Sunday, February 18, 2007

...undanfarið

...hefur fólk horft á mig undarlegum augum.
Líklega hefur það kannski alltaf loðað við mig að fólk hafi horft á mig undarlegum augum en það er eins og þau hafi ekki alveg fengið staðfestingu á hvað það væri nákvæmlega sem pirraði sjónrænu skynjunina.
Undanfarna daga hefur sá pirringur nú horfið þar sem undarlegu augngoturnar hafa nú öðlast brennipunkt.
...
Þetta hófst allt fyrir nokkrum vikum á mjög undarlegu atviki.
Ég er í nornabúð ónefndri sem ég leitaði skjóls í vegna snjóbyls. Auk mín og afgreiðslumannsins, sem er augljóslega rammgöldróttur, er ein stúlka í búðinni, líklega í einhverju kuldasjokki en hún er niðursokkin í sínum heimi og hummar í sífellu. Afgreiðslumaðurinn er greinilega búinn að galdra sér haukfrá augu, því uppúr þurru sagði hann að ég ætti að skila skyrtunni sem ég klæddist því önnur önnur ermin væri gölluð og myndi klæða mig illa í framtíðinni. Ég hélt fyrst að hann væri með hótfyndni og hann væri að segja mér að hann sæi í raun hvaða erindagjörðum ég væri þarna.
Á þessum tímapunkti er stúlkan einhvernvegin búin að króa mig af í búðinni og stendur nú aðeins og starir.
Ég fékk það á tilfinninguna að ég væri að trufla elskendamál og ákvað að láta mig hverfa. Ég ætlaði alls ekki og endilega að lenda á trúnó með einhverju pari sem ég þekkti ekki neitt, sérstaklega, þar sem ég er farinn að það túlka sem misnotkun á mínum hæfileikum.
Ég tek því strikið að hurðinni og í því hrópar stúlkan uppfyrir sig að hún hafi týnt öðrum hanskanum sínum. Ég svipast um eftir honum í snarheitum, enda hjálplegur með afbrigðum. Þegar ég sé hann ekki, vippa ég mér út í bylinn sem hjálpar mér að hverfa eins og dögg fyrir sólu. Axlarkláðinn ágerist með hverri mínútunni. Þegar ég er búinn að ganga í 10-15 mínútur þegar ég set hendurnar í buxnavasana til að reyna að hemja klórverkið.
Forviða dreg ég upp kvenmannsleðurhanska!
Ég sneri strax við því þarna sá ég að leðurhanski stúlkunnar hlyti að vera kominn. Ég var rétt hálfnaður á bakaleiðinni þegar ég mætti stúlkunni.

Ég átti ekki orð.

Hún var einhent og mér var brugðið.

Ég mannaði mig nú samt upp í það að spyrja, hvort þetta væri ekki örugglega hennar hanski. Hún játti því, horfði á mig undarlegum augum og svaraði: "en hefur þú ekki meira við hanskann að gera með þessa beru kvenmannshendi útúr öxlinni".
...
Eftir dálitla stund játti ég því!

Góðar stundir
Langi Sleði

2 Comments:

Anonymous Anonymous said...

það ert ekki þú.

það eru hinir. þessir með undarlegu augun.

11:35 AM  
Blogger Langi Sleði said...

Já og það sé kannski bara tilviljun að ég fái mánaðarlega greitt úr sjóðum H.C. Andersen!
...það væri kúl

11:44 AM  

Post a Comment

<< Home

free web hit counter