Saturday, April 30, 2005

Til er hræ...

... sem geispar norðan næðingi, í sambland við uppgefni, án þess að uppgjöf komi þar nokkuð nærri. Mögnuðu dagsverki lokið og þó að ekki væri loku fyrir það skotið að voðaskotið væri rotið, gæti hún hugsanlega verið sátt við gotið. Hún er gefin fyrir drama, þessi dama og ekki sama um Sama, nema Lappar séu.

Lét langþráðan draum rætast í sundi áðan.
"Líney Eik, Líney Eik, þú átt að fara uppúr strax, mamma þín bíður í afgreiðslunni."
Ég spratt upp úr heita pottinum og sagði: "sjitt, mamma verður brjáluð". Svo hljóp ég eins og mjólkurfull belja inn í karlaklefann.
Var að hugsa um að fara aftur í pottinn, svona til að hneigja mig, en sundbolurinn var að drepa mig, og ég var svo spenntur að prófa þurrkapparatið, þannig að ég sleppti því.

góðar stundir
Langi Sleði

Wednesday, April 27, 2005

Af viti

Langi Sleði býr á fjórðu hæð í fjölbýlishúsi.
Sú almenna kurteisi að fylgja gestum til dyra, hefur ætíð verið viðhöfð hér, í skjóli þess að gestir fari ekki að ósekju með vitið úr húsinu.

Ég held ég þurfi að fara fylgja gestum niður... allar tröppurnar, og útá plan.
Það er engin takmörk fyrir því hverju ég get gleymt, það fer að nálgast öryrkju.

Nema ég þurfi bara gott frí, tékka á stöðu minni gagnvart öryrkjabandalaginu í fyrramálið.

góðar stundir
Langi Sleði

Tuesday, April 26, 2005

Páfakjör

... er líklega nafnið á búðinni sem nýji gæludýrapáfinn verslar við (Rottusöngvarinn), minnir mig nú aðallega á ævintýrið með strákinn flautuna og músafaraldurinn. Leiddi hann ekki allar mýsnar í glötun? Mig minnir það.
Einhvern veginn dettur mér í hug að þetta gæti líka verið nafn á búð á Patreksfirði, en það er líklega bara út af pjéinu í samblandi við dreifbýlið.
Hvað um það, þá er ég viss um að Páfakjör, er ekki eins og hver önnur kjörbúð úti á landi, heldur kennir þar ýmissa grasa. Þetta veit ég þar sem ég komst yfir innkaupalista Rottusöngvarans.
1. Ost
2. Oblátur
3. Páfanafnabók
4. Nýjan hatt
5. Nýjasta tölublað "Bold & Holy"
6. Messuvín
7. 2 flöskur af Theresugosi
8. 4 krukkur af Loreal hrukkukremi
9. Áfyllingu á Soda stream tækið
10. Nýjan kút af heilögum anda

Ég geri frekar ráð fyrir því, sjálfur, að halda áfram að versla bara við Nóatún.

Góðar stundir
Langi Sleði

Monday, April 25, 2005

menningarvitinn og iðnaðarmaðurinn II.

Eftir þessa miklu þátttöku í skáldagetraun menningarvitans, vil ég líklega kynna ykkur fyrir skáldkonunni Susanne Jorn. Faðir hennar, Asger Jorn, var einn af frægari myndlistarmönnum Danmerkur. Verk hans voru til sýnis, fyrir 3-4 árum, í Listasafni Íslands minnir mig. Hún starfaði með Sigurjóni Ólafssyni, myndhöggvara, að ljóðabókinni "Tracks in Sand".

Iðnaðarmaðurinn hamast inná baði. Eftir að ég kom heim úr vinnu, fór ég beint í flísalögn, raðaði 45 heilum flísum upp á hálftíma, skar svo 15 flísar og setti þær upp á næstu 45 mínútum. Þurfti svo að saga tvær flísar í kringum tengil og hitastillinn sem ég setti í gólfið, það tók 4 klukkutíma. Ég sé það alveg fyrir mér að ég deyi ef ég fer að saga út þennan hringglugga. Ég ætla að saga með vinstri á morgun, annars endar þetta allt í einhverri vitleysu.
góðar stundir
Langi Sleði

Saturday, April 23, 2005

menningarvitinn og iðnaðarmaðurinn.

Iðnaðarmaðurinn í mér er búinn að ná yfirhöndinni og því dettur mér fyrst og fremst í hug að segja ykkur af hverju það er sexí að sjá í rassaskoruna, þegar ég beygi mig.
Menningarvitinn hrópar á hjálp, og ég ætla að kynna ykkur fyrir ljóði, mínu uppáhalds. Stór bónus fyrir það að þekkja skáldið.
Þetta eru bara svo mögnuð orð. Litirnir og krafturinn.

"The Cripple"

Every night
ten thousand things move
and lose their color

Every night
time collapses
Nuanced darkness
flows like asphalt
Burns like melancholia
and disability

Every night
a woman's flowery dress
of pastel faith
in hazy memory
A diptych
of bliss
A coffin
of dark thoughts
of old snow

Every morning
a broken mirror
Loneliness makes light
lika a lemon
in a cobalt blue glass bowl

Every day
odd-looking
endlessly
humpbacked

Every split second
an abyss of
forbidden happiness
A deep red flush
of weakness
af feelings gone sour

Every streak of light
overshadowed by
thoughts of
self-destruction

Every single night
made of marble white doves
and shiny grave stones
for the Vulnerable Thinker.

Monday, April 18, 2005

af húsdýrum.

Langi Sleði er mikill óvinur húsdýra í borginni. Páfagaukar, kettir, hundar og bólfoltar, eru þar í fararbroddi. En ég finn nú til einhverrar meðaumkunar með hömstrum, þar sem þeir eru bara að finna sér stað til að ríða á.
Ástæður óvildar minnar eru fyrst og fremst sá subbugangur sem dýrunum fylgir, lyktin, og vangeta húsráðenda til að þrífa eftir dýrin sín.
Kettir tróna langefstir á listanum, sem leiðinleg dýr. Listinn er einfaldlega of langur til að rekja hverja einustu sögu en hér koma stikkorð úr þeim sem ég man.
Kona 1.
Kona sem bjó í herbergi með kettinum sínum og kattasandinum, viðbjóðsleg lykt og hár útum allt.
Kötturinn fékk aldrei að fara út og var taugaveiklað gerpi sem varð þess valdandi að maður fór helst ekki í heimsókn þangað.
Kona 2.
Þegar ég gisti hjá henni, varð kötturinn afbrýðisamur, um miðjar nætur fannst honum gaman að hoppa í rimlagardínunni. Þegar hann fékk ræpu upp í rúmi eina nóttina, þá var mér nóg boðið. Það var ekki kötturinn eða ég, ég var farinn.
Kona 3.
Sama rimlagardínuvesen, hár útum allt og fannst gaman að naga sokka! Helst á meðan maður var í þeim.

Hundar, eru mun einfaldari ekki jafn mikið hárlos en þeir eru bara svo heimskir greyin. Hugsanlegur þáttur í þessu viðhorfi er líklega, þar sem ég var í sveit, þar voru hundar í sínu náttúrulega umhverfi. Það er bara ekki rétt að hafa hund hér í borg, þeir verða bara ekki glaðir greyin.
Páfagaukar, vond lykt og fjaðrir. Reyndar kann það að hafa áhrif á þessa skoðun að sófinn minn blæðir fjöðrum, alveg hata ég það.
Bólfoltar, ég keyrði yfir bólfolta á leiðinni heim, af hverju er þetta ekki í fyrsta skipti!! Að vera á stjákli í rigningu í niðamyrkri, jájá.. þá líður þeim best. en af hverju að halda sig á götunni? Ég keyrði yfir bólfolta nr 103 á leiðinni heim, og það var subbugangur út um allt.

Góðar stundir
Langi Sleði

Thursday, April 14, 2005

Kilja

Fékk loksins ritgerðina mína afhenta í kiljuformi. Allt samþykkt, klappað og klárt. Langaði út á lífið, og detta í það, en lét bjór og whiskýglas nægja. Ég þarf meiri leiðbeiningar um einka-koju-fyllerí.
Útlendingarnir eru hérna alveg fram á sunnudag, það verður að koma í ljós, en það stefnir í alvöru.
kveðja
Langi Sleði

Wednesday, April 13, 2005

...what a day for a daydream...

Ef ég hefði vitað fyrirfram hvernig dagurinn yrði, hefði ég líklega fótbrotið mig á ristavélinni, en því var nú ekki að heilsa þannig að ég hélt út í óvissuna 08:00. Byrjaði daginn í ríkinu, endaði á því að vera með meiningar og kúgaði þá loks til samstarfs, fékk þá meira að segja til að tala ensku.
Hélt svo til vinnu til að hitta væntanlega viðskiptavini. Sendinefnd frá Hollandi, sem vilja reisa verksmiðju þar. Hollendingar eru mjög sérstakur þjóðflokkur, allan daginn sveiflaðist ég á milli þess, að finnast við vera búnir að landa þeim og glata þeim. Landa, glata.. glatað land. Þeir eru einnig frægir fyrir að vera MJÖG íhaldssamir á fjármuni, og er oft sagt að þetta sé fólk með óeðlilega stuttar hendur og mjög djúpa vasa. Eftir tilfinningalega rússíbanaferð, ákvað ég að fara í sund, þar væri ég a.m.k. óhultur. Ég labbaði beint í flasið á "Höfða-mómenti" (sem er miklu merkilegra móment en "kodak-moment"), brosti, hæ!, flass, flass, flass, og vissi ekkert hvað ég átti að segja, frekar en Reagan og Gorbi forðum. Komst loks í pottinn, og ákvað að loka augunum, þangað til ég væri orðinn svangur. Þreyttur og svangur, fór ég uppúr, löng sturta, "það verður gott að komast heim", hugsaði ég. Loksins þegar ég kom út í ferska loftið á ný, fylltust lungu mín af von að deginum væri nú loks að ljúka, en nei. Þar sem ég haltraði í hægðum mínum (ég haltra en út af hnénu) út að bílnum mínum, þá gekk framúr mér fjölfatlaður maður, með tvær hækjur, og ég veit ekki hvernig í ósköpunum hann hélt jafnvægi. Það var bara ómögulegt að vinda sig svona, fæturnir lentu einhvernveginn á jörðinni, eins og það væri meira fyrir misskilning en ákveðið skref. Hann baðaði út höndum eins og maður sem er að detta aftur fyrir sig og stakk svo niður hækjunum rétt í þann mund sem maður hugsaði... "nú dettur hann".
Ég horfði á hann fjarlægjast mig, og það var ekki fyrr en hann hafði sest inn í bíl og ekið burt, óaðfinnanlega, að ég fattaði að ég var hættur að ganga.
Þetta var engin spurning. Nú fer ég heim, og dvel þar. Á leiðinni heim hringdi ég í Dorrit og Óla og afboðaði keilukvöld. Þessi keilukvöld eru nú líka búin að vera hálfskrítin undanfarið, hún er eitthvað voðalega spennt fyrir legó þessa dagana... Ég er ekki að fíla það!

góðar stundir

Langi Sleði

Monday, April 11, 2005

Hvað er að gerast?

Síðustu daga hef ég verið að upplifa aukinn stirðleika í öðru hnénu. Nú er svo komið að ég get varla beygt löppina. Ég held ég sé að breytast í Playmobil kall. Sjís... og ég sem ætlaði til klipparans á eftir... hann smellir örugglega bara hárinu af mér og nagar það!
kveðja
Langi Sleði

Sunday, April 10, 2005

Án kvæða getum við lítið gert...

Kvæðamannafélagið.

En það er ekki viðfangsefni dagsins, tilefnið er að forstjóri hversdagsins gerði víðreist, fröken Alstaðar var hvergi bangin. Andvarp yfirgnæfði mig í rykfrakka og rétti mér bækling um spegla. Ég sá margra ára ógæfu í hendi mér, þannig að ég hljóp af stað. Skyndilega umkringdur stöðumælum, stöðugum mælingum og klinki.
Það ringdi píanóum í dag, en ég sá það aldrei, heyrði bara óminn, það var allt og sumt, en samt yfirdrifið.
Það má segja að dagurinn hafi verið undarlegur, en mig grunar að þetta hafi verið mánudagur að feika sig sem sunnudag. Með snert af kvefi í hné, er að því að hugsa um að taka fótinn af við eyrað af öxlinni. Það er það eða aspirin.
kveðja
Langi-Sleði

Saturday, April 09, 2005

Fréttatilkynning

Heyrst hefur að lostafull tvíkynhneigð mær muni búa til nýja heimasíðu fyrir páfagarð. Þetta mun vera þáttur í viðleitni páfagarðs til að hvetja til umburðalyndis í mannlegum samskiptum. Hún mun einnig taka sér fyrir hendur að endurhanna löngu úrelta fatalínu, og í viðtali við Langa Sleða, sagði hún einfaldlega: "Þetta verður allt lostafyllra - kuflar eru einfaldlega out".

Seinni frétt dagsins.

Karl setti loks íana.
Langi Sleði óskar brúðhjónunum góðs gengis á brúðkaupsnóttina, enda hefur biðin eftir bólförum verið löng. Athygli vakti að Camilla var mesta beibið í boðinu, enda hefur það ekki gerst síðan hún var ein kvenna í hesthúsi drottningar árið 1992.

Fleira gerðist ekki í dag.

kveðja
Langi Sleði

Friday, April 08, 2005

það lentu ský í lófa mínum

Ég þurfti að fara norður í gær.
Það var mjög hratt logn sem varð til þess að vélin hoppaði og skoppaði til, alltaf frekar óskemmtilegt.
Konan í sætinu fyrir framan mig byrjaði á því að öskra mjög fljótlega, og kjökraði svo lengi vel.
Karl aftar í vélinni, fór að hlæja eins og páfagaukur á sterum.
Í þokkabót var mp3 spilarinn minn batteríslaus.
Ég neyddist til þess að hugsa þessar 45 mínútur stanslaust.
Af engri sérstakri, eða augljósri ástæðu, þá fór ég að velta flughræðslu fyrir mér.
Fyndið, að vera í 15000 fetum, geta nákvæmlega ekkert gert, nema að skíta í buxurnar, yfir því að geta ekkert gert.
Þetta er svo yndislega tilgangslaust, svona ef maður fer að hugsa um það. En svo fór flughræðslan að færa sig upp á skaftið, ég fór að hugsa um lofthræðslu, þaðan leið hugurinn að bílhræðslu.
Hræðslur snúast einhvern veginn um aðstæður sem við ráðum ekki við.
Liggur það þá ekki í hlutarins eðli, að konur eru stjórnsamari en menn?
"Við hvað er ég hræddur?"
Mér til mikillar furðu varð til listi sem birtist hér:
Konur, ástin, (hvort tveggja mjög illviðráðanlegt),
langveiki, lömun, (hvort tveggja frekar illviðráðanlegt)
vatnslekar, bílslys, (hvort tveggja illviðráðanlegt)
slöngur, köngulær (hvort tveggja doldið asnalegt)
bómull, . (ok. ég viðurkenni það.. bara fáránlegt)

Það sem bjargaði mér að listinn varð ekki lengri, er að flugfreyjan tilkynnti að aðflug væri hafið. Allt í einu var konan farin að kjökra, kallinn farinn að hlæja, og ég hafði verið snupraður um vondan kaffibolla.

góðar stundir
Langi Sleði

Sunday, April 03, 2005

Að kvöldi dags

Eftir baðdaginn mikla, fannst mér nauðsynlegt að liggja upp í sófa og hlusta á góða tónlist. Dagurinn gekk bara vonum framar, takk fyrir, og heilmiklu var komið í verk. Miles Davis þandi trompetinn, og ekki leið á löngu þar til að ég uppgötvaði að augun voru lokuð. Ég reif mig upp með rótum og skreiddist inn í rúm. Í svefnrofanum dreymdi mig, líklega, af hverju ég hafi aldrei séð mig fyrir mér gamlan.
Skildi það ekki.
Er það ekki alvanalegt að fólk sjái fyrir sér, að eftir 30 ár þá verði það svona og svona, eða hafi a.m.k. einhverja hugmynd um hvert það stefnir og hvað það vill?
Ég verð að viðurkenna að ég hafði nú bara alls ekki pælt neitt í þessu.
Í staðinn fyrir að dreyma, hvernig ég væri gamall, dreymdi mig þessar vangaveltur.
Vaknaði svo útsofinn kl 9. og sá að ég var búinn að afklæða báða koddana mína.
Furðulegt, hugsaði ég, afskaplega furðulegt. Veit einhver hvað mér gekk til?
kveðja
Langi Sleði

Friday, April 01, 2005

Ég þarf að játa...

...að ég var búinn að hlakka til að spila fótbolta í þessu fína veðri sem var í dag.
...að snjókoman sem mætti mér þegar ég kom út, dugði næstum því til að snúa mér við heim.
...að ég var orðinn rennandi blautur og votur eftir 5 mínútur.
...að ég lokaði augunum þegar ég hljóp á móti snjókomunni.
...að eftir 20 mínútur var ég dofinn í tánum og heyrði ekkert nema taktfast skvampið í skónum.
...að eftir 30 mínútur var ég orðinn svo blautur að vatnsprósentan í líkamanum var orðin hærri en í agúrku
...að mér hefur ekki liðið jafn fíflalega síðan ...ég veit ekki hvenær.
...
...jú...þegar ég klemmdi mig hjá Ríkisskattstjóra í gær, en það er ekki þessi saga.

Góðar stundir
Langi Sleði

Terry Schiavo

http://durrrrr.blogspot.com/

Ég veit eiginlega bara það... að það eru bæði kostir og gallar við fá komment!
Vil þó benda líka á linkana, sem benda til þess að um verulega truflaðan einstakling sé að ræða.

Tindátastyrjöld

Kláraði skattaskýrsluna í kvöld, var einhvern veginn búinn að draga þetta í lengstu lög, kvíða þessu skrifelsisveseni.
Svo var þetta bara eiginlega allt komið inn.
Þetta var ekkert mál og mér leið eins og asna þegar þetta var bara alltíeinu búið.
Hafði nú eitthvað gleymt kvöldmatnum en fann að ég var orðinn svangur, stóð upp og sortnaði fyrir augunum.
"Nei! herra Ríkisskattstjóri þetta er orðið óþarflega persónlegt" ...að reyna að gera svona útaf við mig... ég var brjálaður. Ég fékk mér eitt glas af sykri meðan ég smellti súpu í pott og borgara á grillið.
Mér fannst ég þurfa að gera eitthvað, hefna mín. Eftir matinn sjatnaði aðeins í mér og rak þá augun í póstinn minn og sá að B3 tríó voru að spila á Pravda, ég ákvað að skella mér og sá þá fara á kostum. Þeir spila svona orgel-djass-fönk. Ég hannaði í huganum baðherbergið mitt á meðan, og það er orðið hvítt, brúnt og appelsínugult... Veit ekki hvernig mér líst á það á morgun.

Á leiðinni heim, kom ég við hjá Ríkisskattstjóra og pissaði inn um bréfalúguna... ég meina eitthvað varð ég að gera.

free web hit counter