Thursday, May 25, 2006

...öðruvísi augu

...eru farin að mæta mér á göngum vinnustaðarins.
Ekki þannig að ég hafi beðið andlegt skipbrot og vappi um nakinn eða illa til hafður, heldur er þetta tengt vorinu!
Sumir eru farnir að brosa, í sama hlutfalli við aukið birtustig og stefna ótrautt á stöðugt sólheimaglott á jónsmessunótt.
Aðrir eru bólgnir og rauðeygðir, annaðhvort vegna þess að myrkrið gleymdi að segja þeim að fara að sofa, eða að frjókornaofnæmið, er að ná nýjum hæðum samanborið við sterílíserað, umhverfi vetrarins.
Svo eru lítil óttaslegin augu farin að sjást. Sumarstarfsfólkið. Ég hélt reyndar fyrst að væri eitthvað tengt öskudagsskilgreiningunni eða foreldra/barna vinnudeginum. En svo var ekki!
Augun mín eru hinsvegar, misþreytt og með eða án sjónskekkjugleraugna.
Formáli sögunnar er í raun sá að ég man svo vel eftir því þegar maður var að byrja að vinna, fullt af gömlu skrítnu fólki, verkfræðingar með ullarbindi, sjálfir grárri en gráu jakkafötin og í stíl við svart-hvíta útsendingu frá 1975, allir eru einhvern tímann sumarstarfsmenn.

Ég var búinn að vera að vesenast í jarðskjálftahönnun, í gær! Kraftadreifing á stífa hlið versus gluggahlið, þar sem gera þyrfti grein fyrir mun meiri liðleika.
Það sem ég er að reyna að segja ykkur er að hausinn var staddur inní steinsteyptu mannvirki norður á Húsavík.
Áður en ég rölti í mat, tek ég venjulega af mér gleraugun, því einhverra hluta vegna finnst mér betra að borða gleraugnalaus.
Með stærðfræðihluta heilans algjörlega ofvirkan, settist ég niður fyrir framan sumarstarfsmann, pínulitla snót.
Allt í einu hugsa ég, sjónskekkja getur haft áhrif á fjarlægðarskyn, þar sem heilinn lærir ómeðvitað að kvarða fjarlægðir með því að bera saman myndir frá báðum augum, hlýtur mitt fjarlægðaskyn að vera brenglað, annað hvort núna eða þegar ég set upp gleraugun.
Ég leit á pínulitla sumarstarfsmanninn og gerði mér fullkomlega grein fyrir því að hún var ekkert lítil, hún var bara miklu fjær mér en ég hélt.
Svo ég hrópaði til hennar: "SÆL OG VELKOMIN TIL STARFA!" Greyið litla hrökk í kút, brotinni röddu hvískraði hún: "Takk", hoppaði svo niður af stólnum og trítlaði fjarleiðis. Þegar hún var komin í dyrnar, var hún samasem horfin.

Magnað þetta sjónskekkjudæmi hugsaði ég og lagaði ullarbindið.

Góðar stundir
Langi Sleði

Monday, May 22, 2006

...einhvern veginn

...eru atvikin undanfarnar vikur ekki til þess fallin að skrifa um þau hér.
Þá fyrst, gerði ég mér grein fyrir því að ég hef treyst á mátulega lítil og ómerkileg atvik, til að fóðra hugarflugið. Blaðra stefnulaust um fáránleika hversdagsins. Sem er í sjálfu sér ágætt líka, því að lífið snýst kannski um að sjá litinn í smáu atriðunum.
Að hluta til.
En lífið markast ekki af þessum atburðum.
Það hefur nefnilega mikið gengið á undanfarið og þessi stóru atvik, skyggja einhvern veginn á allt annað.
Ég er í þungum þönkum.
Eins og finnarnir punkum pönkum... pallalla.
Kannski er finger pointing season að renna upp og þá er einmitt alfarsælast að halda að sér höndum.
En svona til að segja ykkur eitthvað lítið, þá fór ég í eurovision partý eins og alheimur nú á laugardaginn.
Þar hitti ég fyrir marga félaga og fólk sem ég þekkti ekki neitt.
Mér líst nú sjaldan illa á fólk við fyrstu kynni, en þegar miðaldra maður fer að djamma í Iron Maiden bol, þá kemur átómatískt smá bremsa á mig.
Þessi maður var ákafur stuðingsmaður Lordi.
Það var þó ekki fyrr en í stigagjöfinni sem hann fór að fara í taugarnar mínar. Hann öskraði allan tímann, eins og móðursjúk hýena. Ég settist út í horn og pældi í því hvernig ég gæti losnað við þetta viðrini, myndi hann elta köttinn út, ef ég klæddi hann í gúmmíhanska. Mér til ómældrar ánægju, hrópaði hann að lokum: "nú er ég farinn inn í bæ til að hrópa á alla sem eru ekki þungarokkarar... In your face". Það var ekki fyrr en þá að ég uppgötvaði að hann var hommi.
Brokeback mountain meets Priscilla and Lordi.
Ég var kominn heim kl 12.
Vona að ykkar partý hafi verið betra.

Góðar stundir
Langi Sleði

Saturday, May 13, 2006

...Barbara

...eins og tíðir lesendur vita er ég búinn að vera að deita Barböru Strepsils undanfarið.
Hún er búin að standa í gegnum þetta með mér, þessi elska og ég er farinn að læra á það hvenær hún er súr, sæt eða beisk. Núna liggur súra Barbara Strepsils útglennt á stofuborðinu mínu, spurning um að láta bara vaða...

Góðar stundir
Langi Sleði

Thursday, May 11, 2006

...kvikindi

...finnst ykkur ekki magnað hvernig lífið hefur þróast?
Upprunalega var guð kannski bara að skjóta hori á pláneturnar, sem myglaði svo og varð að einhverju sjávardýri á milljón árum ...og svo framvegis.
Upprunaleg rót þessara pælinga minna kviknaði kl 5 á mánudagsmorgni. Þegar býfluga, bankaði á innanverðan gluggann minn og vakti mig. Býfluga, sem var í raun miklu nær því að vera fugl, heldur en nokkuð annað.
Ég tróð kvikindinu inn í glas og henti því út og hélt áfram að sofa. Næsta morgun, var svipuð græja mætt aftur inn til mín, með sama fyrirgangi og látum, þannig að ég setti hana í glas og drekkti henni.
Þarnæsta morgun, var brjálaður geitungur mættur inn til mín, en honum tók ég ekki eftir fyrr en vaknaði og þá var hann búinn að stinga mig á tveimur stöðum í fótinn. Hann drap ég líka
Þessar flugur skýrði ég náttúrulega jane og john, þar sem þau voru feit, ljót, leiðinleg, heimsk og yfirgangssöm og því staðalímynd ameríkanans.
Ég veit ekki hvort samræði hafi átt sér stað á milli þeirra og að john hafi verið að hefna dauða jane, eða hvort að þetta hafi bara verið morgunúrillið hans. Allavegana þá kostaði þetta hann lífið.
Af hverju var ekki hægt að nota þessa einu heilasellu sem þau hafa, í að kenna þeim að forðast stærri verur, eða að rata út um glugga? Það finnst mér algerlega óskiljanlegt.
Lítum til dæmis á fiðrildin, sem ráða ekkert við vængina sína,... aldrei og fljúga út um allt eins og dömubindi með sjálfstæðan vilja, en eru öll fötluð og sveimhuga.
Ekkert er þó ömurlegra en húsaflugan sem aðeins samsett úr allt of stórum útlimum og virkar á mig eins og mongólíti flugnanna. Hún er reyndar sú fluga sem hefur sterkasta eitrið, en hún getur ekki bitið í gegnum mannshúð, það var þá tilgangur með eitrinu!
Svo nærist þetta pakk allt saman á sykri! Hvað skyldi íþróttaálfurinn segja við því?
hrmpf!

Góðar stundir
Langi Sleði

Friday, May 05, 2006

...ég gat ekki meir

...svo ég hringdi í klipparann í dag
Langi Sleði: Sæll, þetta er ég, Langi Sleði! Ég veit að ég er að hringja í þig kl 4 á föstudagseftirmiðdegi og þú átt örugglega engan tíma til að taka á móti mér í dag. En ég varð að hringja, annars hefði ég orðið svo svekktur í kvöld út í sjálfan mig yfir því að hafa ekki hringt.
Klippari: Sæll Langi, ég á alltaf tíma fyrir þig. Það er laus tími kl 5.

Jeijj..

Ég var svo glaður og ánægður að vera á meðal fólks að
ég tók ekki eftir því að ég þurfti að bíða í 45 mínútur. Kannski var ég bara svona niðursokkinn í Sogið & Logið.

Hvað um það.

Þegar röðin kom að mér, var Bó Halldórs diskurinn loksins að klárast. Svo að hann ýtti aftur á play.

Þegar hann var að ljúka klippingunni tók hann svona bursta til að hreinsa burtu skornar hetjur, þá gaus upp þess viðbjóðslega skítafýla úr þessum úldna bursta. Allir iðnaðarmenn sem höfðu nokkurn tímann komið þarna inn voru nú að kitla mig í hálsinn.

Hvað um það.

Svo setti hann eitthvað vax í hárið á mér og ég var permanently kominn í smell hell.

Fyrir utan hitti ég kjarnafjölskylduna. Aldagamlan vin, við deildum meira að segja kærustunum. Sunddramadrottning, sem hann varð að gefa upp á bátinn, því hann var orðinn svo slæmur í hnjánum. Þríeykið var á leiðinni í sumarbústaðinn, fullhlaðin fjölskylda, brosandi framan í lífið.

Nú er það bólið fyrir mig, ég er gjörsamlega búinn.
Klukkan bara 11 á föstudagskvöldi.

Góðar stundir
Langi Sleði

Tuesday, May 02, 2006

...langavitleysa

...á tímabili hélt ég að ég væri ósigrandi.
Krafturinn, velviljinn og fegurðin svo sterk að mér héldu engin bönd. Ég var á leiðinni að sigr... bjarga heiminum.
Það var þá sem ég skar mig á tómatahnífnum og mikið djöfull var það sárt.
Ég elska tómata.
Það er ekkert betra álegg til, nema hugsanlega ostur. Vinur minn skar sig einu sinni á ostaskera, en hann var náttúrulega ekki ofurhetja eins og ég.
Hehh.. Að skera sig á ostaskera.
Allavegana.
Aftur að ofurhetjutilburðunum.
Ég var virkilega, eftir margra ára streð orðinn konungur ríkidæmis míns, sem reyndar takmarkaðist af 4 veggjum heimilisins.
Ekki það að allt sem innan þessara veggja sé fullkomlega að mínu skapi í einhverju allsherjarplani. Langt því frá!
En ég var tilbúinn að útvíkka yfirráðasvæðið, þannig að ég skráði mig á dansnámskeið.
...
Meira af því síðar.
En það er bókstaflega ekkert sem ég get ekki gert, nema snert á mér tærnar. Strákar eiga að vera stirðir! Það er karlmannlegra. Það er í stíl við amerísku ofurhetjuna sem rekur öxi á bólakaf í hundrað ára gamalt tré. Eða íslenska sjóarann sem sefur brennivínsdauða í úldnuðum selskinnsgalla einhversstaðar nálægt skipi.
Þessir menn hafa aldrei þurft að vera liðugir. Það er kúl að vera stirð ofurhetja. Það er meiri saga, meiri hefð, í stirðleika.
Það er sterkara að vera stirður.

Góðar stundir
Langi Sleði

Monday, May 01, 2006

...aahtsjúhh

...mengi hvítra bréfa á borðstofuborðinu stækkar í sama hlutfalli við þá gremju og óþolinmæði sem plagar mig þessa dagana.
Ég er búinn að sofa og snýta mér samfellt í fjóra sólarhringa og í stað þess að vera útitekinn og hraustur eftir helgina, er ég miklu nær því að vera með legusár.
Gef þessu kvefi 2-3 sólarhringa í viðbót, en skrifa eitthvað glatt og uppbyggilegt á morgun.

Góðar stundir
Langi Sleði

free web hit counter