Wednesday, January 31, 2007

...þorrinn

...er tekinn hátíðlega á þessu heimili.
Kannski er ekki rétt að tala um hátíð í þessum skilningi, þetta er meira svona áskapað ástand.
Ostarnir sem ég fékk í öllum jólakörfunum var hrúgað inn í ísskáp og mynduðu einhvern veginn ógurlegt dóminó fjall. Eftir því sem á mánuðinn hefur liðið, hefur fjallinu svo vaxið ásmegin og búast má við yfirliði bráðlega. Hvort sem heldur er litið til innbús ísskápssins eða eigandans.
Hins vegar minnir þetta mig alltaf á gamlan vinnufélaga, sem var alinn upp í torfbæ. Súrmeti var daglegur matur vinstri hægri vegna þess að rafmagn var ekki nálægt bænum... og allur matur var bara í þessari gömlu geymsluaðferð.
Eitt sinn í hádegismat, fann hann í ísskápnum gamla skyrdós sem enginn hafði borðað og nú var hún komin mánuð yfir síðasta söludag. Hann hinsvegar opnaði dósina, setti vel í skeið og fékkk góða munnfylli. Gretti sig þvínæst ógurlega og sagði: "Ahhhnndskoti er þetta súrt....". Svo kláraði hann dósina, með miklum stunum og tilfæringum.
Yfir andlit mitt færist því minningarglott þegar ég opna ísskápinn.
Það er gott og óska ég ykkur hins sama.

Góðar stundir
Langi Sleði

Friday, January 26, 2007

...símtal

...kl 09.58 heyrði ég símann minn hringja... ég hljóp inn á skrifstofu, rétt tímanlega til að hlusta á síðustu hringinguna kveðja.
Ég þoli ekki þegar það gerist.
Ég kíkti á númerið 421xxxx, og hugsaði: hmm hvaða númer er þetta?
Ég hringdi og það var á tali.
Tveimur mínútum síðar hringdi ég aftur og þá svaraði einhver morgunfúll kall.

Hann: Halló!?!
Langi Sleði: Já góðan dag, það var verið að hringja í mig úr þessu númeri.
Hann: NÚ, ég hef ekkert verið að hringja í allan morgun.
Langi Sleði: Hvað meinarðu, það var ein mínúta síðan þú hringdir.
Hann: Ég er andskotann ekkert búinn að hringja þarna!
Langi Sleði: Ég er ekkert að búa þetta til!
Hann: Eina símtalið sem ég hef hringt í morgun er að ég var að leita að gemsanum mínum... ég finn hann ekki! ... Hvað er símanúmerið þitt?
Langi Sleði: 861 xxxx
Hann: Það er mitt númer!
Langi Sleði: Nei þetta er mitt númer!
Langi Sleði: Ég er búinn að hafa þetta símanúmer frá örófi. Þetta er mitt númer
Hann: Hvað sagðirðu?
Langi Sleði: 861 xxxx
Hann: Þetta er mitt númer! Hvað ert þú að gera með símann minn?
Langi Sleði: Hvað er eiginlega að þér?
Hann: Er ég að rugla (orðinn reiður)? Hvað í andskotanum ert þú að gera með símann minn?
Langi Sleði: Heyrðu vinur, sestu bara niður og hugsaðu allt lífið þitt upp á nýtt því þú ert ekki sá sem þú heldur þig vera!
Hann: Ha?
Langi Sleði: Siturðu?
Hann: Nei!
Langi Sleði: Sestu!
Hann: Afhverju?
Langi Sleði: Svo þú fáir símann þinn aftur!
Langi Sleði: Hvað heitirðu?
Hann: Jón Jónsson, góðugötu 3
Langi Sleði (fór á ja.is): símanúmerið þitt er 831 xxxx ekki 861 xxxx
Hann: Jaaaaááá
Hann: Afsakaðu ónæðið

Góðar stundir
Langi Sleði

Thursday, January 25, 2007

...Ísland er svo lítið land

... að maður kemst ekki hjá því að hrufla olnbogana með reglulegu millibili.

Stundum hittir maður fólk sem á einn eða annan hátt hefur markað líf manns sporum sem aldrei gleymast, en kemur til með að fenna í með tímanum.
Fjöldi vetra, fjöldi verta.
Þetta gerðist í kvöld. Í stuttu spjalli komst ég að raun um það að stúlkan var farin að vinna með fólki sem ég þekki úr þremur mismunandi áttum.

Hrjúf hné,
hrúfir olnbogar.
Deyr sjálfur hið sama!

Góðar stundir
Langi Sleði

Tuesday, January 23, 2007

...fimmtudagskvöld

...það vita það fáir en fimmtudagskvöldum eyðir Langi Sleði á elliheimilinu Grund. Yfirleitt hitti ég þar fólk sem á enga að, ættingja sem nenna ekki að umgangast fólkið sitt.
Það er fólk þarna sem fær ekki heimsóknir í fleiri mánuði. Það er hreint og beint illt að gera manneskjum það.
Allavegana, ég hitti alls konar skemmtilegt fólk... og náttúrulega leiðinlegt fólk líka. Nú á síðasta fimmtudag lenti ég í ...jahh... sögulegri reynslu, þess vegna eruð þið að lesa hana hér.
Ég var í setkróknum á annarri hæðinni en þar er meiri umönnun en á fyrstu hæðinni. Fólk er almennt farið að gleyma en það er mjög misjafnt hvernig gleymskan leggst í þau.
Allavegana.
Þarna er ein kona sem ber af, bæði varðandi líkamlegt og andlegt atgervi. Alltaf hress og skemmtileg og hefur ofsalega gaman af því að segja frá því hvað hún var mikil skvísa í gamla daga.
Laufey.
Það eru hópumræður um fábjánana sem eru að stofna ellingjaflokkinn. Fólk sem á það sameiginlegt að vera nöldrarar og hafa ekki fengið nóg, þó að allir séu nú sammála um mikilvægi flokksins.
Laufey liggur á gólfinu á dýnu og er að hjóla í loftinu um leið og hún horfir á "The bold and the beautyful", skyndilega heyri ég læti fyrir aftan mig og það sjúkraliðar að hlaupa í áttina til okkar með sjúkling í rúmi.
Nú kemur röð ótrúlegra atburða.
Ég snýst á hæli en um leið rekst sjúkraliðinn í mig. Við það valt ég yfir stólaröðina og gróf andlitið í túperuðu hárinu hennar Laufeyjar. Það er ekkert jafn ógeðslegt og sveitt túperað hár, næstum því alveg hart og svo þessi agalega klístraða lykt sem festist inní nefinu á mér. Sem betur fer meiddist enginn. En Laufey hló og hló. Hún sagði að ég væri yngsti karlmaðurinn til að reyna við hana í 30 ár (hún er 82) og að svona hugrekki bæri að verðlauna. Eftir að ég hafði gengið úr skugga um að hún væri örugglega ekkert slösuð, reisti ég hana við. Hún greip utanum um höfuðið á mér og ég hélt að hún ætlaði að kyssa mig á kinnina. Hún kyssti mig hinsvegar beint á munninn og smellti svo andlitinu mínu ofaní brjóstaskoruna... Sem er enn töluverð.
Langi Sleði var forviða og forundraður og það eina sem mér datt í hug var slagorð Vodafone sem stendur á hlaupabrettinu í World Class: "Gríptu augnablikið og lifðu núna!"
Ég vona að ég verði svona skemmtilegt gamalmenni!

Góðar stundir
Langi Sleði

Sunday, January 21, 2007

...auglýsingar

...í Kompásþættinum hans Gústa barnanetsperra voru náttúrulega seldar auglýsingar af mikilli grimmd. Hefði ekki mátt ritskoða þær aðeins?
Eftirfarandi auglýsingar voru inní þættinum:
1. Sprengivika hjá ónefndu fyrirtæki hér í bæ!
2. Náðu fram því besta í fólkinu í kringum þig, Dale Carnegie!
3. Við finnum rétta starfsmanninn fyrir þig (ráðningaþjónusta)!
4. Tölvuskóli auglýsti fjölbreytt námsframboð
5. Er fundur framundan? Hafðu samband og við aðstoðum þig við undirbúninginn! Svona auglýsti hótel

Kannski á ég bara að fara að sofa.
Góðar stundir
Langi Sleði

...margt smátt gerir eitt stórt

...ég get ekki orða bundist yfir því atburðum undanfarinna daga... svo illa að ég veit eiginlega ekki hvar ég á að byrja.
Byrjum á Kompási.
Sigmundur Ernir opnaði á því að tilkynna það að ætlun Kompáss í þessum nýjasta þætti væri að: Komast að því hvernig væri fylgst með barnaníðingum. Persónulega fannst mér megnið af þættinum fara í smjatt á málum Ágústs Magnússonar. Sá maður er greinilega snargeðveikur og á alls ekki að koma nálægt samfélaginu. En bíðum aðeins hæg! Hann er með internetaðgang í vernduðu umhverfi og það þarf nú engan snilling til að átta sig á því að það þarf að passa upp á þennan mann! Er það nokkuð?
Mér sýndist einna helst á þættinum að það væri engin stofnun tilbúin til að taka þetta að sér og mjög takmarkaður áhugi fyrir þessu. Verður fólk ekki reitt lengur? Má ekki öskra í sjónvarpinu? Hvar var Ásta Möller?
Jú hún var í Silfri Egils!
Hef líklega bráðaofnæmi fyrir henni því í hvert sinn sem hún opnar munninn þá fæ ég kjánahroll. Ignorant frá upphafi. Hún náði að væla yfir því, að Ólafur væri að eyða peningum í Elton, hún tók það reyndar fram að það væri virðingarvert að stofna þennan milljarðasjóð, en sagði samt sem áður... "af hverju bara ekki að henda þessum téðu 70 milljónum í viðbót í pottinn". Langi Sleði setur þetta allt í samhengi við atburði síðastliðinna daga og sér strax að það er tvennt í gangi. Annars vegar, þá eru hjónin að losa sig við Sambandspeninga sem þau hafa nákvæmlega ekkert not fyrir og gera ekkert nema að íþyngja þeim andlega, leyfi ég mér að trúa...eða vona. Hins vegar er augljóst að hann er "flaming gay"... eins og hárgreiðslumaðurinn minn sagði um annan stórversír í viðskiptalífinu.
Til þess að fullkomna helgina sá ég svo hluta af myndbandinu sem kennt er við Gumma í Byrginu, heimavídeó uppá nær 400 Mb. Ekki endilega af því að mig hafi langað að sjá hann, en frekar vegna þess að mig langaði að sjá hann undir áhrifum smjörsýru.!. Greyið!
...Ég hef nú mjög takmarkaða meðaumkun með þessum manni en vorkenni fólkinu hans og öllum þeim sem urðu fyrir barðinu á honum....og nei... ég get ekki hugsað mér að gera grín að því að hann noti barðastóran hatt.

Þessi maður hér gefur orðinu fífl nýja vídd. Þetta gleður Langa Sleða með eindæmum, einkum vegna þess að hann er svo óskaplega vitlaus að honum er ekki við bjargandi.
Maður verður að geta brosað eftir svona pistil.

Góðar stundir
Langi Sleði

Thursday, January 18, 2007

...kominn tími til

...að Langi Sleði færi að hlæja að sjálfum sér.
Fór urrandi grimmur í ræktina, eftir streð dagsins. Alls konar leiðindi innifalin í bransanum. Var að vísu eitthvað búinn að vera slappur svo að ég gerði ráð fyrir því að það yrði döpur frammistaða.
Ég stillti hlaupabrettið eins og venjulega, hraðann á 12, tímann á 15 og lagði af stað. Eftir tvær mínútur, var ég alveg búinn og þá meina ég ALVEG. Hoppaði af brettinu og fór að velja mér legsteina í huganum. Datt engin skemmtileg grafskrift í hug svo ég leit aðeins betur á brettið. Það hafði einhver húmoristi breytt km/klst í mílur/klst. Þannig að Langi Sleði var að hlaupa 12 MÍLUR/klst eða 19,3 km/klst. Ég stillti korterið á 8 mílur/klst (12,9 km/klst) og kláraði það.

Kosturinn við að vera í Laugum á háannatíma er náttúrulega sá að maður hittir ógrynni af fólki.
Án þess að nöfn séu uppljóstruð, voru þarna fögur fljóð og fínir þankar.
Þetta bjargaði alveg deginum !

Góðar stundir
Langi Sleði

Wednesday, January 17, 2007

...krafs í kúkabeði

...í þessari súru tíð!
Sá snefill af mannlegri gæsku, sem ekki hafði frosið fastur við skítlegt eðli forsjónarinnar. Gerði það í dag... og í gær, og í fyrsta skipti horfði ég á fréttir gjörsamlega áhugalaus um innihald, þeirra ræpurunnaveiða sem þar fara fram. Hún klórar mér, ég klóra henni og saman kúkum við á hann!
Fréttamennirnir sjálfir eru fyrir löngu orðnir eins og ljóshærðu pæjurnar með stóru brjóstin sem trúa "ÖLLU". Jafnvel að einkaflugvél Jóhannesar í Bónus hafi brotlent á Miklubraut á háannatíma, eftir hefndaraðgerð flugumferðarstjóra sem var afgreiddur um skemmt epli frá jonagold.
Það kom hinsvegar í ljós að jonagold eplin voru öll saklaus og að fréttamennirnir höfðu í raun plantað inn svo öflugri vænissýki að flugumferðarstjórinn var farinn að póstleggja bréf til að vera öruggur um afhendingu stefnumarkandi leiðbeininga til flugstjóra.
Nú situr þessi maður í kraftgallanum útá Miklatúni og geltir að trénu á horninu. Rónarnir kvarta yfir röskun á svefnfrið og grenitréin eru við það að fella barrið af leiðindum.

Í morgun var eitt afskorið grenitré á leiðinni í vinnuna, ennfremur eru tvö stöðvunarljós, þrjár hættulegar beygjur, fjórir skólar, a.m.k fimm fyrrverandi kærustur og sex afbrýðisamir kærastar. Sjö stopp Dúndí druslur og átta einstæðar mæður (veit ekki hver á þessa sem er afgangs). Þarna er köttur sem ég er búinn að keyra níu sinnum yfir. Það eru 10 mínútna gangur metrar heiman frá mér í vinnuna. Á þessari leið eru ellefu hraðahindranir (samtals 1400 metrar). Það er meira en er í hindrunarhlaupi á ólympíuleikunum. Það er ekki séns að sætishitarinn eða miðstöðin fari að virka á þessari leið. Mér er kalt á morgnanna.

Góðar stundir
Langi Sleði

Monday, January 08, 2007

...forundran

...stundum koma fréttir í sjónvarpinu og útvarpinu sem fá forundrunargeðsveiflurnar hans Langa Sleða á flug.
Sem dæmi um svona mál er kosningamálið "ókeypis leikskólar".
Hver hélt í alvöru að leikskólarnir yrðu ókeypis... rétt upp hendi?
Í staðinn fyrir að borga fyrir þitt/þín börn í stuttan tíma, borgarðu alla þína ævi! Frábær díll það!
Nýjasta forundranmálið kom hinsvegar fram í dag. Rannsókn sýndi fram á það að kynlíf dregur úr streitu!
Hvað í andskotanum eruð þið búin að vera gera ef að þið vissuð þetta ekki?
Mig grunar að það séu töluvert fleiri en ég með ógnarmagn af ostum í ísskápnum hjá sér. Fyrirtækjagjafir! Hvenær ætli ostur detti úr tísku og hvað kemur í staðinn? Ég giska á flísbuxur!

Æ ég þarf að fara að sofa, ætla að eldast í nótt!

Góðar stundir
Langi Sleði

Thursday, January 04, 2007

...pest og lygi

...Langi Sleði fagnaði áramótunum með því að vera umvafinn kvenfólki og líkamsvessum. Reyndar voru flestar konurnar komnar vel yfir fimmtugt, (sem hjálpar reyndar ekki sögunni) þar af leiðandi, eða öllu heldur, auk þess var hann eiginlega sá eini sem sá almennilega um framleiðslu líkamsvessa.
Langi Sleði fékk semsagt leiðinlega kvefpest sem er ekki að gera lukku í byrjun árs.
Þar sem Langi Sleði er á nýjum vinnustað, fannst honum frekar lélegt að mæta ekki í vinnuna þrátt fyrir flensuna. Því drattaðist hann í vinnuna, með álíka þétta slímslóð og maður getur ímyndað sér að 80 kílóa risasnigill dragi á eftir sér.
Syndandi augu leitandi að meðaumkun, drukknuðu í staðinn í burðarþolsteikningum og sendu frá sér ótvíræð skilaboð til heilans að þau vildu heim. Þar sem hvergi bólaði á meðaumkun skrifaði Langi Sleði að hann hefði misst auga og framan af tveimur fingrum í flugeldaslysi. Og viti menn... meðaumkun my way... "in a big way". Hins vegar ætlar flensan ekki að gefast upp. Nema að þetta sé í raun ofnæmi fyrir blómum, súkkulaði og samúðarkortum!

Góðar stundir
Langi Sleði

free web hit counter