Tuesday, February 28, 2006

...skrítinn kall

...nei það var enginn lítill krakki í sundi sem kallaði þetta á eftir mér!
Ég þekki skrítinn kall sem er með þrjár augabrúnir. Vinstri augabrúnin samanstendur af einni dúsínu af þessum þykku nárahárum á meðan hægri augabrúnin, samanstendur af slatta af undirhandarkrikahárum. Báðar augabrúnirnar eru svo uppfylltar af kiwihárum.
Þriðja augabrúnin er þakin þykkum nárahárum. Hún vex út frá einskonar hnykli í miðjum hausnum, út um bæði eyrun og báðar nasir.
Maðurinn er eigin tannþráðarverksmiðja.

Hann gengur eins og 15. aldar munkur þjakaður af játningum syndugu mannanna í Séð & heyrt. Það yrði meiriháttar tískuframför ef hann færi að versla í Guðsteini.
Stífi fóturinn gefur þessum manni dramatískan blæ og ég er þegar búinn að ímynda mér að hann í öllum helstu styrjöldum veraldarsögunnar.
Hann drap síðustu risaeðluna, bar Hannibal yfir Alpana, kenndi Napóleón að fela skítugar neglurnar undir jakkanum og minnti Hitler á að taka rítalínið.
Engin furða að hann sé þreyttur!

Af því hann er skrítinn, þá býður fas hans einhvern veginn ekki upp á það að maður gangi upp að honum og knúsi hann.
Þið skiljið hvað ég meina!
Það er auðveldara að sniðganga hann en að umgangast hann. Alls ekki illa meint en það þekkja allir þannig fólk. Eða er það ekki?

Góðar stundir
Langi Sleði

Monday, February 27, 2006

...tilvilji

...stundum langar mig að skrifa um margt í einu. Kannski óskilda hluti sem eignast tilgang í heilagri harmóníu við allífið.
Ég hét því(þegar ég ætlaði fyrst að fara að kaupa nýjan bíl) að það fyrsta sem ég myndi gera, væri að taka til í geymslunni.
Síðan eru liðin tvö ár.
Í skápnum frammá gangi fann ég skógrind alveg ferlega ljóta. Get ekki ímyndað mér hvers konar manneskja myndi kaupa sér svona drasl. Að vísu er svona pollapallur undir henni. Þannig að hönnuðurinn var ekki fábjáni, bara smekklaus.
Ég lét hana uppá eldhússkáp hjá mér, til þess að henda næst þegar ég færi með ruslið.
Síðan eru liðin tvö ár.
Ég setti gönguskóna mína í skottið á bílnum svo að ég gæti farið fyrirvaralaust í göngutúra. Nú þegar ég geng nánast daglega um freðmýrar Reykjavíkursvæðisins. Hleðst upp drulla og viðbjóður upp um alla skó.
Þetta eru heilir leðurskór sem gegnblotna aldrei, en lengi hef ég pirrast við að þrífa upp alla drulluna sem þeir skilja eftir í skottinu.
Síðan eru liðin tvö ár.

Það tók mig heil tvö ár að tengja.

Auðvitað nota ég pollapallinn af ónýtu skógrindinni fyrir gönguskóna.
Ég verð að nota bílinn minn til að flytja draslið úr geymslunni á haugana.
Fokk.
Ég ætla að sleppa því að segja ykkur frá bílamálunum.
Næsti póstur verður minni höfundur og meiri Langi Sleði.
Þetta er orðið eitthvað óskaplega sjálfhverft og þurrt.

Góðar stundir
Langi Sleði

Sunday, February 26, 2006

...ljúflega

...maður veit aldrei nákvæmlega hvenær túlípani missir sitt fyrsta blað. Það er þó öruggt að það svífur ljúflega til jarðar. Það var svipaður ljúfleiki falinn í fyrstu bollunni sem endaði feril sinn hér í hlíðunum.
...
...
...
Og næstu sex bollur, enduðu í hliðunum.

Góðar stundir
Langi Sleði

...hvað get ég sagt?

4 störf sem ég hef unnið um ævina
- síldarútvegsnefnd, allir verða að vinna í fiski
- rannsóknastofnun byggingariðnaðarins. Þar vann ég í ansi mörg ár.
- aðstoðarmaður ljósmyndara
- verkfræðistofa.

4 kvikmyndir sem ég get horft á aftur og aftur
- Amelie af því að hún minnir mann á það góða í heiminum, og hvernig á að meðhöndla hið slæma
- Regnhlífarnar í cherbourg. Dásamleg mynd.
- Short cuts. Mitt frægasta hláturskast, 20 mínútur, frábær mynd.
- Citizen Kane. Bara kúl.
4 staðir sem ég hef búið á
- Fæddur í vesturbænum
- Flutti í breiðholtið
- Kiel í Þýskalandi
- er í hlíðunum í dag
4 staðir sem ég hef heimsótt í fríum
- Japan, fátt sem toppar það
- norðurhluti Tælands
- Strandir, Ísland í sinni mögnuðustu mynd
- París
4 síður sem ég skoða daglega
- mbl.is
- visir.is
- ýmsar bloggsíður
- bílasölur.is, þessa dagana

4 bækur sem ég les oft

- Úr landsuðri, Jón Helgason. Flottasta skáld íslandssögunnar.
- Three to see the king, Magnus Mills. Þið sem hafið ekki lesið hana. Gerið það.
- Momo, Michael Ende. Fjallar um tímann og hvernig á að nota hann.
- ég á erfitt með að velja 4 bókina, frekar vel ég sovésku stjörnurnar sem eiga líklega mörg mögnuðustu bókmenntaverk allra tíma.
4 staðir sem ég vildi vera á núna
- á nuddbekk, hvað get ég sagt ég er nautnaseggur
- á ókunnri sólarströnd með ískaldan kokteil
- á skíðum í Ölpunum
- á góðum sushibar í Japan

Ég skora ekki á neinn að þessu sinni.

Góðar stundir
Langi Sleði

Saturday, February 25, 2006

...friður sé með yður

...ég veit ekki hvað mér finnst um greyið hana Yoko Ono.
Kemur til landsins undir þeim formerkjum að gefa landanum einhverja friðarsúlu.
Svo kemur í ljós að við þurfum að borga heilan helling af peningum fyrir þetta drasl.
Svo vill hún takmarka aðgang að henni í eina viku á ári, svo að ágangurinn verði ekki "of" mikill. Við vitum jú öll hvað kom fyrir Disneyland og Legoland. Friðarsúlan verður að fá frið svo hún skapi frið. Svo er Sean Lennon farinn að drattast á eftir kellingunni eftir misheppnaðan tónlistarferil. Örugglega ömurlegt að slá í gegn með því að setja upp kringlótt gleraugu eins og pabbi sinn.
Fokk.
Ég þoli ekki svona óhæft pakk.
Er þetta ekki aðeins of mikið mikilmennskubrjálæði og fortíðarþráhyggja samankomin í einu pari.
Fyrir súlu, út í Viðey, sem má nota til að stjaksetja menn sem láta ófriðlega.
Hvar er íslenski frumkrafturinn?
Ég get sagt ykkur það, að hann var í Megasi í Hallgrímskirkju í dag, þar sem hann flutti m.a. Passíusálmana!

Það ætti að gefa hverjum íslendingi þessa tónleika, eins og litlu lirfuna ljótu... og Megasi hempu, því fólk slóst til þess að koma inn.

Hlustaðu nú Alfreð!
Það væri smart, það er íslensk menning.
Yoko er bara skrum.

Góðar stundir
Langi Sleði

Thursday, February 23, 2006

...Nörryrkjabúðin

...þó að ég hafi skrifað og sagt ykkur frá ferðum mínum í Bónus. Þá þýðir það í raun einnig, að fleiri búðir verða að fá að fylgja með.
Fjölbreyttasta flóra viðskiptavina er ábyggilega í Nóatúni í Nóatúni.
Þetta kristallaðist í síðustu heimsókn minni. Þarna vinna aðallega tælenskar stelpur á kassa, íslenskir karlmenn í kjötborðinu og ein kona. Þessi kona er með svart vírað hár sem er tekið að grána í hliðum. Kinnar hennar eru eldrauðar, vegna þess að háræðarnar eru sprungnar, eftir of langa viðveru í mjólkurkælinum. Þess vegna er hún alltaf í rauðu flíspeysunni, alltaf, alltaf. Þær báðar láta verulega á sjá, þreytt augu og hnökruð flíspeysa.
Ég reyni að versla ekki eftir vinnu, því að þá er ég fastur í einhverju viðfangsefni dagsins.
Ekki konu, heldur vinnuviðfangsefni.
Ég fór hinsvegar að versla í fyrradag, eftir vinnu. Þess vegna á ég 18 egg í dag.
Nú.
Þar sem ég ráfaði utanviðmig, nánast stefnulaust í leit að einhverju fleiru en eggjum til að fylla körfuna, þá mætti ég gyðju.
Sítt, gullleitt hárið liðaðist niður á axlir hennar þar sem það samlagaðist pelsinum. Kyssilegar varir hennar, rauðmálaðar, stór sólgleraugu og tígullegt göngulagið, undirstrikað í hverju skrefi þar sem háir hælarnir glumdu og tilkynntu, að hún væri mætt.
Mér varð orða vant og hugsaði: "vá"!

Þegar hér var komið við sögu, var sundurleitur samtíningur í körfunni minni, sem varla gat talist kvöldmatur, þannig að ég ákvað bara að sjóða mér brokkál og baka mér kartöflur. Borða þetta svo með miklu smjöri og salti.
Ég ákvað að grípa með mér maískólfa og þar sem ég gekk inn ganginn, sveif gyðjan klingjandi á móti mér.
Á milli okkar var þreytta konan, að umraða barnamat.
Tveimur sekúndum áður en við öll mættumst, beygði konan sig niður, fór á fjóra fætur, í alltof dónalega stellingu og teygði sig langt inn í hilluna. Gangurinn var lokaður og ég horfði af aðdáun á þær báðar. Gjörsamlega ómeðvitaðar um tilveru hvorrar annarrar, en báðar að gera sitt.
Ég og gyðjan mættumst svo aftur á ganginum við hliðina.
Svona sögur týnast daglega.

Góðar stundir
Langi Sleði

Monday, February 20, 2006

...föng

...eitthvað gengur mér illa og erfiðlega að sameina sundraða hluti. Sundurleitur hópur, eins og bifukollur á flótta undan rokinu. Frekar pirrandi að elta svoleiðis, þegar maður er að leita að einhverju sem er nær taktföstum öldum sjávarins, í fullkominni harmóníu við tunglið. Og þótt að tunglið kveðji daglega, þá kemur það alltaf aftur. Sem er ekki hægt að segja um konur. Þá sömuleiðis gengur illa að sameina viðfang kynóra minna og viðfang kærustuóra í eina persónu. Í staðinn er ég meðhöndlaður af hinu kyninu eins og leikfangastrákur. Líklega af því ég er of mikill séntilmaður til að tala um það. Kannski alltaf einn, eða ekki, eða eitthvað.
Kannski er bara tími til kominn að einblína á aðföng, blýanta, reglustikur og penna. Get creative!
Verða bara svona eins og gæjarnir sem kíkja einu sinni á dag í netbankann sinn og láta þá gleði sem því fylgir, nægja. Onei.
Meiri gleði.

Góðar stundir
Langi Sleði

...stærðin

skiptir máli.
Stærð atvika, sem samfelld röð tilviljana, í fyrirfram óákveðinni atburðarrás.
Ég hef varið nær öllum mínum tíma í faðmi, svona undanfarið.
Faðmur fjölskyldunnar er alltaf hlýr, þó að partur af henni sé nú farinn suður á bóginn.
Er að springa af hugmyndum og hlakka til að segja ykkur sögur.

góðar stundir
Langi Sleði

Saturday, February 11, 2006

...garpsheilkennið

er búið að vera að angra mig undanfarinn sólarhring. Febrúar í gangi og hlaupaskórnir iða í skinninu, þrátt fyrir að þeir séu alfarið úr einhverju öðru efni.
Ég tek mér ávallt frí í útihlaupum yfir vetrartímann því að ég ofkólna alveg um leið. Stór lungu, frekar lítill massi, ég er orðinn jafnkaldur og kortersgamall hundaskítur á Miklatúni um hávetur, alveg um leið.
Það er líklega rétt að segja frá því líka að ég hlusta alltaf á tónlist þegar ég fer út að hlaupa. Það er öðruvísi, að hlaupa með tónlist í eyrunum. Maður gleymir amstri dagsins og lendir í einhverjum hugarheimi,... sem er eftirsóknarverður.
Gallinn er hins vegar sá að kosturinn er hættulegur og ég hef í raun misst tölu á því hvað ég hef oft flogið á hausinn í hálku og alltaf einhvern veginn tognað í nára. Svo illa að stundum hef ég átt í vandræðum með að komast heim.
En það var ekki þessi saga.
Garpur var flóknari manneskja en það.
Og ég er að reyna að forðast heimspekileg umræðu.
"Bílív mí"
Áðan sá ég Yoko Ono, tala um frið á setningarathöfn Ólympíuleikanna. Hvernig það myndi nægja heiminum að hugsa um frið og eitt það myndi hafa dómínó effect út um allan heim og deila friði.
"Einmitt" hugsaði ég, "fífl!"
En ég áttaði mig einnig á því að svona hugsa ég ákkúrat líka. Ég þarf alltaf að aðstoða, ég má ekkert aumt sjá, þá er ég kominn í lagfæringar. Líkamlegar, andlegar eða verklegar, því ég tel mig geta allt. "Garpsheilkennið" kalla ég þetta!
Þegar fólk dettur í pirring, er ég hinsvegar ráðþrota.
Mér er það gersamlega hulið, af hverju fólk velur að nota þessa tilfinningu svona mikið.
Minn aðalpirringur, er umferðin hérna á höfuðborgarsvæðinu. (Já, ég hef ekið í Þýskalandi) Ef það eru þrír bílar á ljósum, þar sem eru þrjár akgreinar, þá eru þeir alltaf hlið við hlið. Íslenska genið að vera alltaf fremstur, fyrstur í boðinu, fyrstur, fyrstur, fremstur og bestur.
Svo horfir maður á þessar japönsku hökta af stað, eins og gamalt fólk á rafmagnslausum hjólastól. Ömurlegt. Ég veit ekki hvort er verra dúndí bílar og aðrar druslur eða óeðlilega háar bílaafborganir til að vera kúl. 600 bílar á hverja 1000 íbúa er alveg óskiljanlegt. Ég fæ gæsahúð á heilann.
Það er mín lukka að þetta er lítill pirringur, hann er horfinn um leið og ég hugsa "fáviti". Prinsessupirringur.
Getur einhver sagt mér hvernig það er hægt að réttlæta fleiri sólarhringa pirring út í eitthvað svona, sem er ekki neitt?
Hvað pirrar ykkur mest af öllu, kæru konur/lesendur?

þetta var bara eitt af því sem gerist!
kveðja
Langi Sleði

Sunday, February 05, 2006

...eitthvað sem fólk kannast við

...er að þurfa að fara í apótek við og við.
Hóstasaft og höfuðverkjapillur.
Ég var staddur í lyfju í lágmúla að kaupa hárnæringu og mýbitsvörnina mína.
Hvað um það. Ég tók fljótlega eftir strák sem var að væflast á furðulegum stöðum. Hékk lengi fyrir framan dömudeildina, sokkabuxur, nærbuxur og meikið. Ég fékk gæsahúð af tilhugsuninni að nú færi eitthvað ljótt að gerast. Svo var hann að lykta af alls konar olíum og svoleiðis dóti. Unaðsolían ástareldur... Hverjum er ekki sama hvernig hún lyktar... Svo lengi sem hún virkar. En svo tók ég eftir því að öll hans væfl, enduðu fyrir framan smokkarekkann.
Greyið hugsaði ég. Hann var á viðkvæma aldrinum og já. Ég viðurkenni það alveg, það hefur ekki alltaf verið auðvelt að kaupa smokka.
Hvað um það.
Ég er djúpt sokkinn í smokkinn og allar þær pælingar, þegar afgreiðslustúlkan kallar: nítíu og níu!
...ekkert gerðist..
nítíu og níu
...þögn...
NÍTÍU OG NÍU...en ekkert gerðist.

Nú beið allt apótekið eftir nr 99.

"KJARTAN", kallar svo afgreiðslustúlkan. Ahhaa!... 99 var Kjartan, hver/hvar er Kjartan spurði apótekið í huganum.

Kom ekki unglingurinn minn askvaðandi úr kvendeildinni, og með örsnöggu stoppi, sem eiginlega ekki sást, nema þau sem biðu eftir 99 (allt apótekið), hrifsaði hann með sér einn smokkapakka af óþekktri gerð. Ekki vildi þó betur til en að þetta var allt of snöggt fyrir aumingja smokkarekkann, sem missti jafnvægið og 10-15 pakkningar hrundu á gólfið. Númer 99 var búinn að klúðra málunum. Gersamlega! Næstu sekúndubrot skiptu öllu máli, hann leit í átt til dyranna og sá að leiðin var greið.
Það var annaðhvort að vaða í viðgerðir, eða að láta sig hverfa.
Kjartan var hins vegar maður meiri og eftir smá umhugsun, beygði hann sig bara niður og byrjaði, að raða smokkapökkunum á sinn stað.
Af sinni alkunnu alúð, bauð Langi Sleði fram hjálp sína og sagði: ...
Ég sagði ekkert, fyrst en spennan var orðin svo mögnuð og þrungin þögnin að ég sagði: "Þetta er tveggja mínútna brottvísun!"
Fékk smá bros, en þó aðallega frá hinu fólkinu, sem líklega skildi alveg hvað hann var að ganga í gegnum. Þannig skildi ég það allavegana!
En hvernig var með ykkur?
Var þetta kannski alla tíð auðvelt fyrir ykkur?

góðar stundir
Langi Sleði

free web hit counter