Thursday, November 17, 2005

...deit?

Það er statt og stöðugt unnið að því að hræða Langa Sleða.
Hann fór á öldurhús Sódómu fyrir skömmu og eftirfarandi er lýsing á því sem þar gerðist.

Hugguleg stúlka situr við barborðið og horfir í gaupnir sér.

Langi Sleði vindur sér að henni og segir: "Af hverju í ósköpunum situr þú hér einsömul með sorgarsvip?"
Hún: "Ha!, ég?"
Langi Sleði: "Já, er ekki kominn tími á að brosa framan í heiminn, þú getur æft þig á mér!"
Hún brosti, enda er Langi Sleði ómótstæðilegur. Svotil.
Hún: "Já, ég er alveg til í það! Nennirðu að bíða aðeins, ég þarf að skreppa á púðurherbergið"
Langi Sleði: "Já ég skal horfa stíft ofaní glasið þitt á meðan, svo það fái ekki höfnunartilfinningu!"

Hún hló og sveif með glöðu yfirbragði í hinn enda salsins.
Skömmu síðar kom hún tilbaka og var greinilega búin að hressa upp á varalitinn... og ég veit ekki hvaða töfra hún framkvæmdi... en hún geislaði.

Hún: "Jæja, þá er ég loksins komin!"
Langi Sleði: "Já vertu velkomin gaman að sjá þig, má ég ekki bjóða þér drykk?"
Hún: "uhhm, jú takk! Kannski bara Breezer eða eitthvað!"

Langi Sleði fór sína fyrstu ferð á barinn þetta kvöld. Einn stóran bjór og Breezer að eigin vali, sagði hann við barþjóninn. Langi Sleði er nefnilega ekki alveg það metró að hann nenni að drekka Martini með beri, eða Campari. Einnig er bjórbumba,
eitthvað sem er ekki að angra Langa Sleða.

Langi Sleði rétti henni drykkinn og sagði: "Eigum við ekki að setjast þarna í hornið, það er svo miklu þægilegra að spjalla!"
Hún: "Jú, ægilega ertu sætur í þér!"
Langi Sleði: "Ég veit, venjulega er það nú misnotað bara til þess að fá mig til að iðnaðarmannast!"
Hún, brosandi út að eyrum: "Þú lítur ekkert út eins og iðnaðarmaður!"
Langi Sleði: "Nei, takk býst ég við! Og þú lítur ekkert út eins og Ingibjörg Sólrún!"
Hún horfði undrandi á mig og sprakk svo úr hlátri.
Hún: "Takk, fyrir það... ég er svo heppin!"
... og svo hlógum við okkur niður í sætin út í horni.

Kvöldið sveif áfram í skjóli skemmtilegra umræðna, hlátraskalla og barferða.
Eftir 3 breezera byrjaði hinsvegar hryllingurinn.
Við vorum að gera topp tíu lista um frábærar uppfinningar á servíettu, þegar hún segir skyndilega og út úr heiðskírum himni: "Ég var nú bara svo down áðan af því ég hitti aldrei neinn eins og þig á djamminu!"
Ég brosti til hennar og svaraði: "Nei, ég hef líka bara einu sinni djammað áður!"
Næsti klukkutími, var yfirheyrsla.
Hvað átti ég mörg börn? Átti ég íbúð? Hvað margra herbergja? Átti ég bíl? Var ég skuldugur? Hvar vann ég og hvað hafði ég í laun? Hvar verslaði ég? Hva.. hva... hvaÐ?

Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir mínar að beina samræðunum í annan farveg, eins og t.d. að sturtu sem bestu uppfinningu allra tíma, þá varð ég að sætta mig við umbreytinguna frá því að vera bara skemmtilegur strákur, yfir í það að vera bráð.

Hún var orðin pósessív á það þegar ég heilsaði fólki sem ég þekkti. "Bíddu, erum við ekki að tala saman? Ég ætla ekkert að hanga hér á meðan þú ert að tala við einhverjar druslur!"
Ég svaraði: "Þessi kona er sko engin drusla, enda hefur mér reynst gersamlega ómögulegt að koma henni í rúmið!"
Henni var ekki skemmt, og í stað þess að slaka aðeins á hækkaði hún hitastigið.

Hún: "Svo vil ég fara að eignast börn! Ég er ekkert að yngjast og egg deyr mánaðarlega hjá mér... Ég ætla ekki að standa í neinni vitleysu!

Þegar hér var komið sögu, var ég farinn að eyða meiri tíma á klósettinu eða á barnum en hjá þessu sækóbitssji.

Offisíelt, vorum við samt enn að tala saman. Þetta var samt orðið skerí! Ég rölti mér inn á salernið og var að hugsa um það hvernig ég ætti að losa mig undan þessari áþján. Hvaða afsökun ætti ég að nota til að komast heim. Ég er rétt að renna niður buxnaklaufinni þegar sækóbittsjið, kemur með þvílíkum látum að það var eins og flóð sé að bresta á í Kárahnjúkum.

Hún: "Fariði frá addna, ég er alveg að míga í mig!"

Þegar hún hafði árangurslaust barið á allar dyr, horfði hún á mig og sagði: "Ég get þetta vel, hef oft gert þetta!"
Þvínæst vippaði hún sokkabuxunum og nærbuxunum á hnén og á einhvern óskiljanlegan hátt vafði hún sér utan um pissuskálina og gerði þarfir sínar.

Ég gapti af undrun.
"Þetta er ekkert mál, ég var nefnilega í ballett einu sinni", sagði hún í sömu mund og pissuskálin rifnaði af veggnum og hún hrundi á gólfið með pissuskálina í fanginu eins og mæður myndu halda á nýbura. Vatn sprautaðist út um allt og hún lá þarna blótandi og ragnandi. Ég hjálpaði henni á fætur, rétt nógu tímanlega til þess að dyraverðir rifu hana af mér, snéru hana niður og settu hnéð í bakið á henni.
"Þetta er nú óþarfi" sagði ég og reyndi í rólegheitum að stöðva vitleysuna. Þeir fóru með hana í bakherbergi til þess að taka af henni skýrslu, en hún var orðin gjörsamlega brjáluð. Ég var þarna hjá henni, þartil lögreglan mætti og í samstilltu átaki dyravarða, lögreglu og mín náðist nokkurs konar skýrsla.

Hún: "Látiði mig bara vera, þetta er ekkert mál! Kærastinn minn borgar þetta bara"... svo horfði hún á mig.
Ég horfði á hana til baka og sagði eins og var, að við værum sko ekki kærustupar.
Lögreglumennirnir, sögðu að það væri nauðsynlegt að hún kæmi á stöðina til að gefa formlega skýrslu, og þannig háttar eitthvað dót.
Ég var bara feginn þegar þeir vildu ekki fá mig með.
Ég var allur að þorna eftir gusuganginn inn á klósettinu og ákvað að fá mér einn whiský í rólegheitum áður en ég færi heim.
Ég hitti gamla félaga úr grunnskóla og eitthvað ílengdist ég þarna á staðnum og áður en ég veit af er sækóbittsjið, að öskra á dyravörðinn sem snéri hana niður, því hann vill ekki hleypa henni inn.
Hálftíma síðar ákveð ég að það sé kominn tími á heimferð.
Fyrir utan dyrnar, standa dyravörðurinn og sækóbittsjið í faðmlögum, og ég smokraði mér framhjá þeim svo að lítið bæri á, út í nóttina.

Góðar stundir
Langi Sleði

10 Comments:

Blogger inga hanna said...

ég vona þín vegna að þessi viðbrögð skvísa séu frekar undantekning en regla!

1:40 PM  
Blogger Jóda said...

hahahahahahahhaha...
en hvað það er nú samt sorglegt að fólk skuli misnota sætleika þinn til að iðnaðarmannast fyrir sig...
ég meina þekkir fólk ekki sín mörk?

3:04 PM  
Anonymous Anonymous said...

Yndislegt.

3:59 PM  
Anonymous Anonymous said...

Ég hló ekki bara, heldur skellihló, eða reyndar skelliskelliskellihló.

9:39 PM  
Blogger Gadfly said...

Kannski þú ættir að tékka á dömunum sem eru EKKI á djamminu :)

10:35 PM  
Anonymous Anonymous said...

Unaður hreinn unaður. Ég er samt hissa á að þetta hafi komið þér á óvart. Ef það er einhver ein setning sem ég tengi við þig þá er það "þið eruð allar geðveikar".

12:18 AM  
Anonymous Anonymous said...

Skemmtileg frásögn! Einu sinni sagði mér bandarískur maður að hann væri hættur að deita konur frá sínu heimalandi því þær yfirheyrðu alltaf um stöðu, laun o.s.frv. á fyrsta stefnumóti. Ætli íslenskar konur séu eins???

3:11 PM  
Anonymous Anonymous said...

iss skil hana vel, bara gott að sofa hjá mönnum með há laun :) og eigendum spariskírteina ríkissjóðs

9:32 PM  
Anonymous Anonymous said...

HA HA HA HA HA HA HA.......!
Sjúklega skemmtileg frásögn. Hvar hittirdu allt thetta klikkada fólk?
Hvad er thad vid thig sem ladar thad ad thér??

1:30 PM  
Blogger Langi Sleði said...

inga hanna: undantekningin sannar regluna.

halldóra: segðu

Hildur: Takk

anóní1: takk takk

sápuópera: Það hefur ekki gengið sem skyldi

anóní2: þetta er meira svona staðfesting.

sigga: Þið eruð eins! Það er engum blöðum um það að fletta!

anóní3: Það eru bara sumir sem stöffa dýnurnar og koddana með peningum.

anóní4: þessa stúlku hitti ég á ölstofunni.

11:33 PM  

Post a Comment

<< Home

free web hit counter