Monday, November 28, 2005

..Ljúfa

Langi Sleði gengur inn í gallerý. Á bak við afgreiðsluborðið standa tvær konur, í samræðum um nýju ópalumbúðirnar. Hefði verið meira gaman að koma þarna beinustu leið inn í samræði. En lífið er ekki ÞAÐ gott!
Allavegana.
Þær gjóuðu augunum rétt á mig eins og ég væri að bjóða þeim kaldan sviðakjamma horfðu þær á hvor aðra. Svo mig og héldu áfram að tala um pastellitina í ópalnum.

"Æi fokk!" hugsaði ég, "ég er í flíspeysunni!"

Rétt skömmu síðar kom inn kona í fallegum pels. Það skipti engum togum, önnur vippaði sér fram fyrir búðarborðið og áður en hún gat tekið upp fyrsta hlutinn.

Afgreiðslukona2 (ak2): "Góðan daginn, get ég aðstoðað?"
Pelsakona (Pk): "Nei, ég er bara að bíða eftir manninum mínum, hann er að láta skipta um dekk hér á móti"
ak2: "já!! yndislegt, ég lét einmitt skipta um dekkin þarna líka, þeir eru svo flínkir þessir strákar"
pk: "Hver kaupir svona?" spurði hún og hélt uppi kertastjaka, sem leit út eins og limur.
ak1: "Þessir munir eru nú mjög vinsælir hjá unga fólkinu í dag!"
ak2: "Já, hún Jófríður er einmitt búin að selja ofsalega vel undanfarið.
pk: "Jesús minn, þetta er bara klúrt!"
Þegar hér var komið við sögu, var eitt listaverk búið að fanga athygli mína. Skemmtileg fígúra, leirskel í ramma. Þannig að ég gleymdi að hlusta á samræður kvennanna og datt inn í minn eigin hugarheim.
Skyndilega glymur í opnunarbjöllunum, þegar hurðin er rifin upp.
Eiginmaður pk (grófum rómi yfir alla búðina):"Ljúfa,komdu bíllinn er tilbúinn!"
Pk: "Já, viltu ekki koma inn og skoða aðeins"
Epk: "Nei!"
Að þeim orðum töluðum trítluðu þau saman yfir götuna, og hef ég hvorki heyrt né spurt af þeim síðan, frekar en Búkollu í fjallasal, eða nautasteikinni í Bónus.

Á þessum tímapunkti var ég kominn með tvær myndir í hendurnar. Og var að velta því fyrir mér hvort að ég ætti að velja "fígúruna" eða "konuna".
ak1:"Heyrðu vinur, get ég aðstoðað þig!"
LS: "Ha! Eitthvað virðist það nú hafa reynst ykkur erfitt hingað til en ég er að reyna að velja á milli þessara tveggja verka"
ak1: "Já, það er nú ekki ætlast til þess að viðskiptavinir séu að handleika verkin, við erum hér til þess!"
LS: "Já, ég geri mér grein fyrir því, en þið voruð uppteknar við að handrúnka einhverjum kertastjaka þarna!"
ak2, heyrði orðaskiptin og gekk til okkar: "Já, mér finnst þetta einmitt yndislegar fígúrur"
Ég rétti ak2, myndina af fígúrunni og sagði "ég er að hugsa um að fá þessa, rétti svo ak1 hina myndina og sagði: "Þú mátt ganga frá þessari, það pirrar mig eitthvað við hana!"
Það var ískuldi við búðarborðið svo að pastellitu ópaltöflurnar fölnuðu enn meira.
ak2: "Já, ég hef séð þig hérna áður, er það ekki?"
LS: "Jú mér finnst alltaf gaman að kíkja svona smá...
....þögn
... að vísu mætti vera betri rótering á verkum hjá ykkur. Það ætti að vera öllum ljóst að sum verk hér eru beinlínis slæm."
ak2: "Já hann er nú ótrúlega misjafn smekkurinn!"
LS: "Ég veit það en hlutur eins og þessi kertastjaki þarna, er bara hneyksli. Þetta er eins og sex ára krakki í trölladeigstilraunum"
ak2: Jófríður mín, viltu ná í sellófan á bakvið.
Í sekúndubrotabrot, mættust augu okkar og hún sá að ég vissi uppá hár hver brenndi þennan stjaka. Hún hvarf orðlaust á bak við hurðina og ég sagði brosandi: "Algjör óþarfi að pakka þessu inn, ég er að kaupa þetta fyrir sjálfan mig"


Fékk 10% staðgreiðsluafslátt og hélt svo heim á leið.

En finnst ykkur myndin ekki smart? Ég er að hugsa um að kalla hana Ljúfu!

Góðar stundir
Langi Sleði

Saturday, November 26, 2005

...Póstmódernismi flíspeysu

Langi sleði fór um daginn að skoða listaverk. Hlutur sem mér finnst nauðsynlegt að gera svona við og við.

En fyrst, smá forsaga.
Á undanförnum árum hefur flíspeysan öðlast þjóðfélagslegt gildi. Hófst með hólkvíðum peysur með óeðlilega ljótu mynstri, sem voru reyrðar saman í mittið. Fyrst og fremst notaðar í skíðalöndum íslendinga, og svo endalaust upp um fjöll og firnindi af einhverjum útivistarnörðum, sem vissu ekkert skemmtilegra en að láta leita að sér.
Smám saman varð hún táknmynd heilbrigðs lífstíls.
Algott.
Svo fóru fyrirtækin að gefa öllum starfsmönnum flíspeysur í jólagjöf og þá fóru skrítnir hlutir að gerast.
Smám saman sáust allt að 300 kílóa manneskjur í allt of litlum flíspeysum. Það minnir mig alltaf á teipaðan hamstur, einhverra hluta vegna. Upp frá því varð flíspeysan merkingarleysa, svona eins og póstmódernisminn.
Í staðinn öðlaðist flíspeysan þann vafasama heiður að verða flík til notkunar við öll tækifæri. Og sumt fólk sá maður aldrei nema í ljótri og skítugri flíspeysu, svo mánuðum skipti.
Þá vöknuðu fyrirtækin og reyndu að poppa flíkina upp með því að breyta henni í tískuvöru.
Við þekkjum þá sögu öll.
Næsta skrefið voru menningarvitarnir sem stigu fram og lýstu opinberlega vanþóknun á flíspeysunni og þeirri merkingarleysu sem hún væri orðin, en bentu jafnframt á að þeir hefðu sjálfir aldrei sagt skilið við lopapeysuna eða gæruskinnsstakkinn.
Og urðu með því yfirlýstir andstæðingar flíspeysunnar, en um leið fórnarlömb tískunnar á sama hátt.
Hræsni.
Þetta er forsagan við það af hverju það er ekki rétt að fara að versla sér listaverk í flíspeysu.
En sú saga kemur næst.
Só stei tjúnd for leitör

Góðar stundir
Langi Sleði

Tuesday, November 22, 2005

...Bónus

...ég fór í Bónus í fyrsta sinn á ævinni nú á laugardaginn, og það er allt eins líklegt að það verði einhver bið á því að ég fari aftur!
Hér kemur sagan af því.
Ég var í ullarfrakka og í jakkafötum með bindi, og það fyrsta sem ég tek eftir er óeðlilega hátt hlutfall fólks í flíspeysum. Einnig tek ég eftir því að meirihluti viðskiptavinanna eru konur. Því laust niður í huga minn, já ef einhver kona myndi nú stofna matvörubúð, með kvenkyns starfsmönnum, eingöngu. Þá yrði það án efa vinsælasta búðin í borginni.
En það er allt önnur hugmynd.
Ég stend fyrir utan Bónus í Holtagörðum, í gegnum mig streyma konur, með óeðlilega stóra innkaupavagna, og mikið grimmt augnarráð.
Ég læt það hins vegar mér í léttu rúmi liggja tek mér handkörfu og held af stað inn í óvissuna.
Mér líður eins og ég hafi verið minnkaður um 3 númer. Allar pakkningar eru a.m.k. þrisvar sinnum stærri en ég á að venjast, og eftir að ég er búinn að troða einum Homeblestpakka í handkörfuna mína, sný ég við og næ mér í vörubíl, svona eins og hinar konurnar eru á. Það er vonlaust að versla með smásölukörfu í Bónus.
Í fyrsta ganginum er ég að skoða fimm þúsund lítra pakkningu af appelsínuþykkni, þegar kona með 3 börn dúndrar vagninum sínum aftan á hælana mína.
Ég æpi af sársauka, hver í fjáranum þarf svona mikið á 5000 lítrum af appelsínuþykkni að halda.
Úff, ókei! Má ekki missa einbeitingu, nú vantar mig bara tómata og einhverja góða steik. Mig vantar alltaf tómata, tómatar eru snilldarleg matvara. Ég tók síðustu almennilegu steikina, nauta tenderloin og þá hljómaði í kallkerfinu:
"Maður sem er ekki í flíspeysu tók síðustu nautasteikina"
Skyndilega hleypur að mér kona í allt of stórri flíspeysu, sveiflar óeðlilega stórum negulnöglum og dúndrar þeim í andlitið á mér, af þvílíkum krafti að ég skutlast frá jörðu og lendi í innkaupakörfunni minni. Við lendinguna, missi ég meðvitund.
Ég vakna klukkutíma síðar, alblóðugur, í mjólkurkælinum með hálsríg eftir Homeblestpakkann. Einhver hafði rúllað mér inn í mjólkurkælinn, svona til þess að minnka blæðinguna, en nautasteikin var horfin. Ég borgaði vörurnar og hélt niður á slysó.
6 spor og þið sem haldið að ég sé að bulla. Þá er mynd af auganu mínu hér.

Góðar stundir
Langi Sleði

Monday, November 21, 2005

...Casanova

Ísland er lítið, maður þarf ekki að velkjast í vafa um það. Hins vegar er það ekki endilega ávísun á að íbúarnir þjáist af opinberlega af smáborgaraskap. Það er allt annað. Eða það hélt ég a.m.k. þangað til að ég las utan á mjólkurpottinn við kvöldmatarborðið.

Utan á mjólkurpottunum, er verið að gefa leiðbeiningar fyrir Casanova þessa skers.
Auðvitað þekki ég til fólk sem hefur hefur nýtt sér svona spakmæli, enda eru konur dyntóttar með afbrigðum, þó að í fæstum tilvikum sé framhjáhaldið þess virði. En að MS taki sig saman og setji boðskap utan á mjólkurfernu, sem er miðlað beint til unglinga þessa lands "Hyggin mús á sér meira en eina holu". Það er náttúrulega óheppilegt.
Hvítu sletturnar utaná mjólkurfernunum, eru öðruvísi í dag. Líklega á ég eftir að bíta úr nálinni með að hafa birt þennan pistil.

Góðar stundir
Langi Sleði

Thursday, November 17, 2005

...deit?

Það er statt og stöðugt unnið að því að hræða Langa Sleða.
Hann fór á öldurhús Sódómu fyrir skömmu og eftirfarandi er lýsing á því sem þar gerðist.

Hugguleg stúlka situr við barborðið og horfir í gaupnir sér.

Langi Sleði vindur sér að henni og segir: "Af hverju í ósköpunum situr þú hér einsömul með sorgarsvip?"
Hún: "Ha!, ég?"
Langi Sleði: "Já, er ekki kominn tími á að brosa framan í heiminn, þú getur æft þig á mér!"
Hún brosti, enda er Langi Sleði ómótstæðilegur. Svotil.
Hún: "Já, ég er alveg til í það! Nennirðu að bíða aðeins, ég þarf að skreppa á púðurherbergið"
Langi Sleði: "Já ég skal horfa stíft ofaní glasið þitt á meðan, svo það fái ekki höfnunartilfinningu!"

Hún hló og sveif með glöðu yfirbragði í hinn enda salsins.
Skömmu síðar kom hún tilbaka og var greinilega búin að hressa upp á varalitinn... og ég veit ekki hvaða töfra hún framkvæmdi... en hún geislaði.

Hún: "Jæja, þá er ég loksins komin!"
Langi Sleði: "Já vertu velkomin gaman að sjá þig, má ég ekki bjóða þér drykk?"
Hún: "uhhm, jú takk! Kannski bara Breezer eða eitthvað!"

Langi Sleði fór sína fyrstu ferð á barinn þetta kvöld. Einn stóran bjór og Breezer að eigin vali, sagði hann við barþjóninn. Langi Sleði er nefnilega ekki alveg það metró að hann nenni að drekka Martini með beri, eða Campari. Einnig er bjórbumba,
eitthvað sem er ekki að angra Langa Sleða.

Langi Sleði rétti henni drykkinn og sagði: "Eigum við ekki að setjast þarna í hornið, það er svo miklu þægilegra að spjalla!"
Hún: "Jú, ægilega ertu sætur í þér!"
Langi Sleði: "Ég veit, venjulega er það nú misnotað bara til þess að fá mig til að iðnaðarmannast!"
Hún, brosandi út að eyrum: "Þú lítur ekkert út eins og iðnaðarmaður!"
Langi Sleði: "Nei, takk býst ég við! Og þú lítur ekkert út eins og Ingibjörg Sólrún!"
Hún horfði undrandi á mig og sprakk svo úr hlátri.
Hún: "Takk, fyrir það... ég er svo heppin!"
... og svo hlógum við okkur niður í sætin út í horni.

Kvöldið sveif áfram í skjóli skemmtilegra umræðna, hlátraskalla og barferða.
Eftir 3 breezera byrjaði hinsvegar hryllingurinn.
Við vorum að gera topp tíu lista um frábærar uppfinningar á servíettu, þegar hún segir skyndilega og út úr heiðskírum himni: "Ég var nú bara svo down áðan af því ég hitti aldrei neinn eins og þig á djamminu!"
Ég brosti til hennar og svaraði: "Nei, ég hef líka bara einu sinni djammað áður!"
Næsti klukkutími, var yfirheyrsla.
Hvað átti ég mörg börn? Átti ég íbúð? Hvað margra herbergja? Átti ég bíl? Var ég skuldugur? Hvar vann ég og hvað hafði ég í laun? Hvar verslaði ég? Hva.. hva... hvaÐ?

Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir mínar að beina samræðunum í annan farveg, eins og t.d. að sturtu sem bestu uppfinningu allra tíma, þá varð ég að sætta mig við umbreytinguna frá því að vera bara skemmtilegur strákur, yfir í það að vera bráð.

Hún var orðin pósessív á það þegar ég heilsaði fólki sem ég þekkti. "Bíddu, erum við ekki að tala saman? Ég ætla ekkert að hanga hér á meðan þú ert að tala við einhverjar druslur!"
Ég svaraði: "Þessi kona er sko engin drusla, enda hefur mér reynst gersamlega ómögulegt að koma henni í rúmið!"
Henni var ekki skemmt, og í stað þess að slaka aðeins á hækkaði hún hitastigið.

Hún: "Svo vil ég fara að eignast börn! Ég er ekkert að yngjast og egg deyr mánaðarlega hjá mér... Ég ætla ekki að standa í neinni vitleysu!

Þegar hér var komið sögu, var ég farinn að eyða meiri tíma á klósettinu eða á barnum en hjá þessu sækóbitssji.

Offisíelt, vorum við samt enn að tala saman. Þetta var samt orðið skerí! Ég rölti mér inn á salernið og var að hugsa um það hvernig ég ætti að losa mig undan þessari áþján. Hvaða afsökun ætti ég að nota til að komast heim. Ég er rétt að renna niður buxnaklaufinni þegar sækóbittsjið, kemur með þvílíkum látum að það var eins og flóð sé að bresta á í Kárahnjúkum.

Hún: "Fariði frá addna, ég er alveg að míga í mig!"

Þegar hún hafði árangurslaust barið á allar dyr, horfði hún á mig og sagði: "Ég get þetta vel, hef oft gert þetta!"
Þvínæst vippaði hún sokkabuxunum og nærbuxunum á hnén og á einhvern óskiljanlegan hátt vafði hún sér utan um pissuskálina og gerði þarfir sínar.

Ég gapti af undrun.
"Þetta er ekkert mál, ég var nefnilega í ballett einu sinni", sagði hún í sömu mund og pissuskálin rifnaði af veggnum og hún hrundi á gólfið með pissuskálina í fanginu eins og mæður myndu halda á nýbura. Vatn sprautaðist út um allt og hún lá þarna blótandi og ragnandi. Ég hjálpaði henni á fætur, rétt nógu tímanlega til þess að dyraverðir rifu hana af mér, snéru hana niður og settu hnéð í bakið á henni.
"Þetta er nú óþarfi" sagði ég og reyndi í rólegheitum að stöðva vitleysuna. Þeir fóru með hana í bakherbergi til þess að taka af henni skýrslu, en hún var orðin gjörsamlega brjáluð. Ég var þarna hjá henni, þartil lögreglan mætti og í samstilltu átaki dyravarða, lögreglu og mín náðist nokkurs konar skýrsla.

Hún: "Látiði mig bara vera, þetta er ekkert mál! Kærastinn minn borgar þetta bara"... svo horfði hún á mig.
Ég horfði á hana til baka og sagði eins og var, að við værum sko ekki kærustupar.
Lögreglumennirnir, sögðu að það væri nauðsynlegt að hún kæmi á stöðina til að gefa formlega skýrslu, og þannig háttar eitthvað dót.
Ég var bara feginn þegar þeir vildu ekki fá mig með.
Ég var allur að þorna eftir gusuganginn inn á klósettinu og ákvað að fá mér einn whiský í rólegheitum áður en ég færi heim.
Ég hitti gamla félaga úr grunnskóla og eitthvað ílengdist ég þarna á staðnum og áður en ég veit af er sækóbittsjið, að öskra á dyravörðinn sem snéri hana niður, því hann vill ekki hleypa henni inn.
Hálftíma síðar ákveð ég að það sé kominn tími á heimferð.
Fyrir utan dyrnar, standa dyravörðurinn og sækóbittsjið í faðmlögum, og ég smokraði mér framhjá þeim svo að lítið bæri á, út í nóttina.

Góðar stundir
Langi Sleði

Tuesday, November 15, 2005

...útvarpið

er merkilegur miðill. Sérstaklega þar sem maður fær að heyra í fólki af ýmsu tagi.

Langa Sleða duttu í hug nokkrir flokkar.
1. Fólk sem er í miðri þjóðfélagsumræðu, s.s. stjórnmálamenn, forstjórar, bankamenn. Í þessum hópi eru eiginlega engar konur.
2. Fólk sem er sífellt, árangurslaust að koma sér úr vandræðum, og í þjóðfélagsumræðuna. Mér dettur strax í hug Mannes Hólkseinn og ... svo ... mýgrútur af konum.

Þetta fólk vinn ég í að ignora. Um leið og það heyrist í því, lokast á mér hlustirnar.

3. Stundum eru viðtöl við fólk sem kunna ekki að halda sig til hlés. Eins og konan sem þjáðist af sveppasýkingunni núna um helgina. Algerlega galin. Maðurinn hennar var dobblaður í viðtalið og hann var í alvörunni spurður, "hvernig er að elska svona konu?"
hann svaraði, (amk í mínu útvarpi): "Það er best á dimmum heitum og rökum stað."...
Á svona stundu, grípur mann óstjórnleg þrá að henda útvarpinu út um gluggann. Hugsanlega meira spennandi vinkill á þættina "allt í drasli".
4. Akureyrar-risaeðlan, sem spilar bara sínar eigin plötur og hringir í vini sína og vandamenn, eins og viðgekkst í menntaskólaútvarpinu í gamla daga. Nema það gerist aldrei neitt hjá þeim. Aldrei. Þess vegna finnst honum gott að hringja í fólk í útlöndum og láta það lesa upp úr blöðunum.
5. Fólkið sem les upp afmælisdaga fræga fólksins. Hverjum er ekki sama um það að Burgess Meredith hefði orðið 97 ára í dag? Ég meina það eru takmörk fyrir því hvað má nota eina heimasíðu í mörg ár.
6. Alkahólistar, óvirkir eða virkir. Þeir tala bara, skiptir engu máli hvað þeir segja, enda trúa þeir öllu blaðrinu sínu. Verst hvað sumir eru góðar manneskjur.

Jæja, það er kominn háttatími..
nóg af stefnulausu blaðri

Góðar stundir
Langi Sleði

Sunday, November 13, 2005

...vellllaun

Smart, sexí, halló, kúl og ó/fyndin/n. Svona hluti af þeim kommentum sem hrukku upp úr mér fyrir framan sjónvarpið.
Hafði að vísu ekki úthald nema í tæplega helminginn, þar sem skinnið var alveg búið í lófunum. Og, nei... ekki af því að ég hafi verið að gamna mér með fræga fólkinu, heldur ég var að klappa fyrir öllu þessu listafólki.
Ég hreinlega elska framsóknarflokkinn í Kópavogi.

góðar stundir
Langi Sleði

Saturday, November 12, 2005

...hugleiðing

Það er aðeins dagamunur, vegna náttana sem eru inn á milli.

Góðar stundir
Langi Sleði

Thursday, November 10, 2005

...of mikið of lítið

bloggari 1 hittir bloggara 2 í eigin persónu. Umhverfið allt mjög ógnvekjandi. Það er byrjað að dimma og vikan hefur tekið sinn toll.
Bloggari 1: Jæja
Bloggari 2: Já
Svo hlaupa þeir í sitthvora áttina í dauðans ofboði.



Eitthvað var verið agnúast út í mig að ég væri að verða jafn leiðinlegur og sjálfhverfur og konurnar sem lesa mig. Ég má ekki láta það verða. Jahérna, þarna losaði ég mig við lesandahópinn.
Líklega bara afbrýðisemi. Fokk hvað þær eiga ekki eftir að kommenta á þetta, hugsa að þær móðgist allar með tölu.
Þið eruð ekkert leiðinlegar dúllurnar mínar, þið eruð yndælarar!
Já.. Ég gæti ekki án ykkar verið.

Of mikið og of lítið, er dásamleg saga, mannlegs eðlis. Í því tilefni höfum við búið til málshætti eins og "grasið er alltaf grænna hinumegin" og það kjaftæði allt.

Þau aðeins "of mikið og of lítið", sem hafa safnast saman hjá mér undanfarna daga.

maður 1.
Of lítið andlit, of mikið yfirvaraskegg... eiginlega ekkert andlit

maður 2.
Of lítill háls, of stór kryppa... eiginlega enginn háls

kona 1.
Of lítið hár, of stór rass... eiginlega var hún bara rass

kona 2.
of lítil kona, of mikill kall... eða ég veit það ekki ... hún var agaleg.

Eðli mannsins, að vera óánægður með allt mögulegt... Just f**** you up.

Næstu dagar fara í það að sjá hina bjartari hlið á tilverunni. Það verður spennandi og ég mun láta ykkur vita hvernig gengur.

sem leiðir hugann að öðru, er ég að skrifa of mikið, en tala of lítið?
Ætla að hitta Sápuóperu á morgun, það verður spennandi!

góðar stundir
Langi Sleði

Sunday, November 06, 2005

...að fylla í gamlan brunn

er svona aðgerð sem fólki þykir erfið.

Okkur þykir mun hentugra að loka hurðum á viðkomandi, því það er auðveldara að opna þær aftur.
Kannski er það líka einhver óvær þráhyggja, eða vær hugsun, að vita af einhverju hinumegin við þilið.
Hugsanlega einhver kokteill af þessu tvennu.

Að fylla í brunn, er miklu alvarlegri aðgerð. Það að hlaða skóflu eftir skóflu, raða saman efni, ofan á uppsprettu minninga. Að nærast aldrei framar á þessum gamla brunni.
Þessum brunni sem tæmdist, kannski allt of fljótt, kannski allt of seint, kannski allt of illa.
Vandræðin felast fyrst og fremst í því að einhverra hluta vegna, er manni sjálfum gersamlega ómögulegt að sjá til botns í þessum gömlu brunnum.
Ef maður á brunn sem er kviksyndi, hvað þá?

Ég býð engar skýringar á því. Ég býð engar skýringar punktur.

En eins og við segjum, það er ekki loku fyrir það skotið að ég kaupi mér skóflu í vikunni til að hefja brynningu.

Eníveis... its cocktail hour!

Góðar stundir
Langi Sleði

Tuesday, November 01, 2005

...á mörkunum

að maður eigi að segja frá þessu. En samt þá er tími til að fagna, þessum áfangasigri á lífsleiðinni.

Loksins... Þá er ég búinn að skoða allt klám á netinu og ég veit ekkert hvað ég á að gera næst.
Nei, ok!

Við það, að vafra um netið í skjóli piparsveindóms, hef ég rekist á ógrynni af gagnlausum fróðleik. Þar sem ég er sérstaklega fróðleiksfús, hefur óhuggulega mikið safnast í sarpinn.
Ég gerði mér ekki almennilega grein fyrir þessu fyrr en áðan, þar sem ég er farinn að kommenta hjá ýmsum aðilum í bjánalegum besservisserstíl.
Það var svo illa fyrir mér komið að ég kveikti ekki á perunni einu sinni þegar pirruð stúlka sagði: "hefurðu í alvörunni aldrei verið barinn?".
og ég svaraði: "Nei, en ég las það einu sinni að líkurnar á því að verða barinn væru minni en að lenda undir kú!"
Kannski er ég að verða svona skrítinn sérvitringur, ég verð að hindra það einhvernveginn.
Nú verð ég að finna mér nýja dægradvöl.
Núna á eftir ætla ég til dæmis að plokka fjaðrir úr sófasettinu mínu, stinga þeim í peysuna og leika engil.

Góðar stundir
Langi Sleði

...haust

...ég hóstaði svo hátt að laufblöðin féllu í stafi. Sýndist þetta vera ljóð eftir Pushkin, eða uppskrift eftir Ramsay. Var ekki viss.
En hvað um það.
Ók í vindverkjunum á Kjalarnesi og í miðri hlaupanótu (þáttur á rás 1, skylduhlustun fyrir þá sem þurfa að víkka sinn tónlistarlega smekk).
Þar sem vindverkirnir voru um 40 m/s þá keyrði ég varlega, og Golfinn fyrir aftan mig, fór líka varlega. Allt í einu sá ég Golfinn, snúast og taka stefnuna niður hlíðina, í átt að betra beitilandi.

Ég stöðvaði bílinn og snéri við.
Ég missti mig og til hennar gekk, um axlir hennar tók það á hana fékk, enda var hún í sjokki.
Þetta var ca 18 ára stelpa að átta sig á því að hún var kominn útaf veginum.
Talandi við pabba með grátstafinn í kverkunum.

Hafði það ekki í mér að gera grín að þessu.

Gekk úr skugga um að hún væri í lagi, og bauð henni far.

En hélt svo áfram heim.

Ég bara get ekki gert grín að þessu.

Góðar stundir
Langi Sleði

free web hit counter