Að sækja vatnið yfir lækinn
Ég heimsæki ömmu mína mjög reglulega, reyni að hafa það einu sinni í viku. Í þessum heimsóknum ber margt á góma, lífið í dag, lífið í gær, lífið fyrir stríð, lífið í ljósinu og lífið í myrkrinu. Jahh.. þið náið heildarmyndinni. Svo tölum við líka mikið um bridds og fótbolta. Við tölum um allt sem okkur dettur í hug. Þetta er amma mín í föðurætt, hún Ingunn. Nú um daginn vorum við að rifja upp gamlar sögu af hinni ömmu minni , henni Ágústu.
Amma Gústa var afar mikil veiðikona, og einhvern tímann var frúarferð í veiðikofa vinahjóna. Amma Gústa, náttúrulega orðin mjög spennt að komast út í á, hljóp inn með dótið rétti svo ömmu Ingu tvær 20 lítra járnfötur og sagði: "jæja Inga mín, nú förum við og sækjum vatn". Það var dágóður spotti að læknum og Gústa vildi náttúrulega fylla föturnar, "færri ferðir skilurðu". Amma Inga sagði að bakaleiðin, hefði nú verið sá tími sem hendurnar hennar lengdust mest. Inga var að niðurlotum komin þegar þær komu aftur í bústaðinn, en Ágústa hafði farið alla leiðina í bomsunum. Hún var þannig.
Gústa: "jæja Rannsí mín, það eru komnir hérna 80 lítrar af vatni. Má ég þá ekki bara fara út í á?"
Rannsí: "Já, en Gústa mín, við erum búin að leggja vatn í bústaðinn."
Gústa: "Iss, þetta er miklu betra og ferskara vatn."
Svo var hún farin út í á, hlaðin þeim veiðigræjum sem allir fullvaxta karlmenn, myndu veigra sér við að bera í dag.
Þetta var einn partur af mínum hugsunum áðan. Að sækja vatnið yfir lækinn, sjá ekki fjallið fyrir hólnum, og tréð fyrir runnanum.
Nafni minn hann afi sagði eitt sinn við mig er ég var að halda út eftirlitslaus í Galtalæk um verslunarmannahelgi: "Farðu varlega, en djarflega inn um gleðinnar dyr". Þetta orðatiltæki hef ég alltaf munað, kannski mest vegna þess að mútta varð orðlaus. En kannski líka af því að oft hefur mann skort þor en hugsandi um þetta hef ég oft farið síðustu metrana.
Að þessum forsögum loknum, fer ég að nálgast þá hugsun sem leitaði á mig áðan.
1. Ef maður ætlar að sækja vatnið yfir lækinn, má maður gera ráð fyrir því að þurfa að ganga bæði varlega og djarflega. Annars gæti eitthvað lengst fram úr hófi, hvort heldur sem er hendur, tími eða ráð.
2. Ef maður ætlar sér inn um gleðinnar dyr, er ekki mikið að þurfa að þvera nokkra læki, sprænur eða jafnvel fljót. Sérstaklega ef maður er bara alltaf í bomsum.
3. Það er merkilegt hvað vatn leitar í margar dæmisögur, kannski er það hinn eini sanni lífsþorsti sem þjáir mig.
Með vatn mér við hlið og buxur brettar upp að hnjám, segi ég skál og stundir góðar.
Langi Sleði
3 Comments:
Skrifaðu bók!
Hahaha... og svo bíómynd... hmm ætli Karl bretaprins sé laus???
Enginn ætti að þurfa að rogast með vatn í fötum inn um gleðinnar dyr. Gleðihús á að hafa góðar pípulagnir með rennandi vatni.
Það vill svo til að ég smíða vatnslekanema svo þú mátt hafa samband ef þú óttast að hurðaskellir gleðihússgesta hafi flóðahættu í för með sér.
Post a Comment
<< Home