Thursday, August 25, 2005

...af fólki

Ég opnaði tölvuna, setti fingurna á lyklaborðið og strauk því blíðlega. Vissi ekki hvað ég myndi skrifa um, vissi bara að ég myndi skrifa, þyrfti að skrifa.

Sat í hásæti mínu upp á skrifstofu í dag, og var að pæla í mannfólkinu. Magnað hvað við erum ólík.
Í vinnusalnum voru iðnaðarmenn, faglærðir jafnt sem ófaglærðir, í vinnugöllum þöktum smurolíu. Sótsvart, hart augnarráð áranna, sorfið í stál. Stál sem þeir hætta aldrei að vinna, amk ekki á meðan þeir eru með sígarettu í munnvikinu. Það ber hvergi skugga á virðingu mína fyrir þessum mönnum. Þessir menn herða bolta og beygja stál með berum höndunum. Þegar nýjir menn koma til starfa, eru þeir ýmist, fljótir að koma til, eða fljótir að deyja.

Sú virðing sem skapast "á gólfinu", er eingöngu byggð á verklagni og vinnusemi. Elju.
Þessum frumkrafti, sem er innan í svo mörgum sem við þekkjum.

Þetta fékk mig til að hugsa, að skrifstofustólafólkið, á yfirleitt miklu auðveldara með að fela aðgerðarleysi sitt. Sumt fólk sem ég þekki, er ekki einu sinni með drifkraft í sér til að vera kallaðar "heilar manneskjur", heldur aðeins skuggamynd af "mini-me"-i sjálfs sín. Fólk sem tekur sömu gáfna- og persónuleikapróf og Playmobil karlar (ætlaði að skrifa "Barbie-dúkkur" en ... þið vitið).

Svo er til fólk, sem er nákvæmlega ekkert ómögulegt. Máninn lætur undan, stjörnurnar vikna og sólin brýst fram. Hvenær sem er. Þetta ótrúlega fólk.

góðar stundir
Langi Sleði

1 Comments:

Blogger inga hanna said...

Maður getur þekkt svo marga án þess að tengjast þeim. Tengslin eru helst spöruð fyrir þá sem kalla á sólina.

11:11 PM  

Post a Comment

<< Home

free web hit counter