Wednesday, March 30, 2005

Rangur sparnaður

Langi Sleði hefur mjög ákveðnar skoðanir á því þegar sparað er á röngum stöðum. Hvernig maður á að dekra við sjálfan sig, með þessum pínulitlu hlutum sem hafa fylgt manni síðan í æsku.
Til dæmis það að kaupa Bónus klósettpappír, er að kasta fé á glæ. Það er alveg eins hægt að sneiða niður Fréttablaðið, sem er ókeypis. Þetta á líka við fleiri afþurrkunarvörur, eins og ódýru viskastykkin sem færa bleytuna bara til og hrinda dropunum raun frá sér. Munið líka eftir stútunum sem var hægt að láta á mjólkurfernurnar, það var furðulegt dæmi, en kannski svolítið önnur ella.
Það að kaupa ódýrasta tannkremið í búðinni er líka með öllu óskiljanlegt. Að anga eins og salerni á bifvélaverkstæði, er bara ekki þess virði. Pottar og pönnur, kaupið vandaðar eldhúsvörur, þið notið þetta á hverjum degi og það er ekkert verra en að eyða óþarflega löngum tíma í að skrapa matarleifarnar úr botnunum. Uppvask er ekki svona skemmtilegt.
Kauptu almennilegt rauðvín, það er himinn og haf á milli þess að drekka 990 krónu flösku og 1400 kr flösku, þú ert ekki að fara á hausinn, þetta eru 400 kr. Ef þú ætlar á rauðvínsfyllerí, kauptu þá bara rauðvín í plasti og hættu að þykjast.
Brauð, Samsölu/Myllu-froðan sem er seld í kjörbúðum er vond en hún venst. Vendu þig á bakarí, bakarí er lífsstíll.
Svona get ég haldið endalaust áfram, t.d. appelsínusafi, ostur, fersk matvara, kiljur í stað vasabrotsbóka osfrv.
Eitt er þó ónefnt, og mikilvægast af öllu, mest notaða nautnavaran í nútímaþjóðfélaginu. Kaffi, það er ekki endalaust hægt að bjóða upp á biðstofusull. Bjóðið mér upp á gott kaffi, gott súkkulaði má fylgja. Ég er að hugsa um að taka upp á því að hella vondu kaffi í sófann ef þú svo mikið sem dirfist að bjóða mér upp á eitthvað drasl. Það er fyndið þegar fólk segir: "æ, ætlar þú að hella uppá elskan? Notaðu þá fína kaffið!". Hvað er að ykkur!!...

Gaman væri að heyra hvað ykkur dettur í hug eftir þessa upptalningu, ég man til dæmis eftir hnetusmjörinu sem fæst í heilsuhúsinu, það er bara ekki úr þessum heimi.

góðar stundir
Langi Sleði.

Tuesday, March 29, 2005

Það að skipta um útvarpsstöðvar...

hefur engin áhrif á tímann, nema maður geri það nógu oft. Þá getur maður látið mínúturnar líða, eina í einu. Sem þýðir, að það er alltaf einhver að skipta um útvarpsstöðvar. Ég fyllist þakklæti til Bylgjunnar, FM957, Létt osfrv. fyrir að láta vera svona skiptihvetjandi tónlist í útvarpinu, og stuðla þannig að fljótri líðan daganna.

Aftur á móti hvessi ég augun í átt að Rás 1, og bið þau að taka Rás 2 sér til fyrirmyndar. Það er mjög auðvelt að skipta af honum Gesti Einari. Verst að Gestur Einar er ekki tveir.
Góðar stundir
Langi-Sleði

Sunday, March 27, 2005

Svo skal hver fljúga, sem hann er fjaðraður.

Það eru engar frekari útskýringar á þessum málshætti.
Hann lenti í vörslu minni, án þess að brjótast fram úr páskaeggi, án þess að nokkur mannvera hafi látið hann í lófa minn.
Bara allt í einu var hann hérna, eins og hann hafi alltaf átt hér heima.
Til að undirstrika furðulegheitin, þá var málshátturinn frá Mónu. Ég hef aldrei keypt Mónu páskaegg.
Dularfullt.
Mér datt í hug að þessi málsháttur væri á einhvern hátt ætlaður mér, og hugleiddi það meira að segja að fara út í búð og kaupa 10 páskaegg, til að minnka merkingu málsháttsins. En ég óttaðist það um of að ég fengi sama málshátt í öllum eggjunum.
Það yrði bara of mikið, of mikill sykur, of mikið af páskaungum, of mikið af eigin barmi, of mikið af eigin harmi, of mikið af öllu.

En Langi-Sleði, óskar lesendum gleðilegra páska og ánægjulegs insúlínsjokks, og megi dagar ykkar verða blómum drifnir.

góðar stundir
Langi-Sleði

Thursday, March 24, 2005

Tilviljanakenndir orða

Vafalaust vissi ég að
vandalaust var það ekki,
að háþróa þá vísidómsgáfu
sem þér var gefin í upphafi,
- alda -
- ár var alda -
hafið bláa hafið
hugann dregur,
uppá Snæfellsjökulinn
þar sem öll fjöll eru blá.
Í sjóinn ég sekk,
nema í Hvalfirði ég flýt,
það var staðreyndin
sem sigraði
og aldan var enn hvít

Wednesday, March 23, 2005

Fischer á leiðinni

Ég velti því fyrir mér...!

Munum við borga honum laun eins og öðrum stórmeisturum?
Er hann á leiðinni í pólitík, eða vantaði Davíð nýjan makker í bridds?
Hvað erum við íslendingar þá orðnir margir?

góðar stundir

Langi-Sleði

Tuesday, March 22, 2005

Þreytti þráinn

Sá sæta stelpu í sundi. Langaði að rétta henni lykilinn að skápnum mínum og segja, "hæ, ég er í skáp 378, mér þætti gaman að sjá þig þar". Sá mig svo fyrir mér, hálfvitalegan, á sundskýlunni, við útganginn, grátbiðjandi um lykilinn. Nei, ekki þetta. Sofnaði í pottinum.
Þetta eru góðir dagar, eilítil fyrirtíðapáskaspenna, er farin að þjaka þjóðfélagið, og ég er svo ánægður með að geta leikið mér í lyndi. Lifa í joggingbuxum og alvöru hugarburði, áburði, vakna svo upp síðar með skósvertu á andlitinu í búri, og ganga undir nafninu bóbó í búrinu. Hjómar eins og Brynjan í bubbanu.
kveðja
Langi-Sleði

Sunday, March 20, 2005

Besame,,, besame mucho.

Þessar þagnir. Þessi óþörfu orð, kannski miklu heldur.
Þessi augnablik, og það sem þau leiða af sér.
Stundum, liggja himnarnir þannig að það er freistandi að elta skýin, stundarkorn í óafsakanlegu hvolfi, líklegast allt of hátt uppi, einn, í nánd við kríur og máva, þrumur og eldingar. Berjast um athygli þeirra, en lenda einhvern veginn á miðju mávabjargi, af óspennandi ferðalagi, og blæða ekki í sekúndu, þótt full ástæða sé til.
Langi-Sleði þekkir alls konar fólk, eins allskonar og fólk getur orðið... og lenti nú um daginn í því njahh... Ég er líklega enn spéhræddur, í skjóli skjásins.
Langt um liðið... Ætla í kökuboð á Kjarvalsstöðum á morgun, rölta aðeins meðal olíulita og síðáhrifa fúnkisstíls. Er örugglega að stefna á að safna þar hári, þrífa svo kofann og hreysið.

Átti annars góðan dag, er uppgefinn eins og vinnumaður að loknu dagsverki. Missti samt sjónar á aðalatriðum og smáatriðum undir lokin, sem kostaði angrar örg af ergelsi.

Góðar stundir
Langi-Sleði

free web hit counter