Monday, March 06, 2017

...gönguskíði

Það var gríðarlega falleg fjölskylda sem renndi í hlað, áhaldahúss GKG, seinnipart sunnudags.
Síðdegissólin skein skært og það stirndi á snjóinn, það var engu líkara en að fjölskyldan væri að stíga inn í póstkort svo friðsælt var umhverfið. Fuglarnir dönsuðu í háloftunum og buðu okkur velkomin

Úr bílnum stigu útivistargræjuð hjón uppfull af tilgangi auk tveggja dúðaðra hnoðra þar sem önnur fór strax að keppast við að borða snjó, á meðan hin hvatti hana áfram með tannlausu hjali.
Smám saman fór tilgangur ferðarinnar að taka á sig mynd þar sem ýmis vandaður gönguskíðabúnaður, hokinn af reynslu, tíndist smám saman úr skotti bílsins.

Skömmu síðar var búið að koma hnoðrunum í púlkinn, festa sleðann á húsbóndann og myndavélina á húsfreyjuna.
Fullkomið veður. Fullkomin fjölskylda. Fullkomin útivera.

Ljósmynd í upphafi ferðar skrásetti þennan viðburð, sem var jafn merkilegur og sjálfstæði íslendinga í öðru samhengi.
...
Fyrstu skrefin sem voru örlítið niður í móti reyndust létt. Íkornarnir í púlkinum skríktu báðir af kátínu við hvert skref.  Þetta var allt svo gaman, svo auðvelt, svo fallegt, svo heilbrigt.

Ég hugsaði að svona nákvæmlega hlyti Vilborgu Örnu að hafa liðið þegar hún lagði af stað í sína reisu.
Framundan var lítil brekka upp í móti, eftir að hafa runnið tvisvar til í sporinu sá ég að ég þyrfti að breyta í frjálsa gönguaðferð og skellti í gamla góða vaffið og klifraði upp brekkuna af öryggi. 

Minntist með hlýhug þeirra ára þegar maður klöngraðist í óratíma upp brekkurnar á svigskíðum í vaffinu fræga og renndi sér svo niður á örskotsstund...  Þessir gömlu góðu dagar.
Fyrsta brekkan upp var sigruð og nú hallaði almennilega undan fæti.

Ég var alltof fljótur að ná upp hraða niður brekkuna, í viðbót við laust sporið, dúndruðust púlkstangirnar  fram og ráku mjaðmirnar á mér fram fyrir þyngdarpunkt, þannig að ég leit út eins og dónakall, tilbúinn að fletta klæðum.  Smám saman hægðist þó ferðin og fyrir tilstuðlan vinveittra afla af ókunnu tagi, stóð ég enn í fæturna.

Fjarlægðin í næstu brekku var mjög lítil, mér rétt gafst ráðrúm til að minnast mikilvægi þess að skila þessum fína búnaði heilum og ósködduðum úr láni.

Næsta brekka var brattari. Töluvert brattari.
Ég rann til í hverju vaffi og staulaðist hokinn á stöfunum.  Púlkurinn hnippti hæðnislega í mig í sífellu eins og hann væri að láta mig vita að svona færi maður nú ekki að þessu. 
Á tímapunkti stóð ég grafkyrr í brekkunni eins og alheimurinn hafði ekki ákveðið hvort ég væri á leiðinni upp eða niður brekkuna afturábak.

Hann aumkaði sig þó yfir mig að lokum og hleypti mér upp, froðufellandi og rennsveittum.
Ég horfði niður fjallið sem ég hafði nú rétt í þessu gengið upp og hugsaði til þess að ég hafi nú yfirleitt verið hálfragur að láta mig vaða niður snjóhengjur og yfir stökkbretti á svigskíðum.  Ég renndi mér af stað niður í gljúfrið með rassinn vandlega inn í púlkinn svo ég yrði nú ekki tilkynntur til sóðanefndar. 

Mig var farið að gruna að stelpurnar í púlkinum væru farnar að hlæja að mér.  Það ískraði stöðugt í þeim.  Ég þakkaði þó fyrir það að sporið væri ekki tvöfalt, þannig að ég slyppi við að horfa í augun á glottandi ókunnugum, sem höfðu ekkert betra að gera en að æfa sig á þessi rakettuprik.
Ég veit ekki hvað brekkurnar voru margar í allt, en þær voru allavega... óteljandi.
Síðasti hluti brautarinnar var genginn svo hægt að sú yngri sofnaði.  Göngustíllinn var á pari við ofurölvi stelpu á 15 cm hælum, þar sem einn hæll hafði þegar brotnað undan skónum.

Þegar hringnum var lokað kastaði ég púlkinum af mér og hneig niður á næsta bekk.
Fuglarnir hlógu að mér og sólin bauð góða nótt.
Nokkrir gamlingjar drógu okkur uppi fyrir forvitnissakir og virtust vera að melta það hvort við hefðum stolist út af Kleppi, eða hreinlega stolið göngubúnaðinum frá Vilborgu Örnu. 

Við nánari eftirgrennslan virðist sem GKG hringurinn sé ekki nema 2-3 km sem þýðir að við höfum líklega villst af sporinu og gengið inn og út um alla Heiðmörk í millitíðinni.

Spennuþrunginni tilraun var lokið.

Í dag var svo húsfreyjan send til að skoða almennilegan gönguskíðabúnað sem ekki er ónýtt drasl sem lætur mann líta út eins og viðvaning.

Góðar stundir
Langi Sleðifree web hit counter