Thursday, May 25, 2006

...öðruvísi augu

...eru farin að mæta mér á göngum vinnustaðarins.
Ekki þannig að ég hafi beðið andlegt skipbrot og vappi um nakinn eða illa til hafður, heldur er þetta tengt vorinu!
Sumir eru farnir að brosa, í sama hlutfalli við aukið birtustig og stefna ótrautt á stöðugt sólheimaglott á jónsmessunótt.
Aðrir eru bólgnir og rauðeygðir, annaðhvort vegna þess að myrkrið gleymdi að segja þeim að fara að sofa, eða að frjókornaofnæmið, er að ná nýjum hæðum samanborið við sterílíserað, umhverfi vetrarins.
Svo eru lítil óttaslegin augu farin að sjást. Sumarstarfsfólkið. Ég hélt reyndar fyrst að væri eitthvað tengt öskudagsskilgreiningunni eða foreldra/barna vinnudeginum. En svo var ekki!
Augun mín eru hinsvegar, misþreytt og með eða án sjónskekkjugleraugna.
Formáli sögunnar er í raun sá að ég man svo vel eftir því þegar maður var að byrja að vinna, fullt af gömlu skrítnu fólki, verkfræðingar með ullarbindi, sjálfir grárri en gráu jakkafötin og í stíl við svart-hvíta útsendingu frá 1975, allir eru einhvern tímann sumarstarfsmenn.

Ég var búinn að vera að vesenast í jarðskjálftahönnun, í gær! Kraftadreifing á stífa hlið versus gluggahlið, þar sem gera þyrfti grein fyrir mun meiri liðleika.
Það sem ég er að reyna að segja ykkur er að hausinn var staddur inní steinsteyptu mannvirki norður á Húsavík.
Áður en ég rölti í mat, tek ég venjulega af mér gleraugun, því einhverra hluta vegna finnst mér betra að borða gleraugnalaus.
Með stærðfræðihluta heilans algjörlega ofvirkan, settist ég niður fyrir framan sumarstarfsmann, pínulitla snót.
Allt í einu hugsa ég, sjónskekkja getur haft áhrif á fjarlægðarskyn, þar sem heilinn lærir ómeðvitað að kvarða fjarlægðir með því að bera saman myndir frá báðum augum, hlýtur mitt fjarlægðaskyn að vera brenglað, annað hvort núna eða þegar ég set upp gleraugun.
Ég leit á pínulitla sumarstarfsmanninn og gerði mér fullkomlega grein fyrir því að hún var ekkert lítil, hún var bara miklu fjær mér en ég hélt.
Svo ég hrópaði til hennar: "SÆL OG VELKOMIN TIL STARFA!" Greyið litla hrökk í kút, brotinni röddu hvískraði hún: "Takk", hoppaði svo niður af stólnum og trítlaði fjarleiðis. Þegar hún var komin í dyrnar, var hún samasem horfin.

Magnað þetta sjónskekkjudæmi hugsaði ég og lagaði ullarbindið.

Góðar stundir
Langi Sleði

7 Comments:

Blogger Jóda said...

hehe...gamli minn.

8:53 AM  
Blogger inga hanna said...

greinilega gaman að vera með sjónskekkju...

1:02 PM  
Anonymous Anonymous said...

Sé þetta meira og minna fyrir mér. Góður texti!
NI

8:59 PM  
Anonymous Anonymous said...

Segdu mér, ertu líka andfúll og utan vid thig? Og teflir thú kannski líka vid vinnufélagana, á medan hádegisfréttirnar á Gufunni óma í bakrunninum? ..."Útvarp Reykjavík, klukkan er..." ...sagdar hádegisfréttir..."? Ertu ad verda ad prótótýpu? Á ég eftir ad thekkja thig aftur? SCARY!!!!

9:11 AM  
Anonymous Anonymous said...

Aumingja litla snótin, vona að þetta hafi ekki orðið til þess að hún hafi hrökklast lengra en bara í vinnusætið sitt. Svona kallar geta verið svo skerí.

3:30 PM  
Blogger Langi Sleði said...

halldóra: ekki gamall, bara eldri.
inga hanna: Já, það er alltaf mjög gaman hjá mér, sem er mikilvægt í lífinu.
ég: Ég verð aldrei prótótýpa.
stutta: hef reyndar ekki séð hana undanfarna daga! Ég er samt gæðablóð!

1:14 PM  
Anonymous Anonymous said...

Langi Sleði, Laaaangiiiiiii!
Hvar ertu?!

10:52 AM  

Post a Comment

<< Home

free web hit counter