Monday, September 25, 2006

...hvað þá?

...Þar sem sú stefna að elda dýrindismáltíðir ofan í tilvonandi húsfrúr og viðfang óra, hefur ekki verið að skila árangri, lagði Langi Sleði hugann í marineringu yfir nótt.
Að morgni dags sat ég svo uppi með þá hugmynd að ég væri að ryðjast um of inn á yfirráðasvæði kvenkynsins.
Á laugardaginn var svo generalprufa á þessari tilraun. Viðfangið kom ákkúrat á réttum tíma, ef dreginn er frá eðlilegur meiköpp tími. Hún mætti í glæsilegum gala kjól og í háhæluðum skóm. Ég hrærði saman tvær bollasúpur í ósamstæða bolla og setti fótboltann í gang. Hún fór á 38. mínútu fyrrihálfleiks. Sagðist hafa gleymt að þvo sér um hárið.
Ég hef nú ekki heyrt í henni síðan, en ég er samt enn vongóður.
Þetta hlýtur að ganga einhvern tímann upp... haldið þið það ekki?
Ef ekki... hvað þá?

Góðar stundir
Langi Sleði

Wednesday, September 20, 2006

...ég er svo

...aldeilis bit.
Það kom mér ekki á óvart að það var enginn núlifandi stjórnmálamaður nefndur. Albert, sá eini íslenski sem var nefndur, höndlaði valdið líklega ekkert betur en hinir stjórnmálamennirnir. Sennilega munum við bara ver eftir hans bommertum!
Hins vegar...
Þá er það merkilegt í óspurðum fréttum að lögnin að eldhúsvaski Langa Sleða er búin að vera stífluð síðan á sunnudag. Það þýðir að hér hefur ekkert uppvask farið fram í nokkra daga. Rennslið úr vaskinum var það lítið að mig grunaði að þetta yrði skilgreind sem stífla af erfiðleikagráðu 3... að minnsta kosti. Því hannaði ég í huganum, yfirleitt rétt þegar ég var að sofna, afskaplega glimrandi græju sem átti að leysa stíflur af öllum gráðum.
Það var fyrst á miðvikudagsmorgun, sem ég leit inní eldhúsið og fylltist viðbjóði. Að vinnu lokinni fór ég beint í Húsasmiðjuna og keypti nokkra hluti sem ég þyrfti við smíði græjunnar.
Fyrsta skref var að hella stíflueyði í vaskinn og leyfa honum að virka.
Á meðan ætlaði ég að smíða græjuna.
Ég leitaði út um allt hús að verkfærunum mínum. Allt hús. 2 geymslur, heil íbúð og nákvæmlega öllu var snúið við.
Hvergi fann ég verkfærin. Þau voru jafn týnd og eldfærin í ævintýrum H.C Andersen!
Ég ákvað þá að hætta þessum tilraunum í kvöld, sem urðu reyndar bara raunir og taka uppvaskið með mér í sturtu.
Að lokum ákvað ég þó að hreinsa stíflueyðinn úr lögnunum með því að stútfylla vaskinn af sjóðheitu vatni. Viti menn, þá brast stíflan og lagnirnar soguðu vatnið til sín af áfergju.
Þetta er ein magnaðasta stífla sem ég hef lent í!
Stíflan lagði íbúðina í rúst, verkfærin hurfu og ég set uppi með óþarfa græju sem ég get ekki einu sinni smíðað.
Þessi stífla var semsagt skilgreind af erfiðleikagráðu 5.

Góðar stundir
Langi Sleði

Sunday, September 17, 2006

...vald

...er vandmeðfarið.
Reyndar er það svo að ég man ekki eftir einum stjórnmálamanni, sem hefur höndlað það vald sem honum hefur verið látið í té.
... og meginreglan, því meira vald, því stærri bommertur á fyllilega við í íslensku stjórnmálalífi.
Verð nú samt að viðurkenna að mér finnst stíll yfir því þegar heill flokkur tekur sig til og vendir seglum, þegar skútan er svotil sokkin.
Svona svipað og að kúka á sig íklæddur kafarabúningi. Sem er reyndar bæði fyndið og heillandi.
En svona í alvöru! Man einhver eftir stjórnmálamanni sem höndlaði valdið?

Góðar stundir
Langi Sleði

Wednesday, September 06, 2006

...skemmtilegra

...Íslendingar töpuðu 0-2 fyrir Dönum í knattspyrnu í kvöld. Ekki skal deilt um það að Danir séu a.m.k. einum styrkleikaflokki fyrir ofan okkar íslensku stráka. Þrátt fyrir að dómarinn hafi gert sitt besta til að skemmta áhorfendum, með því að setja upp flautukonsert svipaðan og einleik Péturs Pan í töfraflautunni, þá dugði það ekki meira en svo en það rumdi illilega í mér þegar ég renndi mér í heita pottinn. Danska var algengasta tungumálið í mínu horni, ég forðaðist allan augnkontakt enda ekki í nokkru skapi fyrir háðsglott. Ég lyfti annarri buxnaskálminni og kúkaði í pottinn. Stakk íslenska fánanum (þessum snittufánum sem eru á tannstönglunum), á hann og lét hann reka í átt að Dönunum. Það varð náttúrulega uppi fótur og fit og þeir voru fljótir að láta sig hverfa. Nú hafði ég pottinn alveg fyrir mig einan og hugsaði: "Hahh... 2-1 er allavega betra en 2-0"

Góðar stundir
Langi Sleði

...skemmtilegt!

... hugsaði ég þegar ég keyrði lítið sofinn fram hjá Ísaksskóla í morgun. Þar voru lítið sofnir foreldrar að selflytja börnin sín upp menntaveginn. Krakkarnir spriklandi af kæti, með fyrstu alvöru skólatöskuna.
það virtist nú samt vera frekar lítil þolinmæði í loftinu.
Ef ég hefði nú bara haft vit á því að mæta snemma og strá m&m á jörðina fyrir utan skólann, þá er ég viss um að þarna hefði ríkt stríðsástand.

Góðar stundir
Langi Sleði

free web hit counter