Sunday, April 16, 2006

...af ljósi

...oft.
Er ég geng hjá glugga, grípa sjáöldur auga minna, spegilmynd. Af varkárni hef ég lært að taka henni eins og hún er.
Stundum segir hún mér aðeins að gluggarnir séu skítugir eða að ég þurfi að rétta úr bakinu en oftar endurvarpast minningar eða hugleiðingar.
Fyrir andartaki, kveikti ég á lampa sem stendur út í glugga. Í veðurbörðum rúðunum, lýstist upp andlitið og það var þá sem ég áttaði mig á því, hvernig ég ætti að segja ykkur frá trúnni.

Ég var alinn upp við það að biðja bænir fyrir svefninn, það var þó ekki þannig að fjölskyldan hafi verið tíður kirkjugestur. Það vorum við alls ekki. Í raun gerðist fátt í trúnni, fram að fermingu, við fermingu eða eftir fermingu. Það var ekki fyrr en nokkrum árum eftir fermingu, að ég, ákvað að gera tilraun og hætta að biðja bænir. Sjá hvort að það breytti einhverju í mínu lífi. Auðvitað mun ég aldrei vita, hvort sú hafi orðið raunin. En raunin varð hinsvegar sú að ég hætti að biðja bænir.
Fyrir nokkrum árum, veiktist ég svo heiftarlega. Enginn vissi hvað amaði að mér, en ég endaði á gjörgæslu með næringu í æð. Ég fór í röntgen og sneiðmyndatöku og magaspeglun og ég veit ekki hvað. Ekkert fannst. Þetta tók nærri tvo mánuði og aldrei fannst eitthvað að. En ég varð hræddur. Og þá dúkkaði blessaða barnatrúin upp og ég fór að biðja bænir.
Hvað er trúin mín þá annað en minn eiginn innri styrkur?
Trúi á Jesú Krist, hans einkason... Ég trúi á það sem hann stendur fyrir og þau mannlegu gildi sem hann boðar. Ég trúi á það sem ekki hefur enn úrelst. Ég stend við það að vilja vera góð manneskja.
Ég stend við það sjálf sem ég hef skapað með tímanum.
Ég á erfitt með að sjá hvað fermingin hefur umfram veisluna.
Það alltsaman finnst mér vera skrum.
Finnst ykkur öllum eðlilegt að 13-14 ára krakkar, skuli staðfesta kristna trú sína, í skugga sífellt stækkandi fermingagjafa?

Frænka mín fermdist um þessa páska og satt að segja veigraði ég mér við að mæta, því mér finnst fermingarveislan, vera miklu nær mammoni en nokkru öðru.
Það var þó ekki fyrr en í gær, á föstudaginn langa, sem ég varð ánægður með þá ákvörðun mína að mæta ekki.
Enginn skal dæma annars trú!
Því ætla ég ekki að dæma um annarra trú, ekki annarra en nágranna míns a.m.k. en hann flaggaði fullum fetum í sinni 15 metra háu flaggstöng.
Ætli hann hafi fermst?

Góðar stundir
Langi Sleði

4 Comments:

Blogger Fríða said...

Ég lít á ferminguna sem manndómsvígslu og alveg óþarfi að vera að tengja það einhverri trú. En ég skal fúslega viðurkenna það að mig langar til að halda upp á það að barnið mitt skuli vera orðið svona stórt og mér finnst að það eigi skilið að fá að vera miðpunkturinn einn dag. Mér er nokk sama hvort fólk er að skuldsetja sig við að halda fermingarveislur. Fólk heldur veislu ef það langar til að halda veislu, gefur gjafir ef það langar til að gefa gjafir. Mig langar til að gera hvortveggja og þá geri ég það, og það meira að segja án þess að skuldsetja mig. Ég móðgast nú bara ef fólk ætlar að fara að setja samasemmerki á milli veislu og skulda.
En að láta 13-14 ára börn taka afstöðu til trúar, það finnst mér út í hött, þau eru hreinlega ekki nægilega þroskuð til þess. Nú, ef það eru einhver þarna inn á milli sem hafa tekið afstöðu, þá tel ég ólíklegt að fermingin skipti nokkru máli hvað það varðar.

1:34 PM  
Blogger Blinda said...

Allt í átján! Hversu oft þarf ég að benda á þessa gæðalausn??

6:49 PM  
Blogger inga hanna said...

ég er svoldið skotin í hugmyndinni um að trúin sé í raun manns innri styrkur

8:12 PM  
Blogger Langi Sleði said...

klikkun: já, ég bíð eftir því að sjá raunveruleikaþátt um ferminguna á skjáeinum.
útifrík: já, en fermingin er nú einu sinni tengd trú.
lindablinda: :-) Þú er séní!
ingahanna: :-) Já, ég líka!

10:42 PM  

Post a Comment

<< Home

free web hit counter