Sunday, July 24, 2005

veruleikinn í draumunum og mörkin þar á milli

...of oft hefur það komið fyrir að ég hafi legið uppí rúmi og hugsað. Þetta verð ég að skrifa um á morgun. Næsta dag man ég ekkert, nema að ég er búinn að gleyma því sem ég ætlaði að skrifa um. Frekar pirrandi. Í dag lá ég í sólbaði í lauginni minni ásamt þúsund yngismeyjum. Og ég get alltaf furðað mig á því hvert þessar konur hverfa þegar veðrið er vont. Sundlaugarvörðurinn var mjög pirraður á krökkum, hangandi á línunni, búa til stíflu í rennibrautinni, og allt blandaðist þetta saman við gsm símhringingar, sms, bdsm, hrygluna í manninum við hliðina, þegar hann rembdist við að naga á sér táneglurnar og soghljóðið í heitapottinum, þegar vatnið heimtar að vera lengur. Svo fór ég að heyra fleiri hluti, skrítnari hluti. Skrjáf í ælænerum, varalitum, heyrði í bikiníum sem hafa aldrei synt, sundgleraugu sem héldu að þau væru blíng. Svo komu hvítu slopparnir undir hendinni á tattúfólkinu sem var búið að fara í brúnku-hlaupabrettis trítmenntið í húsinu á móti, kvartandi að þeir hefðu nú aldrei verið eins niðurlægðir og nú. Sundlaugarvörðurinn var nú farinn að tala við sjálfan sig í kallkerfinu, hvernig hann hefði átt í ástarsambandi við kvenfólkið sem bjó undir sundlauginni. Fallegt kvenfólk í álögum sem býr undir sundlaugum, og fær bara að koma út á góðviðrisdögum. Hann var helst til pósessívur, og var farinn að skamma kalla fyrir að glápa á konur. Hótaði að senda þær aftur inn undir laugina. Þær svöruðu með því að fara úr brjóstahöldunum, allar í einu. Það sló dauðaþögn á lífið í lauginni. Gömul kona kom með hænuegg í heitasta pottinn, sagðist njóta þess svo að nýta sér einu guðsgjöfina sína, þolinmæðina.

Ég veit ekki, hvenær, en einhvern tímann voru mörkin á milli draums og veruleika... og að einhverju leiti eru draumarnir líka veruleiki.
Skrítið oft hvað hugurinn getur spilað með mann stundum. Eitt er allavegana pottþétt. Ég verð að komast undir þessa sundlaug einhverntímann!

Góðar stundir
Langi Sleði

4 Comments:

Blogger inga hanna said...

Draumar sem blandast inn í veruleikann gera hann svo skemmtilegan.

Það væri gott að kynnast þolinmóðu konunni með eggið.

12:02 PM  
Blogger Jóda said...

Þetta er ekki alveg rétt hjá þér. Við fáum líka stundum að fara í sund í rigningu.

7:17 PM  
Blogger Jóda said...

Þetta er ekki alveg rétt hjá þér. Við fáum líka stundum að fara í sund í rigningu.

7:17 PM  
Blogger Langi Sleði said...

Inga: Já, ég er nú samt svolítið spenntur að taka egg með mér í sund, þar sem ég sörfa heitu pottana og eimbaðið. Athuga svo þegar heim er komið hvað eggið er komið langt í suðu.
Jóda: Fyrir þá sem stunda sund, er stundum, stundum ekki nóg og stundum er stundum of mikið.

11:00 AM  

Post a Comment

<< Home

free web hit counter