Wednesday, July 19, 2006

...stress og annað smálegt

...er.
Langi Sleði heimsótti ölstaði borgarinnar um síðustu helgi. Á staðnum sem er skráður með 12% eiturlyfjanotkun, réðust tvær stúlkur, í sitthvoru tilvikinu, á þjóhnappa Langa Sleða. Líklega til að staðfesta að þetta væru afleiðingar æfinga, frekar en orsakasamhengið sem hlýst af pushups nærbuxum.
Á næsta stað ákvað ég því að halda kyrru fyrir og kom mér því fyrir í hægindum á barstól. Ég var fljótur að giska á u.þ.b. 20% eiturlyfjanotkun.
Ég vissi ekki fyrr en ókunnugur strákur er búinn að troða sér á milli lappa minna og horfði stíft á mig.!
Langi Sleði: ????
Strákur: Hæ!
Langi Sleði: Sæll!
Þögn, þrungi og stíft augnaráð varðveittu augnablikið.
Langi Sleði: Ef þú ert að reyna að komast á barinn þá ertu of fjarri honum núna! Ef þú ert hinsvegar að leitast eftir því að verða barinn, þá ertu mjög nálægt því núna!
Strákur: (þögn).... Ertu viss?
Langi Sleði: Já, ég er viss.

Að þeim orðum sögðum, fór hann.

Þessi vinnuvika er svo búin að líða í stressi og tímaskorti!
Ég hallaði mér í pottinn í Laugardalnum eftir pirring dagsins og viðraði í huganum, að ég þyrfti nú að fara að láta ykkur vita af mér.
Ætlaði að muna eftir að segja ykkur af brúnkunni minni. Sem ég er búinn að uppgötva að svipar mest til föl-ljósbláa litsins sem er málaður á botn heitupottanna.
Í afslöppun minni, sest svo kall ákkúrat á móti mér með þetta viðbjóðslega perraglott. Ég er ekki ofsamaður og kem mér hjá slagsmálum ef þess er nokkur kostur, en ég var byrjaður að hlæja að orðatiltækinu "að vaða í kallinn". Því ég var alveg að missa þolinmæðina!
Ég stóð upp og gekk að honum, með krepptan hnefa... sekúndubroti áður en hann hóf sig til flugs, fattaði ég að þetta heimskulega perraglott var ekkert nema alltof þröng sundhetta, sem togaði hálft andlitið til hliðar og upp.
Nú verð ég að fara að stunda afslöppun og aftöppun orku!

Góðar stundir
Langi Sleði

Wednesday, July 12, 2006

...fluga

...réðst á mig í hádeginu! Ég sat úti í sólkróknum og skyndilega kom þessi litla húsfluga með læti og yfirgang. Eftir almenn leiðindi, tók hún meters tillhlaup og skallaði mig svo í ennið! Nú loksins skil ég máltækið, að fá flugu í höfuðið! Hún smitaði mig greinilega af einkennilegu fetishi sem olli því að ég fór eftir vinnu og keypti raftæki í verulegu magni.
Ég keypti nýja vekjaraklukku, ný heyrnatól fyrir mp3 spilarann og svo nýjan mjólkurþeytara. Fór svo í Nóatún, ráða-bæði og rænulaus... og kom út með uppþvottalög fyrir þvottavélar... og ég á ekki einu sinni þvottavél!
Það lærði ég nefnilega þegar ég fór til Ytkemiska institutet, á námskeið í "Surface and colloid chemistry in industry" að það er mörgum sinnum virkara heldur en gamla góða sápan, svo lærði ég slatta í viðbót sem ég segi ykkur ekki frá, nema að ég hafi ykkur fyrir framan mig, tjóðruð við stól!

Góðar stundir
Langi Sleði

Tuesday, July 11, 2006

...hugleiðingar

...sumir virðast halda því fram að þegar Langi Sleði skrifar ekki, þá sé hann dapur!
Því er hins vegar ekki þannig, þó svo að margar færslur snúist yfirleitt um einhvern ákveðinn atburð, er færslan miklu frekar sú mynd sem kemur í huga þér. Hvort sem þér þykir færslan góð eða slæm, þá einhvern veginn fer heilinn í gang og starfar skyndilega sjálfstætt gagnvart aðstæðum, sem eru þér, lesandi góður, hugsanlega fullkomlega framandi. Það er einmitt þess vegna sem þessi heimur er svo skemmtilegur.
Það er hægt að líða í gegnum lífið, í skjóli umræðna um fréttir, veður og dagleg mál. Óafvitandi og skyndilega líður mannskepnan sofandi að feigðarósi, eins og skáldið sagði.
Dagarnir verða hverir öðrum líkari og enginn skilur neitt í því hvert allt "fönnið fór"!
Þetta líkamsræktarátaksheilkenni, sem helmingur þjóðarinnar virðist þjást af þessa dagana. Hve margir ætli séu þarna einungis til að vera meðal fólks. Hve margir eru þarna bara til þess að finna að þau séu til og lifi.
Slatti held ég. Mér var það nefnilega gjörsamlega framandi, þar til í dag, orsök þess að fólk velji það að hlaupa á einhverju bretti innandyra, þegar landið og miðin standa fólki til boða.
Nú í haust, ætla ég loksins að skrá mig í líkamsrækt. Búinn að ætla þangað lengi. Ég veit að ég á eftir að slasa mig á hlaupabrettinu togna í róðravélinni og tapa mér fyrir framan FM hnakkann með tattúin og pósurnar.
Ég bara get ekki beðið!

Góðar stundir
Langi Sleði

Tuesday, July 04, 2006

...gluggapóstur

...er snilldin ein.
Nei, ég veit ég er bara að reyna að vera uppbyggilegur.
En Langi Sleði er bæði snillingur og séní og fann því lausn á því að losna við ALLANN gluggapóst af heimilinu.
Nú veit ég að þið sperrið bæði augu og eyru, til að heyra lausnina!
Lesið næstu línur af áfergju og ákveðið svo að mæla með mér sem næsta forseta Íslands. Lýðveldið tók ég út, því mér líkar það ekki. Kjósendum er því miður ekki treystandi fyrir því að velja sér forystusauð. Að hluta til er það vegna framboðs á forystusauðum og að hluta til vegna... annars.
Allavegana.
Þar sem margnefndur korsillettunágranni Langa Sleða býr á hæðinni fyrir ofan, þá hefur geymslan mín mengast af óhugnalegum hugmyndum. Reyndar eru allar geymslur yfirleitt þannig. Þar er bara drasl sem maður nennir ekki að henda.
Ég semsagt innréttaði geymsluna sem skrifstofu og nú fer ég með allan gluggapóst beint þangað upp. Því lýsi ég ríki mitt og varnarþing gluggapóstsfrítt svæði.
Hugsið ykkur bara hvað ég gæti gert sem forseti!

Góðar stundir
Langi Sleði

...löðrugglan

... er verið að gera grín í þessari frétt!
Spurning hvort að það hafi verið löðr-ugglan sem sé einu fuglinn sem hafi orðið fyrir tjóni vegna þessa. Eitthvað kurr var þó í félagsmönnum, því er ekki að neita!

Góðar stundir
Langi Sleði

Monday, July 03, 2006

...speed dating

...já hvað haldiði Langi Sleði fór á speed date. Með mynd af bílnum í vasanum, var ég tilbúinn til að takast á við hvað sem er.
Það hélt ég a.m.k.
Fyrst voru reglurnar kynntar, ekkert káf var eiginlega það sem stóð uppúr í þeirri kynningu. Alls voru þetta 10 konur og 10 karlar.
Kona 1.
Hún var eins spennandi og obláta á þriðjudagsmorgni. Hvorki viðeigandi né nokkuð annað. Ég man ekkert hvað hún sagði, eða hvort hún sagði nokkuð yfirleitt!
Kona 2.
Aðaláhugamál hennar voru raunveruleikaþættir, óskaði þess sérstaklega að taka þátt í brúðkaupsleiknum "Já". Það kom reyndar í ljós að hún var lesblind og hafði mislesið "speed wedding". Sem útskýrði fyllilega kjólinn sem hún var í, en mér leið samt frekar illa að hafa foreldra hennar líka þarna.
Kona 3.
Hún hafði með sér aukastól, það kom í ljós að hún vann hjá vita og hafnamálastofnun.... sem bauja! 3 mínútur eru stundum of lengi að líða. Eins og Annamín sagði við mig um daginn, maður veit það eftir 3 eða 30 sekúndur.
Kona 4.
Hún var utanað landi. Vantaði í raun bara vinnumann til að reka niður staura. Sagði að þetta væri, dásemdarlíf, sveitalífið. Hún var hinsvegar löngu hætt að stunda kynlíf en sagði að ég gæti fengið allt sem ég vildi úr mjólkunargræjunum á býlinu.
Note to self: hætta að drekka mjólk!
Kona 5.
Ég hef alltaf haft gaman af homer simpson, vil samt ekki giftast honum.
Kona 6.
Settist niður og tjáði mér að hún vildi strax byrja að eignast börn. Því hún væri sko ekkert að yngjast. Jamm og jæja, hugsaði ég. Það er nú ekki með öllu illt! Það var ekki fyrr en hún fór að sýna mér myndir af börnunum sínum 6 og eiginmönnunum 3 fyrrverandi sem það rann á mig "nei takk" gríman.
Kona 7.
Vissuð þið að ef þið googlið "strange men" þá fáið þið 341 þúsund niðurstöður, ef þið hins vegar googlið "strange women" þá fáið þið 422 þúsund niðurstöður! Þetta datt mér í hug að googla eftir að hafa hitt þessa konu. Held að hún sé ábyrg fyrir mismuninum!
Kona 8.
Hún var í raun nágranni minn (sjá fyrri færslu). Það sem var verst af öllu er að hann var ekki enn búinn að kaupa sér nýja hárkollu, og rakvélablaðið hans var orðið lélegt. Hann sagði að appelsínugula peysan mín væri hommalega ógeðsleg!
Kona 9.
Hún byrjaði á því að æla yfir mig allan. Drapst svo fram á borðið, áður en ég gat kynnt mig.
Kona 10.
Hún var best. Rétti mér whiský og sagði: Mér sýnist þú þurfa á þessu að halda! takk svaraði ég og dembdi þessu í mig í einum teig. Eitthvað heyrði ég að innifalið í þessum sjúss, væri nú að ég gæti alls ekki rukkað skipuleggjendur um hreinsun á jakkafötunum.
Ég veit ekki hvar ég á að finna þessar konur, það er allavegana ekki þarna!
Einhverjar hugmyndir???

Góðar stundir
Langi Sleði

free web hit counter