Wednesday, July 23, 2008

...brumbolt

...Langi Sleði var staddur á einum virtasta fundarstað Reykjavíkurborgar, nánar til tekið á Kaffivagninum.
Þar sat Langi Sleði ásamt heiðursmanni yfir rjúkandi kaffibolla og elegant smurbrauði og ræddum málefni líðandi stundar, líkt og trillukarlarnir fyrr um morguninn.
Staðurinn ber þess glöggt merki að háglans sjómennskunnar er aðeins minning veðurbarðra ellilífeyrisþega, sem reyrðu seglstakka og fóru í lopavettlinga með tveimur þumlum. Þeir allra elstu vita meira að segja enn af hverju þumlarnir voru tveir.
Kaffistamparnir, þótt hreinir séu, hverfa reglulega inn í ægilega hramma þessara hetja sem buðu veðuröflunum byrginn til að sjá sér og sínum farborða.
Uppnuminn og andaktugur yfir höfgi þessa staðar, rann manni skylda til blóðsins að tala með djúpum rómi og láta karlmannlega fram úr hófi.
Strákpjakkur sem hefði varla getað verið léttadrengur á áttæringi, nálgaðist Langa-Sleða.
pjakkur: "Halló, ertu búinn með moggann?"
pjakkur: "Er þetta mogginn í dag?"
Þá drundi í Langa Sleða: "Já og hér eru meira að segja tvö eintök...og þú skalt taka þau bæði... svona ef annað bilar"
Pjakkurinn rak upp stór augu og spurði: "hvernig ætti blaðið að bila?"
Langi Sleði (með dimmrödduðum þjósti eins og bjánaleg spurning léttadrengs átti skilið að fá): "Ég veit það ekki, ég hef aldrei lent í því að blað bili, en það sem hefur aldrei komið fyrir áður, getur alltaf komið fyrir aftur! "
Pjakkurinn var nú kominn með augu á stærð við undirskálar og
bakkaði varfærnislega út úr samtalinu með því að halda báðum eintökum moggans þétt upp að hárlausu brjósti sér.
Hann kom sér fyrir í hinum enda salarins en sóttist lesturinn seint enda hafði hann annað augað enn á Langa Sleða.
Einum beitarbala síðar, kvöddust Langi Sleði og heiðursmaðurinn með hrammahandarbandi og héldu í átt að sitt hvorum borðanum.
Léttadrengurinn hafði fengið mjólk og kleinu og var að skoða skrípóið í blaðinu.
Langi Sleði kvaddi hann með því að lyfta höfuðfatinu til hálfs enda pjakkurinn ekki hálfdrættingur og líklega bara rétt rúmlega amlóði.

Góðar stundir
Langi Sleði

Saturday, July 19, 2008

...skylduáhorf

...þó að Egill Helga hafi sína galla og þetta myndband sé ekki með öllu gallalaust, þá er það skylduáhorf.

Svona býr maður til peninga... og stelur af öðrum.

þetta er alveg eins og dæmisagan um 5 ára strákinn sem beið í ofnæmi eftir pabba sínum einn daginn þegar hann kom heim.
Pabbi pabbi... ég seldi hundinn!!!!!!!!!!!
Pabbinn var náttúrulega ekki ánægður með það og byrjaði að skamma strákinn.
Strákurinn svaraði hins vegar fyrir sig og sagði: "Þetta var bara ómerkileg tík og ég fékk 10 milljónir íslenskra króna fyrir hana"
Pabbinn varð himinlifandi en strákurinn hélt áfram: .................."Já og ég er meira að segja búinn að fá borgað..... ég fékk tvo kettlinga á fimm milljónir hvorn"

Það er hins vegar ekki góður díll..........

Pappírspeningar útum allt. og svo erum við að væla yfir lélegri krónu!
Held að það sé tímabært að við tökum höfuðið úr rassgatinu.

góðar stundir
Langi Sleði

Tuesday, July 15, 2008

...tvisvar verður sá feginn er á steininn sest

...líklega hefur hvíldin farið illa með Langa Sleða. Nöldrið og sjálfsvorkunnin hefur samt sem áður nagað hann innvortis og ástandið er orðið þannig að lifrin er búin, magasárið blæðir einhverra hluta enn og nú gnístir í beinunum þannig að honum er orðið erfitt um svefn vegna hávaða.
Þá er nú betra að hafa þetta útvortis eins og vörturnar.
Það er ekki eins og það hafi ekki verið til bensín á tankinum. Eins og sú óumræðanlega fyndna frétt sem fæddist er formaður samtaka ofvirkra bætti við sig nýju starfi formannsstarfi samtaka þvaglekasjúklinga. Nú er allt í einu sprottin upp barátta við að koma upp kömrum út um alla borg...nema kannski að menn ætli að fara með auglýsingaherferðina "skítt með kerfið"... mun lengra.
Viss um að Jónína Ben stendur svo á bakvið þetta allt saman.
Veit ekki hvernig eða hvað Langi Sleði tekur sér fyrir hendur hér á síðunni, en við skulum sjá hvort stefnulaust blaður og ósjálfvirkur en oft tilviljanakenndur ásláttur, framkalli ekki eitthvað skemmtilegt.

Góðar stundir
Langi Sleði

Wednesday, July 09, 2008

...blogg

...ég ætla að byrja að blogga aftur.

Góðar stundir
Langi Sleði

free web hit counter