Thursday, December 29, 2005

...í gamla daga

...nú þegar nær dregur áramótum, plagar mig fortíðarhyggja eða fortíðarþráhyggja. Svo ég hef ákveðið að segja ykkur frá ... einhverju frá þeim tíma.

Þetta var á hughrifsárunum mínum, ég var rétt að ljúka við að ferðast hringinn í kringum landið í huganum.
Á hjóli, nota bene, í nóvemberlok.
Rétt í lokin stoppaði ég við mótel Venus, þar sem mér var orðið mjög mál að nota salernið.
Ég var fljótur í gegnum anddyrið, það get ég sagt ykkur, en fer ekki nánar út í smáatriðin, þar sem sum ykkar eru hugsanlega nýbúin að borða.
Að tæmingu lokinni, settist ég í lúið leðursófasett í illa upplýstu anddyrinu, ég fann hvernig þreytan helltist yfir mig. Eins og ég hafi tæmt alla bikara búksins.
Ég svaf.
Engill í afgreiðslukonugervi vakti mig og teymdi inn í herbergi þar sem ég svaf áfram.
Morguninn eftir var ég orðinn ástfanginn af afgreiðslukonunni, þannig að ég ákvað að vera aðeins lengur.
Ég bjó þarna í fimm ár, vissi í sjálfu sér aldrei nákvæmlega hvað hún hét en það var aukaatriði. Þurfti ekki meira af henni en þetta. Þrátt fyrir að ég hafi, ekki einu sinni fengið hrein handklæði allan þann tíma sem ég bjó þarna, þá líkaði mér vel. Sápan kláraðist fyrsta mánuðinn og þrátt fyrir að burstinn, sem ég notaði þessi fimm ár, hafi dugað allan tímann. Þá var hann alltaf fullstór. Og þessi skrýtni ilmur, eða keimur, hvarf aldrei. Og hinar vikulegu andvökunætur, þegar Grímur mætti með annars manns spúsu í herbergið við hliðina gleymast aldrei. Í taktföst hróp og köll heila nótt. Maðurinn var algjör maskína.

Einhvern veginn, þó, skapaðist aldrei rétta tækifærið til að tala við hana. Svo að ég gerði það aldrei. Þetta varð aldrei neitt annað en aðdáun úr metersfjarlægð.
Ég man ekki eftir því að hafa nokkurn tímann borðað, þessi fimm ár sem ég bjó þarna. En daglega eftir morgunverð, fór ég í göngutúra um nágrennið. Svo að ég hlýt að hafa borðað.
Einn daginn, snéri ég ekki við, hélt bara áfram að ganga. Þartil ég kom í notalegu íbúðina mína. Það var eins og ekkert hafði í skorist, rykið hafði ekki safnast saman í lag yfir hlutina mína. Og það sem meira var, kaffið var enn heitt.

Góðar stundir
Langi Sleði.

1 Comments:

Blogger Gadfly said...

Þú segir yndislegar sögur. Gleðilegt ár :)

3:12 AM  

Post a Comment

<< Home

free web hit counter