Friday, December 29, 2006

...þá hló Langi Sleði

...en það var ekki af illkvittni, heldur skemmtanagildi hugans.
Örsagan hefst á Ölstofunni þegar Langi Sleði hitti litla bróður, ferðafljóðs. Þessi drengur er að stíga sín fyrstu stóru skref á skáldabrautinni þótt hann hafi lengi ort.
Þegar Langi Sleði innti hann eftir því hvernig gengi að yrkja, ... þá brást hann ókvæða við.

Góðar stundir
Langi Sleði

Thursday, December 21, 2006

...og svo heita þetta fordómar!

...fór í Bónus í kvöld. Ástandið var venjulegt. Fólk að slást um lélegt grænmeti. Að vísu var fólk búið að troða að meðaltali meiru í kerrurnar, ekkert annað. Ég heyrði fólk rífast um það að sleppa þvottaduftinu og kaupa í staðinn stóra dós af sælgætinu í marglitu bréfunum.
Þroskaheft stelpa bjó til neftóbak úr tveimur pokum af íslensku snakki frá Þykkvabæ, opnaði "óvart" stóran poka af skittles útum allt gólf... og hljóp þá af vettvangi... í einu vetfangi.
Toppurinn kom samt þegar Langi Sleði fékk hláturskast... eins og sumir þekkja.
Í gosdrykkjadeildinni, var svohljóðandi tilboð.

Kippa af kók og poki af Sambó lakkrískonfekti fylgir með.
Raunhæfur sparnaður.

...og svo segir fólk að þetta séu fordómar!
Þegar raunhæfi sparnaðurinn er kominn niður í það að eignast poka af lakkrískonfekti, þá er það ákkúrat tíminn til að endurskoða lífið.

Góðar stundir
Langi Sleði

Sunday, December 17, 2006

...saga kærustunnar

... Langi Sleði og fröken voru lukkuleg og hamingjusöm eins og sum kærustupör eru. Hamingjan hafði jafnvel borist út í það óeðlilega hegðun að við vorum búin að kaupa okkur samstæðar rúllukragapeysur... af því það var of hallærislegt að eiga samstæða krepgalla.
Eitthvað hafði hún verið afundin og hvumpin undanfarna daga og vegna þess var ég alls ekkert yfir mig hrifinn þegar hún bauð mér út að borða (má hugsanlega rekja til vannæringar sem er henni sjálfri að kenna).
Ég vissi alveg hvert þetta myndi leiða.
Það átti að dömpa mér á opinberum vettvangi, svo að ég myndi ekki verða mér til skammar.
...hrmpf...
Ég undirbjó mig vandlega, því hún var ekkert að fara!
Las galdrabækur um þá eiginleika sem ég vildi ná fram í henni og það snérist allt voða mikið um óskir, vonir og þrár.
Fallegar línur, rauða rúllukragapeysan, dugleg í eldhúsinu og svoleiðis hlutir voru mér greinilega efst í huga.
Ég hafði magnaðan seiðinn með mér á veitingastaðinn.
Eftir að hún kláraði rulluna um það hvað ég væri nú yndislegur og allt of góður maður... allt of góður fyrir hana, bað ég hana vinsamlegast bara um að hraðspóla áfram því að þessa ræðu hafði ég heyrt alltof oft.
Hún horfði mæðulega á mig og afsakaði sig til að fara á salernið. Ég notaði tækifærið og laumaði seiðnum í rauðvínsglasið hennar. Þegar hún kom til baka byrjaði hún að afsaka sig á milli þess sem hún sötraði vínið (gerir það alltaf þegar hún verður óstyrk þessi elska) ... actually heyrði ég ekki hvað hún var að tala um af því ég var of mikið að fylgjast með þeim dramatísku útlitsbreytingum sem áttu sér stað fyrir framan mig.
Þegar breytingarnar voru fullkomnaðar, var ég svona hálfvegis farinn að sjá eftir öllu saman, leiksoppur örlaganna.
Hún var orðin að kaffikönnu...
Allavegana... ég gat ekki skilið hana eftir og þetta er líklega fyrsta hjónamyndin okkar... ætli þær breytist nokkuð mikið úr þessu? Við erum í samstæðu rúllukragapeysunum.
En hún má eiga það... þetta eru flottar línur

Ég vil líka minna á það að tíminn til að skila inn tillögum að örnefnum fer að minnka.

Góðar stundir
Langi Sleði

Monday, December 11, 2006

...kvein

...á laugardaginn eldaði eiginkona Langa Sleða, dýrindis nautalundir í bernaise sósu, með bökuðum kartöflum, gufusoðnum sykurbaunum og gulrótum í hvítlaukslegi.
Á sunnudaginn, fór hún svo eldsnemma út í kuldann, náði í bakkelsi í morgunkaffið og eldaði svo andabringur í villibráða/appelsínusósu.
Í kvöld hinsvegar var salatsamloka, egg og bollasúpa á boðstólum.
Nú leita ég logandi ljósi að fordæmisgefandi dómum um hegðun eiginkvenna í eldhúsi, þar sem ég held því fram að það sé ekki sanngjarnt að láta magann upplifa svona miklar sveiflur í fæðuvali.
Einu heimildirnar sem ég hef fundið eru geymdar í Árnasafni, á skinnbandi... Eldamennska í íslenskum torfbæjum.
Ég bind miklar vonir við að þetta rit leysi vandamálin mín og komi til með að leiða konuna á rétta braut.

Góðar stundir
Langi Sleði

Thursday, December 07, 2006

...byrjunin

...hér kemur mynd af veggnum eins og hann lítur út í dag.
Ég þakka fyrir nöfnin og setti inn nokkur sjálfur enn er hægt að koma með tillögur og hvet ég fólk til að halda nöfnum í styttri kantinum þar sem ég verð að skrifa frekar stórt.
Góðar stundir
Langi Sleði

Tuesday, December 05, 2006

...upphafið

...það þekkja líklega flestir að þegar málun fer fram eru alls kyns leiðindavinna því meðfylgjandi.
Þegar Langi Sleði hreiðraði um sig í íbúðinni í hlíðunum, þá var spennan og fögnuðurinn slíkur að stundum virtist það koma niður á vinnubrögðunum.
Í forstofunni var gömul plastmálning tekin að flagna en hún náðist aldrei öll af. Stundum myndaðist því brún á milli málningarlaga, sem Langi Sleði nennti ekki að slípa niður.
Nú hef ég ákveðið að teikna upp þessa brún og eins og þið sjáið á myndinni, þá er þetta skemmtilegt landslag.
Ég ákveðið að gefa lesendum kost á því að nefna landsvæði. Hvort sem það er flói, fjörður, fjall, strönd eða hvað sem ykkur dettur í hug. Eina skilyrðið er að þetta særi ekki blygðunarkennd mína.
Hér er svo mynd af landinu með staðsetningarleiðbeiningum sem þið sendið mér um leið og þið óskið eftir hlutdeild í þessu verki.
Dæmi: Tanginn í J3 á að heita "ónefnt"
Góðar stundir
Langi Sleði

...gjörningur

...verður framinn á heimili Langa Sleða í kvöld.
Myndbirtingar verða í kjölfar þess.
Mig grunar að loknum gjörningi þá muni ég þjást af kjánahrolli, þannig að ég er búinn að birgja mig upp af Strepsils og stórum teppum!
Þess ber að geta að lesendum verður gefinn kostur á að taka þátt.
Hvernig það fer fram kemur í ljós í kvöld.

Góðar stundir
Langi Sleði

Monday, December 04, 2006

...fánýti hluta

...Langi Sleði hefur fyrir löngu síðan ákveðið að tjá sig ekki um pólitík á þessum miðli.
Þó virðist það vera að margir stimpli Langa Sleða sem harðan sjálfstæðismann og það hreinlega fer í taugarnar mínar.
Pólitík ætti að snúast um það að virða skoðanir annarra og því miður sé ég það hvergi. Sé ekki hvernig hægt er að ata aðra út í skít án þess að skítna mest sjálfur.
Hins vegar og að öðru... miklu skemmtilegra.
Sérfræðingsgen Langa Sleða er náttúrulega sterkast í því að fylgjast með fólki og það var ekki leiðinlegt á starfsmannaskemmtuninni.
Alls ekki.
Ein undurfögur snót er nýbyrjuð á vinnustaðnum og ákvað að sýna lit með því að mæta í jólaglöggið. Hins vegar virtust nær allir karlmenn hafa þá staðreynd að engu að hún væri í raun á föstu. Þetta leit út eins og að hænuunga hafi verið sleppt inn á Goldfinger og sá fyrsti sem næði honum, fengi ókeypis einkadans. Ég átti ekki orð.
Langi Sleði fékk náttúrulega allt öðru vísi athygli. Feita konan gerði sér óþægilega dælt og kjaftakona staðarins, mannaði sig loks upp í það að spyrja hvort Langi Sleði væri nú ekki bara ábyggilega hommi.
Gleði.

Góðar stundir
Langi Sleði

free web hit counter