Thursday, August 31, 2006

...rangur titill

...af biturri reynslu minni vildi ég ekki tjá mig á síðasta kommentakerfi. Ég á það nefnilega til, yfirleitt af vel yfirlögðu ráði, að segja nákvæmlega það sem má ekki segja!
Í þessu konusamfélagi virðist ég vera eins lífsseigur og kjaftasaga í saumaklúbbi, en í sama mund jafn dauðadæmdur og tourette sjúklingur í þjónaskóla.
Þannig er það nú bara og ég veit ekki af hverju!
En ég hafði afskaplega gaman af þessu og hló mikið!
Ég minntist á það um daginn að stundum væri það líkt og að grimm kona hafi lagt á mig álög (samanber bílavesenið). Nú hefur tekið sig upp verkur í baki sem leiðir fram í brjóst og öfugt. Því vil ég biðja þá sem lagði álög á mig að aflétta þeim hið fyrsta og bjóða fram nudd í sárabætur.

Góðar stundir
Langi Sleði

Wednesday, August 23, 2006

...allt slapp..t.

...lystin og listin við að lifa kom mér ekki alveg í koll við Kollafjörð. Langi Sleði sótti bílinn sinn í dag og hann er alveg eins og hann á að vera...
Þegar heim var komið hringdi vinur Langa Sleða.
Vinur: Sæll og blessaður, hvað segirðu gott?
Langi Sleði: Sæll og blessaður, ég segi bara allt fínt en þú?
Vinur: Jújú, ég ákvað bara að hringja því að ég hef ekki heyrt í neinum síðan á Morrissey tónleikunum!
Langi Sleði: Já það var geðveikt.

Síðan komu nokkrar setningar sem aðallega snérust um klám og kynlíf með óæðri verum skrítnum tólum og einhverjum orðum sem jafnvel Langi Sleði skildi ekki....

Vinur: ...svo á ég ekki bara að droppa á þig? Eða ertu að gera eitthvað sérstakt?
Langi Sleði: Ehh, nei... ég ætlaði bara að fara að þrífa!
Vinur: Ó..., þá leyfi ég þér að þrífa í rólegheitunum.
.
.
.
Ég dottaði eitthvað eftir þetta og þreif svolítið líka. Fór að hugsa, hvað eru mörg ár síðan maður hætti að vera drepinn fyrir að segja svona? Þrjú, fimm, tíu ? Ég veit það ekki!
Kannski gerðist það á sama tíma og þið konurnar byrjuðuð að gera ykkur upp hausverk... Tók mig mörg ár að uppgötva að konur sem fá svokallað "kynlífsmígreni"... eru bara annars hugar!

Góðar stundir
Langi Sleði

Monday, August 21, 2006

...rækallinn

Listaferð Langa Sleða hófst með prýði þennan fagra laugardagsmorgunn.
Vaknaði snemma og gerði hátíðarútgáfu Muellersæfinganna. Hlustaði á kveðjuræðu Halldórs í útvarpinu um leið og ég gæddi mér á nýbökuðu bakkelsi.
Útbjó mér nesti í sama stíl og valdi tónlist fyrir ferðina. Þetta yrði ævintýralega góð ferð.
Ég vissi svona nokkurn veginn hvaða staði ég ætlaði að heimsækja enda ekki í fyrsta sinn sem Langi Sleði leggur af stað í listaferð. Eftir að stað var komið fann ég fljótlega afskaplega skemmtileg myndefni og dundaði mér þar lengi vel í fögru veðri. Einhvern veginn leið mér afskaplega vel að vera laus við fólk og fjendur, valdi í dag fjöll og fé.
Allt var gott.
Brosti til sveitarinnar, skilta sem höfðu verið skotin í klessu, blindhæða og hættulegra beygja. Léttur andvarinn lék um túnin og stráin hneigðu sig niður vindinn eins og fagurlega skapað teppi. Þar til ég kom að síðustu blindhæðinni. Kölluð í daglegu tali blindhæðnin, þó ég hafi aldrei verið blindhæðinn, þá fannst henni eitthvað tilvalið að setja mark sitt á mitt.
Langi Sleði brunaði yfir stóran grjóthnullung sem dróst eftir undirvagninum með ískri og skrensi, þúmpi og banki. Það kviknaði snarlega á olíuljósinu og ekkert annað að gera en að stöðva bílinn. Einhver grjóthnullungur sem þetta helv. jeppapakk hafði skotið inn á veginn í einhverjum ofsaakstrinum. Andskotans.
Það þyrmdi yfir mér, en létti enn meira yfir sveitinni og nú sást hvergi ský á himni.
.
.
.
Já, ég var stopp og ekkert að gera nema að bíða eftir því að vera sóttur.
.
.
.
Nú er tilvalið að ég segi ykkur frá fyrri eiganda bílsins míns. Það kom mér mikið á óvart þegar ég sá að í bílnum var innbyggt segulbandstæki enda hef ég ekki séð slíkt, jahh... síðan ehhmm... árið 2000. Þegar ég hinsvegar uppgötvaði að fyrri eigandinn væri geðlæknir, féll þetta allt í réttar skorður. Þar sem hann hefur líklega stundað það að hlusta á sjúrnalana í og úr vinnu. Þetta þótti mér, á einhvern óeðlilegan hátt, afar vænt um.
.
.
.
Ég settist í farþegasætið og byrjaði að rita þessa færslu með annarri hendi, hina hendina hafði ég í segulbandstækinu, svona til hughreystingar. Hugsaði mikið um það af hverju ég gæti ekki átt einn einasta fullkominn dag í friði fyrir öllum öðrum. En ákvað svo að þessi barlómur minn næði nú örugglega ekki inn á topp 100 af því sem greyið bílsálin hafði þurft að heyra áður, svo ég þagði bara og setti John Coltrane í geislaspilarann.
.
.
.
Á sunnudagskvöldið kl 10. hringdi svo viðgerðarmaðurinn og tjáði mér að olíupannan hefði brotnað. Hann spurði mig hvort ég hefði nú örugglega náð að stöðva vélina nógu og snemma því þá hefði ég getað eyðilagt hana. Helvískur... Ég sofnaði ekki fyrr en kl 2 um nóttina, en þá var ég búinn að spyrja mig þessarar spurningar hátt í 3000 sinnum.
Á morgun kemur svo stóridómur. Nei eða já af eða á.
Hér er ein mynd af afrakstri dagsins.

Góðar stundir
Langi Sleði

Saturday, August 19, 2006

...olíumafían

...var ekki lengi að ná fram hefndum. Þeir höfðu samband við Vegagerðina sem stilltu upp grjóti á förnum vegi og ég tæmdi bílinn af olíu á 200 metrum.
Þið fáið að heyra betur af þessu á morgun, ég ætla að drekka bensínlitaðan vökva í kvöld og athuga hvort sambandið lagast ekki.
Líklega þarf ég að fara í Nornabúðina og athuga hvort Eva getur ekki galdrað einhvern verndarseið handa mér!

Góðar stundir
Langi Sleði

Thursday, August 17, 2006

...olía

...fékk til baka hluta af peningunum sem olíufélögin hafa stundað að stela af mér síðastliðin ár.
Borgaði 2 orkudrykki með 2þkr og fékk til baka eins og ég hafi verið að borga með 5þkr.
Hamingjusamur í hálfa stund.
Varð hinsvegar að mæta í vinnuna í dag en stefni á að eiga góðan frídag á morgun. List hefst, því list á sér líf.

góðar stundir
Langi Sleði

Tuesday, August 15, 2006

...frjósemi

...getur birst í mörgum myndum. Þar sem lítið hefur farið fyrir henni hjá Langa Sleða undanfarið hef ég ákveðið að taka frí á fimmtudag og föstudag. Þessum tveimur dögum verður varið í frjósemisaðgerð. Ég ætla að búa til listaverk. Gróf hugmynd hefur þegar gerjast í mér eins og 10 lítra bjórkútur kominn yfir síðasta söludag.
Það kemur í ljós.
...kann hinsvegar góða lygasögu.
Þrír félagar Pétur, Viðar og Óskar, voru miklir vinir þegar þeir lærðu smíðar saman í Iðnskólanum. En eins og vinátta karlmanna endar yfirleitt, þá komst kona upp á milli þeirra. Hún var að læra auglýsingagerð. Það komst upp um hana eftir að hún hafði sængað til skiptis hjá Óskari og Pétri. Það eina sem gerðist var að þeir hættu að tala saman.
Hún er nú samt líklega enn að sofa hjá þeim báðum, allavegana er hún að semja slagorðin sem standa á vinnubílum þeirra beggja.

- Viðar og Óskar, yðar óskir í við! -

- Pétur, sem allt getur betur! -

Mig grunar, samt að hún sé ánægðari með hann Pétur!

Góðar stundir
Langi Sleði

Wednesday, August 09, 2006

...ó

...stundum leyfum við aðstæðum í að þróast upp í það að það skilur heilu saumaklúbbana orðlausa.
Ein svona saga er til af kunningja Langa- Sleða. Maður sem gekk í gegnum óléttu-cravings með konunni sinni af áður óþekktri stærðargráðu. Át eins og... nei, það er ekki hægt að segja neitt um átið hans. Hinsvegar þegar hann gekk inn á fæðingadeildina, þá var hann settur í súrefni og var samstundis settur af stað. Afleiðingin varð sú að hann missti mátt í höndunum og í bríaríi keypti hann sér harmonikku. Seinna lét maðurinn taka af sér tærnar því honum var alltaf svo kalt. Sumir láta sér hinsvegar nægja að kaupa hlýrri sokka.

...og þá hafið þið það!

Á maður kannski að lifa lífinu þannig að ó-in, séu tíður gestur á vörum manns?
Láta vaða í hluti sem mann langar í, fela sig svo bakvið stundarbrjálæði eða ó. Það er allavegana merkilegra en að fela sig bak við brennivínið!
Skynsemin, á hún að hafa völdin?
Flestir myndu kannski segja að þetta ætti að vera hæfileg blanda af báðu! Hvernig er það hægt? Hélt alltaf að það væri annaðhvort eða!

Góðar stundir
Langi Sleði

Thursday, August 03, 2006

...væntanlega

...koma einhver orð að lokum.
Það er þó þannig að einhvern veginn, þá veit ég ekki alveg hvernig ég á að byrja!
Amma Langa Sleða er kjarnorkukona, þó kjarnorkan sé farin að dvína á nítugasta aldursárinu... og þó!
Við erum að tala um konu sem sparkaði upp hurðum ef henni sýndist svo og afi minn var ekki að tvínóna við hlutina þegar hann sá þá kosti sem hún hafði að bera... Umfram hurðatrikkið!
Amma er orðin svolítið völt á fótunum og um daginn datt hún og mjaðmagrindarbraut sig. Það hindrar hana þó ekki í því að halda áfram að búa ein.
Iss, hún þarf sko ekki að flytja!
Morguninn eftir mjaðmaaðgerðina, vaknaði hún, hálfvönkuð! Nikótínskorturinn var farinn að segja verulega til sín.
Langaamma: "æji, ég ákvað bara að hætta þessu!"
Langi Sleði: "já en að hætta reykja eftir 65 ár, fékkstu ekki fráhvarfseinkenni... viltu ekki plástra eða töflur eða eitthvað svoleiðis?"
Langaamma: "æji, nei nei, það er nú bara pjatt ég þarfnast þess ekkert"
...þessi kona hætti að reykja eftir 65 ár eins og ekkert væri auðveldara. Ég á æðislega ömmu!
Sem afleiðingar af þessari sígarettusögu, þutu milljón reykingasögur hjá á ljóshraða,

konan sem reykti vindla því hún saknaði þess að eiga ekki mann,

konan sem bruddi nikótíntyggjó eins og henni væri borgað fyrir það því að hún átti ekki mann til að dreifa athyglinni,

konan sem reykti eiginlega ekki sígarettur heldur bara pappír, því hún leit svo fjári vel og sexí út með sígarettu í hendinni, hún var líka að reyna að lokka til sín mann.

konan sem hætti að reyna að feika það að hún reykti opinberlega, því hún var svo upptekin við að reyna að lokka til sín mann.

konan sem byrjaði að reykja til að storka öllum náttúrulögmálum krabbameins.

Allar skrítnu sturturnar sem Langi Sleði hefur tekið að morgni dags til að þvo stybbu miðbæjarþokunar af líkamanum.

Annars held ég að ég verði að fara að finna mér nýjan sundtíma. Þroskahefta kærustuparið, er farið að hafa varanleg áhrif á kynhvöt mína, þar sem ég er upp undir 2 daga að jafna mig eftir óhuggulegheitin.

Af hverju heldur hann að hann þekki mig?

Góðar stundir
Langi Sleði

free web hit counter