Tuesday, June 28, 2005

staðreynd

Þröngar karlmannsgallabuxur, eiga mikið sameiginlegt með háhæluðu skóm konunnar.

Sunday, June 26, 2005

bog, tog og va er de!

Var að koma frá kónginum.
Ferðasaga birtist í brotinni mynd, samangengin og afbökuð, breytt og bætt, eins og mælgi og geð gefa tilefni til.
En ramminn er upphafið og endirinn það var allavegana skýrt.
BSÍ kl 5, ég og 17 þroskaheftir einstaklingar á leið út á flugvöll.
Þau voru 4 sem unnu sem fylgisveinar og byrjuðu strax á að týna einum. Töldu mig í staðinn, það var ekki fyrr en ein óskilgreind taska út á plani að einn kveikti á perunni. Það vantaði Dóra. Dóri fannst svo hinumegin við BSÍ þar sem hann var að skoða leigubíla og tala við leigubílstjóra. Dóri, sem kynnti sig fljótlega sem mikinn áhugamann um piss og kúk, sýndi hópnum svo skemmtilegt skot af því þegar Halli pissaði í klósettskálina á BSÍ.
Sérstakt fólk.
Ég fór að hugsa að hver dagur í lífi þeirra væri ævintýri, uppgötvanir, hissingur og endalausar spurningar.
Hvernig erum við svo öðruvísi? Það sem heitir viðbúningur og þroski. Leit ekkert rosalega spennandi út þar sem þau gátu breytt rútuferðinni í ævintýri.
Þau voru ekki í minni flugvél og ég sá ekki meira af þeim.

Sancho Pansa fylgdi mér út á flugvöllinn á heimleiðinni, ég þakkaði fyrir mig eins og svo nánir vinir gera, hélt svo inn í flughöfnina.
Þar mættu mér hinar tvær hliðar rammans. Hún var reyndar ein, en mætti mér tvisvar.
Hún var Amishkandidat.
Í gráum serk og flatbotna skóm, með þykk kringlótt gleraugu og nákvæmlega ekkert glingur. Rautt sítt hárið var tekið í tvær fléttur sem lágu yfir sitthvora öxlina.
Pent, hugsaði ég, en þetta var eini liturinn sem var á þessari manneskju. Eldrautt hár, allt annað var grátt. Það var eins og hún væri frá öðru tímasvæði, hún gekk ekki í takt, eins og í leiðslu. Hún var ljósastaur á röngum stað.
Ég flýtti mér í whiskýbúðina og fann mér 20 ára Talisker double matured. Borgaði heil ósköp, en blokkaði það hratt og örugglega út.
Á leiðinni til baka rölti ég framhjá bókabúðinni, og kíkti hvort það væru komin út einhver skemmtileg blöð til að lesa á heimleiðinni.
Eins og venjulega freistaðist ég í bókadeildina og og var búinn að finna 2 mjög áhugaverðar bækur, sem ég átti erfitt með að velja á milli. Allt í einu finn ég ótrúlega værð, og er ég lít til hliðar sé ég Amíshku mér við hlið. Hún hélt á bók, eins og venjulegt fólk heldur á nýja testamentinu, við fermingu. Það var allt svo skrýtið að ég á eiginlega engin orð. Bókin sem hún hafði valið sér hét "Women in waiting".
Ég climaxaði.
Það var ekki hægt að toppa þetta, skyndilega voru bækurnar mínar einstaklega óáhugaverðar og mér fannst mínar bókmenntir jafnast á við Penthouse og Loveboat. Ég skilaði báðum bókunum og gat ekki annað en keypt þessa bók "women in waiting"
Sem minningu um þessa taktlausu veru.
Öll vorum við jú að bíða, og flugið mitt fór í loftið 13:15

Góðar stundir
Langi Sleði

Thursday, June 16, 2005

... af nöktum körlum

Það er tískusveifla í gangi í sundi, þessa dagana. Það eru allir karlmenn farnir að raka sig að neðan.
Djöfull held ég að það klæji!
Sagt er að rakstur stækki visjónina, og sé sexý.
Ég er ekki alveg á því.
Þá klæjar og mig klígjar.
Í sitthvoru horninu og alveg í friði fyrir hvorum öðrum.
...
En nóg um það. Þetta var bara fyrir Sápuóperu! Svona ekkert eins og sólarlagið, nema að hluta til!
...

Góðar stundir
Langi Sleði

Tuesday, June 14, 2005

Af nöktum konum...

1.
Ég elska osta. Gorgonzola, Saint Aubrey, Gamli Óli, svarta sara, camenbert, brie, kastali. Við getum orðað þetta þannig, að líklega hef ég prófað alla ostana í Ostabúðinni að Bitruhálsi og ég hef ekki enn rekist á bragðvondan ost. Hef aldrei heimsótt konur jafn oft, án þess að sjá þær fyrir mér naktar. Þessar konur eru stórkostlegar og senda mig alltaf saddan út.

2.
Ég gleymdi mér í afslappelsi á Súfistanum og uppgötvaði það bara á heimleiðinni að ég var orðinn glorhungraður. Ég breytti rölti í ark og innan 10 mínútna var ég inní eldhúsi að búa til spaghetti bolognese.
Mér til ama uppgötvaði ég að parmesaninn var búinn og mig rak nú bara í rogastans, þegar ég sá að brauðosturinn var líka búinn.
Nú voru góð ráð dýr.
Í stuttu máli sagt skellti ég gráðaosti á bolognesið og þið sem hafið aldrei prófað það heldur. Það svínvirkar.

3.
Ég veit ekki hvort það er verið að gera grín að neytendum, en á skjáeinum er verið að sýna brúðkaupsþáttinn já. Á rúv er hinsvegar verið að sýna hvað einstæðir feður eiga bágt í Noregi. Er ekki alveg tilefni til þess að stöðvarnar tali sig saman, þegar það er verið að sýna svona gullmola? Ég breyttist hinsvegar úr neytanda í neitanda, setti nýju plötu Nick Cave á fóninn og flúði í skjól skjásins.

...
Og þið sem eruð enn að velta fyrir ykkur hvenær ég fari að tala um berrassaðar konur, þá eru þetta þrjár dæmisögur. Hvenær neyðin kennir naktri konu að spinna.

Jæja, þá er ég búinn að nota þessa fyrirsögn, hún verður ekki notuð aftur.

Góðar stundir.
Langi Sleði

Monday, June 13, 2005

Í skotum sálar minnar...

er alltént allt of sjaldan tekið til. Og þegar tiltektar er krafist, kostir og gallar, lestir og brestir, hvenær varstu verstur og hvenær varstu bestur. Hoppaðu upp og lokaðu augunum, bentu í austur, bentu í vestur, bentu á þá sem að þér þykir best. En ég er bara ég, í kompaníi við allífið, lifi með kostunum og göllunum í einskærri gleði og harmóníu... þótt gallarnir mínir, geti reynst kostir í afartilvikum og kostirnir, gallar í annarra augum. Því hlýt ég að vera samansafn af sérvöldum kostum og göllum, skilgreinanlegum, sem gerir mig þó að því sem ég er. Þar sem skilgreiningar er ekki krafist, er hún óþörf.

Snýst lífið um það?? Englagrautur og Sápuópera, hafa skrifað orðræður um drauma, væntingar. von, trú, ást og fiðrildi. En einhvern veginn fæ ég það á tilfinninguna að þær vilji bara skilgreina sig í augum annarra. Eða að finna þörfina til að skilgreina sig og kalla það svo ást.

Þær vantar mann með stór eyru, góða sál og vöxt. Mér datt í hug Megas. Two out of three aint bad.

góðar stundir
Langi Sleði

Wednesday, June 08, 2005

þurrkun

...það kemur sá tími í lífi hvers manns að það þurfi að endurnýja sundhandklæði.

Ég man ekki hvenær mér áskotnaðist fyrsta sundhandklæðið, sem enn er í notkun, en það eru allavegana 10 ár síðan.
Ég man líka þegar þykk og notaleg handklæðin vöfðust um mann af ástríðu. Nú vefst þeim ekki einu sinni tunga um tönn og eðlilegra væri að kalla þetta tuskur, frekar en handklæði. Nú á næstu dögum verður lagerinn endurnýjaður.

Þetta minnir mig líka á IKEA viskustykkin sem þurrka ekki bleytu, færa hana bara til. Hvaða snillingi datt það í hug?

góðar stundir
Langi Sleði

Tuesday, June 07, 2005

Vangaveltur

Langi Sleði hefur glögglega séð að kommentarar hans, eru ALLTAF kvenkyns.
Fyrir utan þá nafnlausu, sem hann veit ekkert um, en eru í besta falli karlmenn sem vilja alls ekki láta vita að þeir sem karlmenn lesi Langa Sleða. Ekki frekar en Langi Sleði kommenti nokkurntímann á eitthvað sem gerist á femin.is. Að vísu kemur inn í þetta og brenglar afstöðumyndina, að konur hafa yfirleitt meiri tjáningarþörf, sem er gott. Það gleður mig ósegjanlega að þið fylgist með Langa Sleða og ég fagna öllum ykkar kommentum.
EN.
Um daginn hringdi í mig vinkona, sem ég hafði ekki heyrt í lengi.

Langi sleði: Halló, Langi Sleði hér!
Hún: Ha, nei hæ ! æ ég ætlaði að hringja í mömmu!

ARRRRGGGGHHHHHH

Ég er semsagt í einhverju móðurhlutverki hjá henni, hugmyndafræðilega/vinalega séð.
Er þetta mín skapaða ímynd?
Er ég bara síða nr. 3 hjá ykkur, eftir að þið eruð búnar að kíkja rækilega á femin.is. ætti ég að vera feminframhald.is?

Mér finnst ég knúinn til að segja ykkur að ég var að keppa í fótbolta í kvöld, við unnum 4-1 og ég var rennblautur í stuttbuxum, keppnistreyju, með órakaða fótleggi frá upphafi, þriggja daga skeggbrodda og grimmúðlegt augnaráð!

góðar stundir
Langi Sleði

Sunday, June 05, 2005

Af fimm fjórðu

Fór á lokaatriði listahátíðar í gærkvöldi. Það voru tónleikar í Háskólabíói með Anne Sofie von Otter, mezzósópran og Bengt Forsberg píanóleikara. Þau tóku skemmtilega syrpu af ljóðasöngvum, eftir sænska höfunda, og svo frægari spámenn eins og schubert, kurt weil, sibelius og mahler.
Þetta var alveg framúrskarandi frammistaða hjá þeim báðum, og mikið fjör.
Og.
Allt ríka og fræga fólkið var mætt á staðinn, og ég fékk það á tilfinninguna að ég væri staddur í séð og heyrt partýi. Loftkossum var dreift eins og sælgæti sæta á milli, og jafnvel yfir heilu sætaraðirnar. Stífbónaðar glæsikerrur, klöppuðu um leið og hinir, en varalituðu sig í takt við hrynjandina. Listaspírur, snobbuðu niðurávið, og mættu á inniskóm og gallabuxum eins og þeirra er von og vísa, enda hljóta dramastykkin sem eru á leikhúsa-fjölunum þessa dagana setja sitt mark á melancholiuna þeirra.
Verð að fara að bulla meira hérna.

Góðar stundir
Langi Sleði

Thursday, June 02, 2005

Einu gildir, ferðahraði.

Í París eru allir þeir sem minna mega sín hlaðnir hæfileikum til að sjá fyrir sér með harmonikkuspili, fiðluleik eða töfrabrögðum. Það er krafa frá almættinu að kjósir þú fátækt og flækingslíf, er nauðsynlegt að kunna meira en að hlaða glösum á bakka eða hnýta bindishnút.

Mig hefur alltaf langað að læra á og eiga harmonikku, en ég elska útborgunardaga!

Alíslensk óhamingja!

góðar stundir
Langi Sleði

free web hit counter