Friday, May 27, 2005

Tímaglas

Ég var með útlending hjá mér vegna vinnunnar á þriðjudaginn. Hollendingur, sem hafði mikinn áhuga á Íslandi og landslagi. Á leiðinni heim frá Akranesi bauðst ég til þess að taka krók, og fara Hvalfjörðinn. Þetta var dásamlega fallegur dagur og við ákváðum að bruna um Hvalfjörðinn.
Ég sagði honum svo frá fjallanöfnum, kirkjustöðum og hvalstöðinni. Hermannvirkjunum, Glymi, Botnsdal og skýringuna á nafninu Ferstikla. Það er magnað hvað Hvalfjörður er orðinn mikil sveit við að detta úr alfaraleið. Alls staðar var dauðaþögn, nema á Ferstiklu þar voru vegagerðarmenn að versla sér hamborgara og sígarettur. Þeir voru greinilega ekki þarna í fyrsta sinn, því að þeir fóru allir úr skónum útá plani og sumir fóru úr meiru. Sólin skein, fuglarnir kvökuðu, ég fyllti bílinn af bensíni og vegagerðarmenn ræddu að það væru tvær leiðir til að rífast við konu. Ég lagði strax við hlustir en svo heyrði ég að hvorug aðferðin virkaði. Frétti reyndar líka að það væri slæm franska að taka inn svefntöflu og laxerolíu í sömu mund. Ætla reyndar að muna að forðast það.

Ég ákvað að taka Lyngdalsheiðina, og sýna honum Þingvelli. Við keyrðum í gegnum vinnusvæði vegagerðarinnar, ég sagði honum að þetta væru allt eðlileg vorverk. Er við stigum út úr bílnum við Almannagjá, fundum við megna bensínlykt. Einhvers staðar á heiðinni, hafði steinn hrokkið í bensínleiðsluna, og tankurinn var orðinn tæplega hálfur.

Fokk.

Spúandi bensíni brunaði ég niður í þjónustumiðstöð þjóðgarðsvarða þar sem ég fann allt lokað, en fann svo tvo verði á bak við skúr í tilhugalífinu. Við fundum hosuklemmur og slöngubút, gerðum við bensínleiðsluna og brunuðum glorhungraðir í bæinn. Hann heimtaði að fá að bjóða mér út að borða með því skilyrði að ég veldi staðinn. Við fórum á Tvo fiska, fengum þar öndvegismat. Ég held að hann hafi pantað sér ferð til Íslands með Smyril Line, áður en hann fór úr landi. Hann hringdi 3svar í konuna sína á leiðinni. Þetta var svo mikið ævintýri.

Ævintýri eru af öllum stærðum og gerðum.
Fólk er af öllum stærðum og gerðum.

Stundum eru litlu hlutirnir, margfalt stærri, í augum annarra. Og stundum ekki. og stundum eru stundir allt sem þarf.

Góðar stundir
Langi Sleði

1 Comments:

Blogger Langi Sleði said...

já.. var með hugann annarsstaðar, meinti Kjósaskarð!

12:19 AM  

Post a Comment

<< Home

free web hit counter