Rangur sparnaður
Langi Sleði hefur mjög ákveðnar skoðanir á því þegar sparað er á röngum stöðum. Hvernig maður á að dekra við sjálfan sig, með þessum pínulitlu hlutum sem hafa fylgt manni síðan í æsku.
Til dæmis það að kaupa Bónus klósettpappír, er að kasta fé á glæ. Það er alveg eins hægt að sneiða niður Fréttablaðið, sem er ókeypis. Þetta á líka við fleiri afþurrkunarvörur, eins og ódýru viskastykkin sem færa bleytuna bara til og hrinda dropunum raun frá sér. Munið líka eftir stútunum sem var hægt að láta á mjólkurfernurnar, það var furðulegt dæmi, en kannski svolítið önnur ella.
Það að kaupa ódýrasta tannkremið í búðinni er líka með öllu óskiljanlegt. Að anga eins og salerni á bifvélaverkstæði, er bara ekki þess virði. Pottar og pönnur, kaupið vandaðar eldhúsvörur, þið notið þetta á hverjum degi og það er ekkert verra en að eyða óþarflega löngum tíma í að skrapa matarleifarnar úr botnunum. Uppvask er ekki svona skemmtilegt.
Kauptu almennilegt rauðvín, það er himinn og haf á milli þess að drekka 990 krónu flösku og 1400 kr flösku, þú ert ekki að fara á hausinn, þetta eru 400 kr. Ef þú ætlar á rauðvínsfyllerí, kauptu þá bara rauðvín í plasti og hættu að þykjast.
Brauð, Samsölu/Myllu-froðan sem er seld í kjörbúðum er vond en hún venst. Vendu þig á bakarí, bakarí er lífsstíll.
Svona get ég haldið endalaust áfram, t.d. appelsínusafi, ostur, fersk matvara, kiljur í stað vasabrotsbóka osfrv.
Eitt er þó ónefnt, og mikilvægast af öllu, mest notaða nautnavaran í nútímaþjóðfélaginu. Kaffi, það er ekki endalaust hægt að bjóða upp á biðstofusull. Bjóðið mér upp á gott kaffi, gott súkkulaði má fylgja. Ég er að hugsa um að taka upp á því að hella vondu kaffi í sófann ef þú svo mikið sem dirfist að bjóða mér upp á eitthvað drasl. Það er fyndið þegar fólk segir: "æ, ætlar þú að hella uppá elskan? Notaðu þá fína kaffið!". Hvað er að ykkur!!...
Gaman væri að heyra hvað ykkur dettur í hug eftir þessa upptalningu, ég man til dæmis eftir hnetusmjörinu sem fæst í heilsuhúsinu, það er bara ekki úr þessum heimi.
góðar stundir
Langi Sleði.
3 Comments:
Íslenskar lífrænt ræktaðar gulrætur.
Balsamik edik þarf líka að kaupa af mikilli ástúð og ódýr uppþvottalögur er algjörlega óþolandi - fell alltaf annað slagið í þá gryfju.
Almenna reglan er bara sú að maður borgar fyrir gæðin. Ef maður er á annað borð að spara þá hlýtur maður að láta eitthvað á móti sér. Ég get alveg tekið undir það að góður klósettpappír er betri en vondur en ég myndi sjálf frekar kaupa ódýran klósettpappír, ódýrt kex o.s.frv. en að losa mig við nettenginguna, neita mér um leikhússferðir, sofa á ónýtri dýnu eða ganga í vondum skóm. Maður fær bara ekki allt nema maður sé ríkur og vafamál hvort sé "réttara" að spara á einu sviði en öðru.
mín regla er nú frekar "betri eru tveir góðir kaffibollar en þrír vondir".
Post a Comment
<< Home