Saturday, October 23, 2004

Viltu nammi væna?

Já, gærdagurinn var ömurlegur og ég ætlaði nú aldeilis að verja deginum í dag í eitthvað uppbyggjandi. Byrjaði daginn á lýsi og vítamíni, og smellti mér svo í göngutúr. Labbaði upp í Öskjuhlíð og ég sver það, ég held að fólk búi þarna. Það eru alltaf einhverjir þarna uppfrá. Ég rölti framhjá pörum á ýmsum aldri sem litu á mig ásakandi augnaráði, eins og að ég hafi tekið kærustuna mína og grafið hana þarna í frosinni hlíðinni einhversstaðar. (eins og að ég hefði nennt að grafa!!!!). Ég reyndi að setja upp góðlátlegt bros og segja góðan daginn.. en fékk bara eitthvað mumbl til baka. Ég tók stefnuna á bakaríið og þúsundkalli síðar hélt ég heimáleið. Greip Fréttablaðið niðri og undirbjó morgunmat fyrir kónga. Settist svo með allar græjur við borðstofuborðið og byrjaði að fletta blaðinu. Grein helgarinnar, er um kennara sem er hóra til að drýgja tekjurnar. Hvað er hægt að leggjast lágt í fréttaflutningi. Hún tjáði fréttamanni það að Öskjuhlíðin væri svo algengur ríðistaður perra og níðinga að það væri nú bara plássleysi og biðröð. Hóran stimplaði mína fínu morgungöngu, sem perralæti í mér og fólkið sem ég hitti, voru bara aðalfundur grasrótarhreyfingar framhjáhalds-sambanda sem finnast gott að gera það upp við grenitré eða einmana perrar sem eru að svipast um eftir kanínum í besta falli.
Þarna var þessi fíni göngutúr ataður aur og nákvæmlega ekkert skemmtilegt við að vera perri. restin af deginum fór í það að þrífa og í það að pæla hvert á ég að ganga næst.. óhultur..
kveðja
Langi Sleði

Sunday, October 17, 2004

Hárblásarakvintettinn

Það er eins og ævintýrin hætti aldrei að gerast í þessum sundferðum mínum. Fyrir nokkru síðan sá ég gamlan mann, sem var hreyfihamlaður af eigin spiki. Hann tók sér stöðu beint fyrir framan mig í sturtunni, reyndar var hann líka töluvert til beggja hliðanna, frá mér séð... en það er önnur ella. Hann var eitthvað að baksa við að fara í sundbuxurnar, jahh... ef buxur skyldi kalla. Þegar maður er farinn að versla buxur í seglagerðinni Ægi. Þá heitir þetta nú bara rétt að kalla hlutina réttum nöfnum eins og; "tjald", hugsaði ég með mér og glotti. Eftir mikið erfiði komst hann loks í báðar skálmarnar og dró skýluna vel upp á maga yfir og inn í fellingar. Utan það að eldspýtnahrúgan ég, sór þess dýran eið að verða aldrei svona feitur, enn einu sinni, þá bjóst ég ekkert frekar við að sjá eða heyra meira frá þessum manni. Eftir góðan pott og gufu, hélt ég svo til búningsklefans á ný. Steig á vigtina, 72 kíló. Frú Bóthildur, ber með þér byrðina. Fyrir aftan mig fór hárblásarinn í gang og ég sá fyrrnefndann fitulýjus beina þessum stóra og fína hárblásara beint upp í rassinn á sér. Mig rak í rogastans. Hvað í andsk. er þetta... Unaðsbros færðist yfir andlit gamla mannsins, svo lyfti hann pungnum og bumbunni. Allt var þetta ofsalega gott. Hvílíkur viðbjóður. Svo er fólk að blása þessu í andlitið á sér og hárið, og skrýtna lyktin... Já skrýtna lyktin fékk skyndilega lögheimili. Oj bara. Seinna sá ég annan mann nota hárblásarann í sama tilgangi, og ganga þessir menn nú undir nafninu: "Hárblásarakvintettinn".

Skýringin á þeirri nafngift er að sjálfsögðu hinn gamalreyndi Blásarakvintett, sem í mínum huga eru 5 gamlir feitir kallar með hávær blásarahljóðfæri. Þetta eru ákkurat týpurnar sem nota hárblásarann í Laugardalslauginni.

góðar stundir

Langi Sleði

Sunday, October 10, 2004

Hjónalíf

Hjónabrestir safnast skyndilega í kringum mig eins og myrkrið, hvergi og allstaðar. Í krókum og kjökrum, brotnum brosum, breysku brölti, byrgir ekki brunninn fyrr en... En svona er nú mannskeppnan, gerð til að falla í freistingar, eins og haustlaufin, sem þekja bílrúðuna að morgni.

Ég bónaði bílinn á föstudaginn, enda hefur ringt látlaust síðan. Það er náttúrulögmál númer, tvöþúsundþrjúhundruðfjörtíuogfimmbjé og hljóðar svo:
Rigna skal látlaust í hvert sinn sem Langi Sleði bónar bílinn sinn, í að minnsta kosti fjóra sólarhringa. Æskilegt er að það rigni á fleiri bíla í leiðinni, en þó alls ekki nauðsynlegt.

Hugrekki til hamingju, eru orð dagsins,
ykkar
Langi Sleði.


Thursday, October 07, 2004

Landsbyggðin og iðnaðarmennirnir

Skemmtilegir þessir iðnaðarmenn utan af landi.
Búinn að hafa 2 iðnaðarmenn í vinnu núna undanfarið. Þeir eru bræður og líta báðir út eins og Bjössi bolla, í bláum vinnugalla (kallaðir Vambi og Bumbi).
Þeir hafa innbyggt verkvit, því ef þeir þurfa að hengja snaga upp á klósett, þá eru þeir ekki að setja eina litla skrúfu í snagann. Nei heldur setja þeir upp 2 bolta sem halda 5o0 kílóum hvor. Hver notar ekki 1000 kílóa snaga inn á salerni, ef hann er fyrir hendi... ég bara spyr.
Í dag voru þeir að vinna hinum megin við vegginn og voru að setja upp hillur. Það var náttúrulega allt saman boltað til dauða og verður hægt nota þessa hillu sem bílastæði í framtíðinni. Eitthvað misreiknuðu greyin sig í lengdinni á múrboltunum því þeir enduðu á því að bora í gegnum vegginn, og brutu með því flís í baðherberginu.
Þá sagði Bumbi: "Helvítis,.. mar..., ég boraði í gegnum vegginn, og ég sem var bara rétt byrjaður að bora."
Vambi: "Djöfullinn, þessir veggir eru nú bara ekki neitt.. neitt. Svona álíka þykkir og brauðsneið".
Vambi sýndi með fingrunum hvað venjuleg brauðsneið var þykk og á hans heimili er hún svipuð að breidd og eins líters mjólkurferna... sem mér þótti mjög fyndið.
tjahh.. Þetta var lína dagsins..
ykkar
Langi Sleði

Tuesday, October 05, 2004

Andverpur

...í bljúgri bæn er það eina sem stígur hér. Met slegin í hvert sinn sem síðan er endurkeyrð, andvarp. Enginn skrifaði.
andvarp.
Andavarp.
Eru svanirnir ekki komnir suður? eða eru þeir enn grýttir á tjörninni. ég veit vel að þeir eru fiðraðir en ekki grýttir, það væri þá að þeir væru þaktir íslenskri kjötgrýtu fyrir sjálfstæða íslendinga.. það er óhuggulegt orð...kjötgrýta. ætli það sé ekki svanakjöt... ! Ég er með teygjuæfingar fyrir háls og herðar framan mig. Hefur alltaf langað að sjá hvort það væru til teygjuæfingar fyrir svani. Það hlýtur að vera hræðilegt fyrir greyin að fljúga suður á bóginn með hausinn beint út í loftið allan tímann... svo er maður að kvarta um strengi í sínum stutta hálsi. Ég er grenjuskjóða vælukjói og aumingi. ... mér líður eins og ég sé kominn með framfæturna inn í sláturhúsið... og ég verði nú brátt rúinn.. blóðgaður og hengdur innan um móreyk og birkigreinar. Hunts tómatsósu-skiltið sem blasir við mér í Esjuátt.. hlær að mér og segir.. "ég treð mér á þína steik". hvaða asni fær sér tómatsósu á kindakjöt. Það er bara klám... Klám, klám... ég held að ég sé meðvirkur eða samvirkur eða óvirkur eða eitthvað... ég tók nefnilega kæfu með ´múttu um daginn... er ekki viss um að ég hafi fengið í móðurlífið en byrjaði allt í einu að gráta.... uppgötvaði það að ég var líklega með síðustu skipum inn í járnblendisverksmiðjuna. og nú er ull útum allt. sá mann með ull og konu setja ull uppí mann. allt mjög erótískt.... er eins og fýsibelgur. sem gefur frá sér ámáttlegt vein í formi sekkjapípuhljóðs... blásin af byrjanda. aðeins ómur af roki síðustu daga.. eða andvarpi síðasta rónans í dalnum.
Ykkar einlægur
Langi Sleði

free web hit counter