Saturday, December 31, 2005

...áramótakveðja

...stór kassi af knúsi og kort með. Áramótakoss í kristalsglasi og brúsi af alíslenskum áramótalögum... eða legi.
Ég þakka ykkur öllum samveruna á árinu bæði í vefheimum og raunheimi.

Góðar stundir
Langi Sleði

Friday, December 30, 2005

...ég er

...ellefta geðorðið.

Thursday, December 29, 2005

...í gamla daga

...nú þegar nær dregur áramótum, plagar mig fortíðarhyggja eða fortíðarþráhyggja. Svo ég hef ákveðið að segja ykkur frá ... einhverju frá þeim tíma.

Þetta var á hughrifsárunum mínum, ég var rétt að ljúka við að ferðast hringinn í kringum landið í huganum.
Á hjóli, nota bene, í nóvemberlok.
Rétt í lokin stoppaði ég við mótel Venus, þar sem mér var orðið mjög mál að nota salernið.
Ég var fljótur í gegnum anddyrið, það get ég sagt ykkur, en fer ekki nánar út í smáatriðin, þar sem sum ykkar eru hugsanlega nýbúin að borða.
Að tæmingu lokinni, settist ég í lúið leðursófasett í illa upplýstu anddyrinu, ég fann hvernig þreytan helltist yfir mig. Eins og ég hafi tæmt alla bikara búksins.
Ég svaf.
Engill í afgreiðslukonugervi vakti mig og teymdi inn í herbergi þar sem ég svaf áfram.
Morguninn eftir var ég orðinn ástfanginn af afgreiðslukonunni, þannig að ég ákvað að vera aðeins lengur.
Ég bjó þarna í fimm ár, vissi í sjálfu sér aldrei nákvæmlega hvað hún hét en það var aukaatriði. Þurfti ekki meira af henni en þetta. Þrátt fyrir að ég hafi, ekki einu sinni fengið hrein handklæði allan þann tíma sem ég bjó þarna, þá líkaði mér vel. Sápan kláraðist fyrsta mánuðinn og þrátt fyrir að burstinn, sem ég notaði þessi fimm ár, hafi dugað allan tímann. Þá var hann alltaf fullstór. Og þessi skrýtni ilmur, eða keimur, hvarf aldrei. Og hinar vikulegu andvökunætur, þegar Grímur mætti með annars manns spúsu í herbergið við hliðina gleymast aldrei. Í taktföst hróp og köll heila nótt. Maðurinn var algjör maskína.

Einhvern veginn, þó, skapaðist aldrei rétta tækifærið til að tala við hana. Svo að ég gerði það aldrei. Þetta varð aldrei neitt annað en aðdáun úr metersfjarlægð.
Ég man ekki eftir því að hafa nokkurn tímann borðað, þessi fimm ár sem ég bjó þarna. En daglega eftir morgunverð, fór ég í göngutúra um nágrennið. Svo að ég hlýt að hafa borðað.
Einn daginn, snéri ég ekki við, hélt bara áfram að ganga. Þartil ég kom í notalegu íbúðina mína. Það var eins og ekkert hafði í skorist, rykið hafði ekki safnast saman í lag yfir hlutina mína. Og það sem meira var, kaffið var enn heitt.

Góðar stundir
Langi Sleði.

Saturday, December 24, 2005

...jólakveðja

...
Langi Sleði sendir eitt búnt af jólalegum hugsunum til lesenda, nær sem fjær. Megi hátíðin bera í skauti sér þær væntingar sem þið til hennar gerið. Ég óska ykkur ilmandi jóla, blómstrandi greniilms, fullnægju kertaljósaþarfar og öllum þeim blikkandi seríupervertisma sem þið kjósið. Ég óska ykkur matarilms sem færir ykkur hamingjuríkar minningar en fyrst og fremst að þið finnið lyktina af ykkar ástvinum,...þó að þessi ákveðni ilmur sem var keyptur án þíns samþykkis í fríhöfninni, hafi alltaf farið í taugarnar þínar.

Góðar stundir
Langi Sleði

Friday, December 23, 2005

...loforð undir áhrifum vímugjafa

Ég lofaði heiðursmanninum Klaraklans að skrifa eitthvað aðeins gott er heim var komið. Þar sem við sátum að sumbli á virkum degi eins og aðrir virðulegir borgarar, þessa lands. Við enduðum á tónleikum þar sem Söþerland bandið átti að spila en það kom reyndar í ljós að hann var upptekinn við að vera frægur. Við náðum hinsvegar nokkrum lögum með Mammút, sem voru úbersvalar, í kjölfar þeirra komu Ghostdigital, sem urðu sér til skammar eins og fyrri daginn. Experimental hljómsveit sem vantar allt experimental í ... jahhh nema óhljóðin. Beth from bath, sem er greinilega PJ Harvey aðdáandi nr. 1 og þá sérstaklega síðustu diskarnir hennar. Að lokum kom söþerland bandið með allt of mikla stjörnustæla. lemmda rödd og rafmagnsgítar. Eins og kanans er von og vísa, voru þetta allt góðir spilarar, en ekki mín ella.
Eins og sagt hefur verið í ævintýrinu.

Þar sem Andrea rokk var kynnir kvöldsins, fannst mér rétt að segja ykkur frá kynnum mínum af henni.
Öll vitum við að Andrea rokk og Óli palli, eru útstöðvar og ábyrg fyrir tónlistarlegri menntun þúsunda unglinga, sem gera ekkert merkilegra en að toga gallabuxurnar nokkra sentimetra niður, og nærbuxurnar, áleiðis uppeftir. Eins langt og gredda og kúlheit gefa tilefni til.
Hvað um það...
Þetta minnti mig á minn tíma sem unglingur, á þeim tímum sem það var nóg að horfa á stór brjóst og flissa. Og svo fór maður heim og fantasireraði um sætar skólasystur.
Well... Þannig var lífið bara í þá dagana.
Ég meina það hefði ekkert fært okkur Klaraklans nær hvorum öðrum, en þessi eina kona gerði... Sunddramadrottningin. Tjahhh. Nema við hefðum verið hommar, sem er vírus sem við erum blessunarlega lausir við.
Hvað um það.
Ca 10 árum eftir að ég slít grunnskólaskónum, þá hitti ég Andreu rokk, á bar. Þar vann hún sem plötusnúður. Undir áhrifum vímugjafa fann ég mig knúinn til að ganga til hennar og tjá mína tónlistarlegu ást á henni... og reyndar Óla palla (en þau tvö báru af á þeim tíma, ókei.. síðan þá er ég allavegana búinn að bæta Gerði G. Bjarklind í safnið.
Nú.
Mætir ekki viðfang grunnskólakynóra minna til okkar þar sem við Andrea sitjum að spjalli um rokk og segir: "jæja,Langi-Sleði, þú ætlar ekki að fara að stela kærustunni minni af mér" og svo smellir hún kossi á kinnina á henni.
...
..
.
Sleikir svo á henni eyrað, og rekur henni þennan fullorðinskoss, tunga á bólakaf niðrí kok.
Þessi útvarpsrödd og þetta megabeib meikaði ekki meiri sense frekar en Gerður G. Bjarklind og Anton Örn Markússon og ég er ekki bara að segja eitthvað...AMK tvöfaldur aldursmunur og ég er ekki að grínast.
Allavegana. Þá enduðu mínir unglingskynórar nákvæmlega þá.
Enda kannski kominn tími til.

Góðar stundir
Langi Sleði

Wednesday, December 21, 2005

...smá pæling

...datt það í hug, þar sem mér mistókst að drekka jólatréð undir borðið, að reyna að drekka einfættu svörtu blaðburðarstúlkuna undir borð. Ég féll þó frá því þegar ég sá að hún var enn feitari en jólatréð. Kannski kaupi ég mér bara nokkra playmobil karla og hrindi einum og einum eftir einn til tvo bjóra.
Það telst reyndar bara með, ef það er gert í minni íbúð. Þar sem playmobil karlar njóta gífurlegra mikilla réttinda, eins og reyndar sá stirði karlmaður sem býr hér.
Ástæða stirðleika míns er allt önnur og merkilegri. Vísindaleg aðferðarfræði mín er byggð upp þannig að ég geri líkama minn að tilraunasvæði, þar sem athugað er hvort að mikill líkamlegur stirðleiki hafi áhrif á andlegan og geðrænan stirðleika. Þrátt fyrir að vera að nokkru leiti stirðari en playmobil karl (og það er engin lygi), þá er ég enn geðgóður með afbrigðum og mikill ljúflingur. Sem kemur kannski mörgum á óvart.

Góðar stundir
Langi Sleði

Monday, December 19, 2005

...drykkjukeppni

...við vorum tvö eftir. Þú enn standandi en ég var sestur. Smá svimi, svona út af sjónskekkjugleraugunum sem Anna valdi á mig. Fyndið hvað hún fór að gera sér dælt við lifur, þegar ég fór að ganga á hluti. Allavega, þá eyðilagði hún sína lifur á mettíma, og varð að senda hana í afeitrun eftir aðeins nokkra mánuða fjarbúð. En hún var ekki hér.
Fyrirfram, var ég sigurviss. Það er bara takmarkað hvað tittur upp á einn og sextíu getur drukkið. Að vísu ertu töluvert breiðari en ég og það kemur þér til góða.
Eftir tvo sólarhringa gafst ég upp, þá hafðirðu ekki enn haggast og stóðst á einum fæti í horninu á stofunni.
Gjörsamlega magnað hvað grenitré drekka af vatni.

Góðar stundir
Langi Sleði

Sunday, December 18, 2005

...11 mínútur

fyrst vil ég byrja á að þakka þeim sem söknuðu mín. Mér líður eins og Morgunblaðinu, já eða internetinu. úúúú

...þar sem ég er afbragðsfyrrverandi nemandi, fannst gömlum kennara tilvalið að láta mig leiðbeina nemanda í lokaverkefni í tækniháskólanum.
Við ákváðum að hanna nýstárlegt hús.
Í desembermánuði er ég hins vegar búinn að vera í fríi. Mín skoðun er sú að einu raunverulegu fríin til að vera í eru þau sem enginn veit af.
Núna á miðvikudaginn var hins vegar komið að vörninni hjá nemandanum. 10.45 Mælst var til þess að leiðbeinendur mæti korteri fyrr.
Ég opnaði augun 10.39
Sjitt og fokk I.
Í föt, í bíl, af stað.
Um leið og ég tók ólöglegu u-beygjuna, sá ég glitta í lögreglubíl bakvið stóran jeppa.
Sjitt og fokk II.
Þeir kveiktu á sírenunum um leið og ég lagði af stað á næstu ljósum.
Sjitt og fokk III.
Ég hemlaði og þeir bentu mér á að kíkja í bílinn.
Ég varð að flýta mér.
Langi Sleði: sælir drengir, þið þurfið ekkert að segja mér um þessa ólöglegu u-beygju en því miður hef ég engan tíma til að spjalla núna því að ég er að flýta mér. Ég er prófdómari hjá nemanda í tækniháskólanum. Má ég ekki fara?

Setningarnar og orðaröðin var ekki til fyrirmyndar enda var ég ennþá að vakna.
Lögreglumaður 1: Jæja vinur, getum við fengið að sjá ökuskírteinið þitt?
Sjitt og fokk IV
Langi Sleði: Æi, fokk ég er ekki með veskið mitt!
Lögreglumaður 2: Skilríki!
Langi Sleði: Æi, fokk ég er ekki með veskið mitt!
Lögreglumaður 1 var farinn að kalla upp bílnúmerið í talstöðinni, og í skjóli þess hélt ég áfram að vakna

Lögreglumaður 2: Kennitala!
Ég var vandræðalega lengi að stynja upp kennitölunni, en svona uppúr því fóru málstöðvarnar að vakna. Ég mátti engan tíma missa, færði mig í miðja sætaröðina, reisti mig við á milli sætanna og sagði: strákar, ég er ekkert að grínast, ég verð að komast af stað, ég lofa að ég geri þetta aldrei aftur.

Mér til furðu ákváðu þeir að sleppa mér, ég þakkaði þeim fyrir og hljóp út í bíl.
Ég fékk stæði á besta stað og rauk upp stigann.
Klukkan var 10.50.
Nemandinn stóð í efstu tröppunni og leiðbeindi mér á réttan stað.
Já, það er einhver smá seinkun sagði hann.
10 mínútum síðar fórum við inn og ég lék hinn fullkomna leiðbeinanda og hann hinn fullkomna nemanda.
Við gáfum honum 9.

En að alvarlegri málefnum. Ég er ekki tilbúinn til að segja ykkur frá nágrannanum. Því að ég veit ekki í hvaða magni sá atburður á eftir að hafa áhrif á lífið. Ég er ekki vanur að sjá....
Við getum orðað það þannig. Næst þegar ég, sé fáklædda stúlku í....

Nei... ekki alveg strax.

Góðar stundir
Langi Sleði

Saturday, December 17, 2005

...drifnir dagar

...úff, hvað ég á eftir að segja ykkur frá því þegar lögreglan stoppaði mig, eða þegar ég mætti nágrannanum í dapurlega dularfullum aðstæðum. En það gerist ekki í kvöld. Nú ætla ég að sofa.
En ég segi ykkur frá þess öllu saman, verð að klára þessa 25 fermetra í flísalagningunni á morgun... Þetta er ekki nema dagsverk.

góðar stundir
Langi Sleði

Thursday, December 08, 2005

...kram

...Ef vel er að gáð þá speglast kertaljósið ekki bara einu sinni heldur tvisvar í tvöfaldri rúðu. Einu sinni í hvoru gleri fyrir sig. Ef maður hefur hornið sem maður horfir á logann undir og fjarlægðirnar, væri hægðarleikur að reikna bilið á milli glerjanna.
Ég var að velta fyrir mér undarlegheitum í mannlegri hegðun.
Það sem setti þessar pælingar af stað var kannski enn undarlegra.
Í einhverju hugsanakrami, (Hugsanakram, skilgreini ég á eftirfarandi hátt. Hugsið ykkur kramhús á hvolfi á borði. Maður byrjar neðst, en eftir því sem hugmyndin þróast, nálgast maður toppinn æ meira. Að lokum kemst maður á toppinn, að niðurstöðu. Fólk byrjar hvar sem er, en endar á sama stað. Hugsanakram.
Þið þurfið ekkert að vera sammála.)
hafði ég ákveðið að kaupa hlíf yfir gasgrillið mitt. Veit ekki af hverju, sá ekkert á því eftir fyrsta veturinn úti. Eníveis.. ég var í BYKO. og þetta kostaði slikk og ég lét vaða. Síðan þá er liðið hálft ár, eða meira.
Ég henti því í fyrsta sinn yfir grillið í vikunni. Þetta var greinilega hálfgert drasl og samdráttarbúnaðurinn á botninum rifnaði um leið og ég herti. En ég er líka sterkari en ... allavega þetta plastdrasl.
Nú.
Í dag, var engu líkara en að sjálfur Steve Fosset væri staddur á svölunum mínum. Búinn að fylla gasgrillshlífina af heitu lofti, og væri að undirbúa brottför. Fokk. Ég nennti ekki út. Óskaði þess helst að hlífin fyki eitthvað út í hafsauga.

Einhverju síðar, var hlífin komin af grillinu og byrjuð að berjast utaní grillið með tilheyrandi látum.
Alvarlegir samskiptamöguleikar þar, hugsaði ég. Alltof algengt þetta sambýlingaofbeldi alltaf hreint.
ég veitti þessum hugsunum þó enga sérstaka athygli, enda var ég upptekinn við að slappa af. Það var þó ekki fyrr en ég settist við tölvuna og horfði á kertaljósið speglast í glugganum. Þegar hugmyndin kviknaði.
Hagl buldi á rúðunni, með tilheyrandi látum. Og ég hugsaði.
Í yfirgnæfandi tilvikum, lemur hvert hagl, hverja rúðu bara einu sinni. Hvort er það meira rúðunni að þakka eða lætur haglið, sér þetta að kenningu verða?
Þessi auma hlíf sem var bundin við grillið, hafði í raun losnað, en hélt áfram að berja grillið.
Fyndið hvað það er hægt að færa þetta á mannlegt eðli.

Góðar stundir
Langi Sleði

Saturday, December 03, 2005

...laugardagsmorgunn

...þið getið ekki gert ykkur í hugarlund hvað ég var hissa þegar ég vaknaði eldsnemma í morgun. Ég spratt eins og köttur fram úr rúminu og við tók engu minni undrun, þar sem ég rak glyrnurnar í eina litla spörfuglalöpp liggjandi á gólfinu. Ég lagði rófuna á milli lappanna, læddist aftur inní rúm og breiddi upp fyrir haus.

Góðar stundir
Langi Sleði

Thursday, December 01, 2005

...eina kvöldstund

bjó ég í litlu skoti,
í söngvaskáldsins paradís.
En ég var aðeins gestur
á glugga stutta stund
eins og ósyndur hestur
á dýpisins fund.

Orð og tónar,
í harmóníunni dynjandi.
undirborðsdónar,
í paradísinni stynjandi.

Mæli innilega með plötunni HÚS DATT með MEGASUKK, en því miður misstuð þið af frá-vá-bærum tónleikum.

Endum þetta á lokaorðum Bessastaðablúss á plötunni, og vonum að ég komist upp með það.

Ég er kúkur í lauginni
láttu það berast hvar ég er
því ég á von á að forsetinn loks fatti
hvar fálkaorðan best mundi sóma sér


Góðar stundir
Langi Sleði

free web hit counter