ég þekki, er ekki einu sinni með drifkraft í sér til að vera kallaðar "heilar manneskjur", heldur aðeins skuggamynd af "mini-me"-i sjálfs sín. Fólk sem tekur sömu gáfna- og persónuleikapróf og Playmobil karlar (ætlaði að skrifa "Barbie-dúkkur" en ... þið vitið).

Svo er til fólk, sem er nákvæmlega ekkert ómögulegt. Máninn lætur undan, stjörnurnar vikna og sólin brýst fram. Hvenær sem er. Þetta ótrúlega fólk.

góðar stundir
Langi Sleði

Sunday, August 21, 2005

...lífsstefnuákvarðanir

eða prinsipp, hafa verið að þvælast fyrir mér undanfarið. Einhvern veginn er maður þannig uppalinn, og af guði gerður að maður lifir skv. fyrirfram ákveðnum, eða mótuðum skoðunum. Um helgina lét ég prinsippin lönd og leið fyrir eiginhagsmuni. Líklega má segja að þetta hafi verið mitt framlag til menningarnætur. Líklega eldist maður þannig að eitt prinsippið af öðru deyr í stórkostlegu fullorðinsbrimi. Maður saknar þess aldrei, en svo...skilur maður ekki af hverju maður lét ekki af þessum kergjum fyrr... æ ég veit það ekki.
Þetta eru allt of alvarlegar vangaveltur fyrir svefnvana huga minn núna.


Góðar stundir
Langi Sleði

Thursday, August 18, 2005

sumir hlutir...

eins og tónleikarnir með Sonic Youth. Skilja mann eftir algerlega orðlausan.
Takk fyrir og bless!
Eins og kanadískur kunningi sagði alltaf.

Nú, yfir í alvöru lífsins.
Yfirmaður tæknifræðideildarinnar, sem er hún, (óþarfa upplýsingar kvenkyns lesendum mínum einungis til ánægju) hringdi aftur í mig og bað mig um að vera leiðbeinandi um B.Sc verkefni eins nemanda þarna.
Samtalið gekk svona:

Hún: Sæll, varstu búinn að hugsa meira um þetta lokaverkefni?
Langi Sleði: Já, ég var svosum búinn að því, en það var kannski engin ein hugmynd sem greip mig, kannski þyrftum við að bræða saman nokkrar hugmyndir.

Hún: Já, það er allt í lagi, ég læt ykkur þá bara um að hittast og skilgreina verkefnið.
Langi Sleði: Já, þú sendir mér kannski nokkur týpísk verkefni, varðandi vinnumagn og gæði.

Hún: Ég geri það, var það eitthvað fleira?
Langi Sleði: Já, geturðu ekki látið þetta vera sæta stelpu með stór brjóst?

.....Löng þögn.....

Hún: Ég sendi þér Björgvin!...
Langi Sleði: Frábært!

Ég get ekki beðið, hef aldrei áður kynnst stelpu sem heitir Björgvin!

góðar stundir
Langi Sleði

Tuesday, August 16, 2005

2 tímar...

í tónleika. Ég er eins og þrettán ára stelpa á leiðinni á Stebba Hilmars. Vííí. Til að gera nánari grein fyrir aðdáun minni á Sonic Youth, þá hef ég aldrei farið út að skokka án þess að vera með kool thing í eyrunum.
Var að reyna að róa mig með að horfa út um gluggann, en viti menn, þá keyrði leið 13 (gamla breiðholt-lækjartorg hraðferð) framhjá stofuglugganum. Þá fór Breiðholtshjartað að slá. Það mátti nú ekki við meiru.

Núna bryð ég valíum í afainniskóm og er að horfa á fiskana synda í skjávaranum.

góðar stundir
Langi Sleði

Monday, August 15, 2005

Rokkgyðjan dýrkuð

Á morgun eru tónleikar með Sonic Youth.
Ég er gjörsamlega spenntur. Renndi nokkrum geisladiskum í gegn í vinnunni, við ekki svo mjög mikla hrifningu mér eldri manna... Eiginlega bara enga.
Fékk reyndar áhugaverða hringingu frá gömlum kennara í kvöld. Já, ég var... æ ég er hættur að geta sagt það.
Allavegana hún bað mig um að vera leiðbeinandi nemanda í lokaverkefni ef ég hefði einhverjar góðar hugmyndir. Þeir sem þekkja mig, vita að ég er stútfullur daglega, og ég fæ góðar hugmyndir af og til. Allavegana ég ætlaði að hugsa málið, margar hugmyndir komnar. Þetta er spennandi líf.

góðar stundir
Langi Sleði

Wednesday, August 10, 2005

Það var alltof mikil hreyfing fyrir augum mér

...og í annað hvert sekúndubrot sá ég ekkert nema himinn. Reyndi að ná einbeitingu, en hún náði ekki tökum á heilum hugsunum, heldur barðist við að setja nöfn á það sem augun sáu. "Fullkominn sársauki og sjónrænt taugaáfall" hugsaði ég. "Himinn", "gras", "jörð" "trjágreinar", "himinn", "ái", "ái", "ááááái". "himinn og jörð var það ekki Pálmi Gunnarsson?". Gráhvítir lokkar skoppuðu fyrir augunum, trén kipptu að sér trjágreinaunum, titrandi hræddar, eins og ég væri nóvember. Jafnhræddar og ég, raunverulega. Sársaukinn, blindaði mig taktfast. Hann átti upptök sín í rassinum, þaut upp eftir bakinu eins og blys á gamlárskvöld og sprakk í málstöðvunum með einhverju sem enginn skildi.
Í fjarska sá ég girðingu, hún hækkaði eftir því sem ég kom nær, nei þetta var risastórt grindverk, þetta er Kínamúrinn... Ég kastaði mér af hestinum. Veit ekki hvernig ég lenti, sá bykkjuna bara fjarlægjast, svífa yfir múrinn, svo man ég ekki meira.
Ég raknaði við mér eitthvað seinna, það var byrjað að rökkva. Ég hringdi í böttlerinn minn og hann kom innan 10 mínútna til að sækja mig. Ég sagði honum að skjóta helvítis bykkjuna ef hann fyndi hana.

Ef þið eruð í leyfisleysi á landareigninni minni, og finnið "parrykið" mitt, vinsamlegast skilið henni.
Ég veit ekkert hvenær, eða hvar hún datt af. Einnig ef ykkur vantar hrossakjöt, talið við böttlerinn.

góðar stundir

Langi Sleði

Takk held ég!

Ég þakka ykkur kærlega fyrir þátttökuna í skókönnun Langa-Sleða. Það hefði verið auðveldara ef þið hefðuð séð ykkur fært að vera allar sammála, en því var ekkert sérstaklega að heilsa.
Í sannleika sagt þá keypti ég skó síðasta laugardag, ekki alveg neðri týpuna, en mjög svipaða, þeir heita Salvatore í staðinn fyrir eitthvað "fnörríbabb".
Eníveis.
Sigri hrósandi, að hafa lokið þessu á leið í fjölskylduboð, án teljandi seinkunar, þurfti adamsfamilían að spyrja þegar ég sýndi þeim skóna.
"Ertu að fara að gifta þig?"

"Ahhh, enn einu sinni" hugsaði ég, "einn daginn á ég eftir að snappa, og vei svipnum á þeim þá!".

Er ekki komið nóg af svona.!!!

En svo datt mér í hug, hei.. það gætu verið skórnir... En engin ykkar minntist orði á giftingaskó. Þannig að mér finnast þeir bæði hipp og kúl!

Svekkelsi út í familíuna samt!
Mér finnst að þau ættu að vera farin að venjast því, að ég gangi með slör.


Góðar stundir
Langi Sleði

Sunday, August 07, 2005

spariskór

hvað segja kvenlegu augun ykkar???

Free Image Hosting at www.ImageShack.us

eða

Free Image Hosting at www.ImageShack.us

Saturday, August 06, 2005

just because

Heildós af gulum baunum var í sjónvarpsviðtali hjá "Býsna margt á teini"
Greip eina setningu úr innihaldslausu viðtalinu.

Býsna margt á teini: "why do you do magic?"

heildósin af baununum: "because I can!"

Þetta voru afleiðingar þess að fara ekki að sofa þegar manni dettur það fyrst í hug.

Góðar stundir
Langi Sleði

Thursday, August 04, 2005

fimmtudagur til fjaðrafoks

It was all whirlwind, trash and no star.

Það hefði verið frábært að vera í pilsi í dag. Einhvern veginn var þetta svona þannig dagur. Hefði kannski ekki verið passandi á byggingastöðunum sem ég heimsótti, en hei, pæliði í því ef ég hefði fengið blístur.!!!
Ákvörðun dagsins var hinsvegar ein. Ég ætla að skoða spariskó á morgun. Stelpur virðast endalaust nenna að agnúast út í það að vera í inniskóm við jakkaföt, þótt þetta séu svona "fjölnotaskór".
Þannig að þetta stendur til bóta. Var að renna yfir búðirnar í huganum, Steinar Waage, Boss, og hvað...eru það ekki helst þessar tvær?
Þetta verður fljótgert.

Talandi um það, ég man ekki eftir að hafa séð skóauglýsingu í áraraðir, er það vitleysa í mér. Engar auglýsingar í heiminum hata ég meira en helvítis Dressmann auglýsingarnar. Hvað er málið með það að skipta aldrei um lag? Ha! Eða að skipta aldrei um kalla!.. Já eða tísku. Ég var að hugsa, "hvað ef ég yrði píndur til að versla í Dressmann?",... þú pínir aldrei frjálsan mann til að versla í Dressmann. Ég fer aldrei í þessa búð, þetta er bara prinsipp. Svona kannski eins og að versla ekki við stóra og stælta, en af allt öðrum ástæðum.
Ég hugsa að ég myndi borga mig inná 3 tíma auglýsingatíma af dömubindaauglýsingum, bara ef Dressmann auglýsingarnar myndu hætta að eilífu að því loknu. Eilífðin yrði nú þá kannski eitthvað öðruvísi en annars.

Wednesday, August 03, 2005

stundarkorn í skírisskógi...

stundum kemur það fyrir mig að í einhverjum örstuttum skírleiksbríma, ratast að mér gáfuleg hugsun. Yfirleitt missi ég allt tímaskyn þegar þessi atburður á sér stað, enda tíminn ekki mikilvægur per se, þar sem við lifum hvortsemer alltaf í núinu hvort sem er.
En í dag var einn af þessum góðu dögum..., hlýtur að vera.... hann leið svo fljótt.

Góðar stundir
Langi Sleði

free web hit counter