...what a day for a daydream...
Ef ég hefði vitað fyrirfram hvernig dagurinn yrði, hefði ég líklega fótbrotið mig á ristavélinni, en því var nú ekki að heilsa þannig að ég hélt út í óvissuna 08:00. Byrjaði daginn í ríkinu, endaði á því að vera með meiningar og kúgaði þá loks til samstarfs, fékk þá meira að segja til að tala ensku.
Hélt svo til vinnu til að hitta væntanlega viðskiptavini. Sendinefnd frá Hollandi, sem vilja reisa verksmiðju þar. Hollendingar eru mjög sérstakur þjóðflokkur, allan daginn sveiflaðist ég á milli þess, að finnast við vera búnir að landa þeim og glata þeim. Landa, glata.. glatað land. Þeir eru einnig frægir fyrir að vera MJÖG íhaldssamir á fjármuni, og er oft sagt að þetta sé fólk með óeðlilega stuttar hendur og mjög djúpa vasa. Eftir tilfinningalega rússíbanaferð, ákvað ég að fara í sund, þar væri ég a.m.k. óhultur. Ég labbaði beint í flasið á "Höfða-mómenti" (sem er miklu merkilegra móment en "kodak-moment"), brosti, hæ!, flass, flass, flass, og vissi ekkert hvað ég átti að segja, frekar en Reagan og Gorbi forðum. Komst loks í pottinn, og ákvað að loka augunum, þangað til ég væri orðinn svangur. Þreyttur og svangur, fór ég uppúr, löng sturta, "það verður gott að komast heim", hugsaði ég. Loksins þegar ég kom út í ferska loftið á ný, fylltust lungu mín af von að deginum væri nú loks að ljúka, en nei. Þar sem ég haltraði í hægðum mínum (ég haltra en út af hnénu) út að bílnum mínum, þá gekk framúr mér fjölfatlaður maður, með tvær hækjur, og ég veit ekki hvernig í ósköpunum hann hélt jafnvægi. Það var bara ómögulegt að vinda sig svona, fæturnir lentu einhvernveginn á jörðinni, eins og það væri meira fyrir misskilning en ákveðið skref. Hann baðaði út höndum eins og maður sem er að detta aftur fyrir sig og stakk svo niður hækjunum rétt í þann mund sem maður hugsaði... "nú dettur hann".
Ég horfði á hann fjarlægjast mig, og það var ekki fyrr en hann hafði sest inn í bíl og ekið burt, óaðfinnanlega, að ég fattaði að ég var hættur að ganga.
Þetta var engin spurning. Nú fer ég heim, og dvel þar. Á leiðinni heim hringdi ég í Dorrit og Óla og afboðaði keilukvöld. Þessi keilukvöld eru nú líka búin að vera hálfskrítin undanfarið, hún er eitthvað voðalega spennt fyrir legó þessa dagana... Ég er ekki að fíla það!
góðar stundir
Langi Sleði
2 Comments:
hvor var gorbi og hvor var regan?
eftir smá umhugsun, er ég ekki enn búin að fatta hvort er betra.
Kristín: Nei, en á Höfða-mómentum er alltaf mikið af myndavélum í kring. Eins og við Guðbergur vitum, að þá er maðurinn myndavél.
Jóda: Veit það ekki heldur, líklega hvorugt, hvort annað, nema hvortveggja sé.
Post a Comment
<< Home